07.05.1982
Neðri deild: 88. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4865 í B-deild Alþingistíðinda. (4654)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Matthías Bjarnason (frh.):

Herra forseti. Áður en verður haldið áfram ræðunni langar mig að segja aðeins örfá orð út af aths. hæstv. forseta. Ég fagna því, að hann tekur nú tillit til óska og líka til laga sem Alþingi hefur samþykkt um vinnuvernd. Það er manni mikil huggun að heyra að forseti hefur tekið stakkaskiptum í þessum efnum. Skal svo útrætt um það mál.

Ég ræddi hér í gær um það ástand sem hefði skapast núna í sambandi við þær miklu karfaveiðar sem eru stundaðar af verksmiðjuskipum frá Sovétríkjunum fyrir utan 200 mílur. Af því að ég sé að hæstv. sjútvrh. er að ganga í salinn og þetta skiptir atvinnulífið og skattlagninguna, sem hér er um að ræða, verulegu máli, þá er auðvitað ekki nóg að segja að menn séu mjög uggandi í þessum efnum, heldur verður jafnhliða að hefja viðræður við þessa þjóð. Ég minni á samning sem gerður var á milli Íslands og Ráðstjórnarríkjanna snemma árs 1978 um samstarfsnefnd sem komið var á milli þessara þjóða til þess að tryggja verndun fiskstofnsins á höfunum umhverfis Ístand, bæði innan okkar landhelgi, sem er okkar mál, en utan við landhelgi, sem er mál þeirra þjóða sem sækja veiðar á þessum svæðum. Við vitum að þessi þjóð er með þeim fremstu í veröldinni sem hafa komist upp á lagið með að fiska í mjög djúpu vatni og hafa eytt til þess miklu fjármagni og vinnu. Því vil ég í þessu tilfelli nota þetta tækifæri heldur en vera að standa hér upp utan dagskrár og spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort það verði ekki ákveðið þegar í stað frá hendi ríkisstj. Íslands að kalla þessa nefnd saman til viðræðna um þetta gífurlega hagsmunamál okkar Íslendinga.

Í málefnasamningi eða stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir í sambandi við sjávarútvegsmál: „Fiskveiðar og fiskvinnsla verði samræmd eftir því sem tök eru á, þannig að hagnýting fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja verði sem best. Í þeim efnum verði komið á samstarfi þeirra aðila, sem mestra hagsmuna hafa að gæta um löndun á afla og dreifingu milli staða með það markmið í huga að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinnuöryggi þess fólks sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar.“

Síðar segir: „Lögð verði áhersla á að auka nýtingu hráefnis og draga úr kostnaði, jafnt við veiðar og vinnslu. Gerð verði áætlun um framleiðniaukningu í fiskiðnaði og sérstök áhersla lögð á, að fiskverkunarfyrirtæki nái almennt því marki í hagkvæmum rekstri sem nú þekkist best. Ráðstafanir verði gerðar til þess að beina fjármagni til þessa verkefnis.“

Nú er verið að leggja hér nýjan skatt á þjóðina, á atvinnuvegina. En hvernig reynir ríkisstj. að sinna þessu mikilvæga verkefni sínu? Hvað er gert til þess að fiskvinnslufyrirtækin geti aðlagað störf sín og aukið hagkvæmni? Er verið að bæta fjármagni við til þess að lána í þessu skyni? Nei, ekki aldeilis. Stærsti stofnlánasjóður sjávarútvegsins, Fiskveiðasjóður, er tómur. Greiðslustaða hans er slík að hann kemur ekki til með að greiða eyri í þeim lánsloforðum sem þegar hafa verið veitt til fiskvinnslu í landinu. Hún hefur verið skorin niður í 65 millj. úr 200 millj. og Fiskveiðasjóður getur örugglega ekki greitt þessi lán út og í raun og veru engin von til þess, að það verði hérna megin við áramótin, heldur verður sennilega komið fram á árið 1983. Þetta eru efndirnar í þessum efnum.

Hins vegar er fjárfesting í fiskveiðunum upp á hundruð milljóna, fjárfesting sem hefði mátt bíða vegna þess að loðnuflotinn kemur af öllum þunga inn á bolfiskveiðarnar. Þannig er meginstefna þessarar ríkisstj. í framkvæmd. Það er allt þveröfugt við það sem þeir ætluðu sér í upphafi, þessir menn. En það er alltaf haldið áfram í nýrri og nýrri skattlagningu. Þar stendur ekki á þeim. Og af því að hæstv. dómsmrh, er hér viðstaddur langar mig nú að spyrja hann, þar sem hann á sæti í bankaráði Búnaðarbankans, hvort hann telji að Búnaðarbankinn geti tekið á sig þennan nýja skatt án þess að nokkuð verði breytt vaxtakjörum eða þóknun fyrir þjónustu bankans. Telur hæstv. dómsmrh. að með þessu frv. sé verið að leggja þennan skatt á þann hlutann sem kemur á Búnaðarbankann? Telur hann að Búnaðarbankinn eigi einn að yfirtaka þennan skatt? Telur hann að Búnaðarbankinn eigi ekki þess vegna að hækka útlánsvexti sína eða lækka innlánsvexti eða hvort tveggja? Telur hann að þóknun til bankans eigi að vera óbreytt? Þetta væri fróðlegt að heyra frá hendi bankaráðsmanns.

Ég sé líka hér inni annan bankaráðsmann. Hann er í Útvegsbankanum. Það er 1. varaforseti þessarar deildar. Ég vil líka spyrja hann, af því að hann er í stjórnarliðinu eins og dómsmrh. og báðir úr kjördæmi Jóns Prímusar, hvort hann telji að Útvegsbankinn geti tekið á sig þennan skatt að öllu leyti, án þess að verði hróflað við útlánsvöxtum til hækkunar eða innlánsvöxtum til lækkunar, og þóