10.11.1981
Sameinað þing: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Sú spurning, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín, er þess eðlis að það er dálítið erfitt að svara henni. Það voru talsvert miklar hugleiðingar, og þess vegna er hætt við að mín svör verði með sama marki brennd og verði nokkrar hugleiðingar af því tilefni sem hún greindi frá í sinni ræðu.

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að þessum málum sé hreyft hér á Alþingi Íslendinga. Vissulega eru það alvarleg tíðindi, sem gerst hafa, og alvarlegir atburðir báðir þeir sem hún minntist á: sú njósnastarfsemi, sem talin er hafa átt sér stað í Danmörku, og landganga kafbátsins í Gæsafirði við Karlskrona. Það er ákaflega eðlilegt að menn velti því fyrir sér, hvernig við séum undir það búnir að mæta slíkum atburðum ef þeir gætu gerst hér.

Nú tek ég það fram varðandi þá njósnastarfsemi sem talin er hafa átt sér stað í Danmörku, að ég hef þar aðeins við fréttir að styðjast, og það sem ég ætla að segja um það miðast við þær, án þess að ég leggi á þessu stigi nokkurn dóm á það, hvort þær séu réttar eða rangar. En eftir fréttum að dæma hefur þarna átt sér stað mjög varhugaverð starfsemi, njósnastarfsemi sem nauðsynlegt er að vera á verði gegn, af því að sú njósnastarfsemi er þess eðlis, að hún getur hæglega átt sér stað í hvaða landi sem er eða a. m. k. tilraunir til hennar. Vafalaust gæti slík njósnastarfsemi átt sér stað hér, hér gæti verið gerð tilraun til slíkra njósna. Við erum þannig settir að við höfum hvorki leyniþjónustu né sérstaka öryggislögreglu. Þær stofnanir eru nokkuð dýru verði keyptar, og ég efast satt að segja um að Íslendingar væri hrifnir af að setja slíkar á fót. En sem betur fer eru slíkar njósnir a. m. k. fátíðar hér svo vitað sé. Það er að vísu ekki fyrir það að synja, að hér hafi verið gerðar tilraunir áður fyrr til þess að njósna, og njósnir hafa átt sér stað, bæði þess háttar njósnir sem hér er talað um, njósnir í þágu erlends ríkis, skulum við segja, og enn fremur vitum við það úr okkar sögu, að njósnir hafa átt sér stað hér innanlands, — ég vil nú ekki segja að mönnum, sem hér sitja, séu þær í fersku minni, en margir kannast við það þegar njósnað var um íslensku varðskipin.

Ég býst við að það verði því miður að segja, að við séum ekki sérstaklega vel í stakk búnir til að mæta hér atburðum á borð við þá sem sagðir eru hafa gerst í Danmörku. Eins og ég sagði er hér ekkert sérstakt starfslið, hvorki öryggislögregla né leyniþjónusta, sem fæst við að athuga það eða fylgjast með eða gæta sérstaklega öryggishagsmuna íslenska ríkisins. Það er að vísu svo, að útlendingaeftirlit og lögreglustjórar og almenn lögregla fylgjast með ferðum og athöfnum útlendinga eins og unnt er og í samræmi við landslög, þ. á m. í samræmi við lög um eftirlit með útlendingum og í samræmi við almenn hegningarlög, því að eins og menn vita liggur mjög þung refsing við því í íslenskum almennum hegningarlögum ef upp kemst um njósnastarfsemi.

Þessi starfsemi útlendingaeftirlits og almennrar lögreglu er sjálfsagt að sumu leyti auðveldari hér en í flestum öðrum löndum vegna fámennis þjóðarinnar, þótt sú staðreynd veiti að sjálfsögðu enga tryggingu. Og eins og ég drap á áðan vitum við að tilraunir hafa áður verið gerðar til njósnastarfsemi hér. Njósnastarfsemi hefur þannig átt sér stað, þó að nokkuð langt sé um liðið frá því að slíkt sannaðist. Hvort þetta gerist í dag vitum við ekki, en það er hægt að segja að það liggja ekki fyrir neinar sannanir um slíkt. Í þessum málum eins og í mörgum öðrum verðum við ekki síst að treysta á árvekni borgaranna og löghlýðni þeirra. Hafi þeir rökstuddan grun um ólöglega starfsemi útlendinga eða innlendra manna, sem væru að starfi í þágu útlends ríkis, ber þeim að sjálfsögðu að gera lögreglu viðvart tafarlaust.

Þeir atburðir, sem hafa átt sér stað í Danmörku, hafa ekki orðið tilefni til þess enn, að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir vegna þeirra hér, og þau mál hefur ekki borið á góma í ríkisstj. En ég tel atveg sjálfsagt að fylgjast vel með í þessum efnum og fá alveg órækar upplýsingar um það, hvernig þessu er háttað í Danmörku. Þær upplýsingar gætu vel gefið tilefni til þess, að hér þyrfti og ætti að gera sérstakar ráðstafanir. En þessi málefni eru að sjálfsögðu fyrst og fremst í höndum hæstv. dómsmrh. og dómsmrn. En utanrrn. ber auðvitað að fylgjast með og fá upplýsingar um hvernig þessu er í raun háttað. Sömuleiðis tel ég sjálfsagt, að gefnu þessu tilefni, að ráðuneytið reyni að fylgjast með því, hverjar reglur gilda og hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar og eru gerðar í nágrannalöndum okkar af þessu tilefni. Ég efast ekki um að þetta tilefni verði til þess, að menn athugi þessi mál mjög rækilega þar og það er sjálfsagt að fylgjast með því. Hitt er svo frekar í verkahring hæstv. dómsmrh., að svara því, hverjar ráðstafanir kynni hér að vera hægt að gera af þessu tilefni. Það getur sjálfsagt verið erfitt að setja beinlínis fyrirbyggjandi reglur um það sem ættu að geta komið í veg fyrir að tilraun til slíks væri gerð. Það held ég að verði erfitt. Hitt getur vel verið, að það þurfi að huga betur að því að haga starfsemi þeirra aðila, sem hafa þetta með höndum, á þá lund að sem mestar líkur séu fyrir því að upp komist um brot ef framin verða. En um þennan þátt skal ég ekki fara fleiri orðum. Ég tel mjög eðlilegt að menn hugleiði þessi mál hér og þeim sé hreyft hér á Alþingi, því að vitaskuld er hér um mjög alvarlegt málefni að ræða.

Hitt atriðið, sem hv. 1. þm. Reykv. drap á, var strand hins rússneska kafbáts í skerjagarðinum við Gæsafjörð nálægt Karlskrona í Svíþjóð. Þar er maður nokkru betur settur en varðandi njósnastarfsemina í Danmörku, vegna þess að þar er við staðreyndir að styðjast og fréttatilkynningu þá sem sænska ríkisstj. gaf út að loknum atburðum. Þar lýsir sænska stjórnin yfir að hún telji hér vera um mjög alvarlegt og gróft brot að tefla sem ekki verði afsakað með því, að um hafi verið að ræða galla í siglingatækjum eða mistök í skipstjórn. Þetta brot er auðvitað þeim mun alvarlegra sem þarna var um bannsvæði að tefla. Á það er minnt í fréttatilkynningu sænsku ríkisstj. Og þó er það allra alvarlegast sem kom fram — og sænska ríkisstj. telur að hafa verði fyrir satt þar sem því hefur ekki verið mótmælt af sovétstjórninni — að kjarnavopn hafi verið innanborðs í kafbátnum. Það var ekki talið fyrst í stað því að þetta er gamall kafbátur.

Það hittist svo á að ég var í Svíþjóð einmitt þegar kafbáturinn fannst, — af tilviljun, má segja, en það er nú önnur saga, því að það var eiginlega gengið fram á hann af fiskimönnum, má ég segja. Það er atriði sem um hefur verið rætt í Svíþjóð og verður sjálfsagt um rætt, hvernig gat á því staðið að kafbátur komst þarna í gegnum skerjagarð inn á bannsvæði og æfingasvæði, upp í landsteina án þess að varnarkerfi yrði vart við. (Gripið frsm í: Það hefur verið með bilaðan kompás.) Bilaðan kompás? (Gripið fram í: Já, bilaðan kompás.) Já, þá er nefnilega ráðgátan þessi: Hvernig í lifandi ósköpunum komst hann svona langt inn í skerjagarðinn með bilaðan kompás? Menn hafa ekki getað leyst þá gátu enn þá.

En kafbáturinn er nú farinn frá Svíþjóð og ég skal ekki segja meira um það tilfelli. Það er ljóst af þeirri fréttatilkynningu, sem ríkisstjórn Svíþjóðar hefur gefið út um þetta, að hún setur fram sín sterkustu mótmæli gegn því broti sem þarna hefur átt sér stað á sænsku yfirráðasvæði og á sænsku bannsvæði.

En það, sem náttúrlega kemur upp í hugann og hv. fyrirspyrjandi vék að, er þetta: Hvernig erum við þá staddir gagnvart slíku? Gæti þetta gerst hér, að kafbátur sigldi upp í landsteina og strandaði þar? Út af því vil ég segja það sem ég hef reyndar oft áður sagt bæði á þessum stað og annars staðar, að varnarstöðin á Keflavíkurflugvelli er fyrst og fremst eftirlitsstöð. Hlutverk hennar er að fylgjast með kafbátaferðum og flugvélaferðum, og það gerir hún fylgist með umferð í lofti á sjó og neðansjávar umhverfis Ísland. Þetta eftirlit er framkvæmt með fullkomnustu tækjum sem til eru á Vesturlöndum í dag. Þær upplýsingar hef ég frá þeim sem til þekkja og eiga um það að vita. Ég get að sjálfsögðu ekki frá eigin brjósti sagt neitt um það. En þó að þessu sé þannig háttað, að þetta eftirlit sé mjög virkt og nákvæmt, er ekki þar með sagt að það sé full vissa fengin fyrir því, að atburður eins og sá, sem átti sér stað í Svíþjóð, sé útilokaður einhvers staðar hér við land. Ég skal alveg láta ósagt um það og ekkert fullyrða. Ég álít þó að líkurnar fyrir því séu ekki miklar.

Eins og hv. þm. er í fersku minni var hér rætt um það s. l. vor, ef ég man rétt, að endurskoða þyrfti lög eða tilskipun frá 1939 um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja o. s. frv. um íslenskt forráðasvæði. Þessar reglur frá 1939 eru orðnar nokkuð gamlar. Samþykkt var hér á Alþingi þál. sem fól dómsmrn. og utanrrn. að láta endurskoða þessi lög. Að þeirri endurskoðun er unnið og það er full þörf á því, vegna þess að reglur, sem gilda um för herskipa, þ. á m. kafbáta, um íslenska landhelgi — um opið haf þarf ekki að ræða í þessu sambandi — eru hvergi nærri viðhlítandi að mínum dómi.

Það er að vísu sagt, að þegar kafbátar fari um íslenska landhelgi eigi þeir að vera ofansjávar. Hugsanlegt er að það bregðist, jafnvel þó að innan landhelgi sé. En ef þeir eru ofansjávar er þeim heimil eftir þessum lögum viðstöðulaus sigling um landhelgina. Og sama gildir um herskip. Varðandi rétt þessara tækja til að koma í hafnir eru ákvæði þessarar gömlu tilskipunar líka heldur ófullkomin, leggja í raun og veru aðeins tilkynningarskyldu á aðilana. Þessi lög þarf að endurskoða, þeim þarf að breyta og gera reglurnar ótvíræðari um þetta efni. Og það hefði vitaskuld þurft að gera og var líka ákveðið að gera án tillits til þess atburðar sem átti sér stað í Svíþjóð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í hugleiðingar í þessu sambandi um kjarnorkulaus svæði eða um friðarhreyfingar. Það getur komið síðar ef tilefni gefst frekar til þess.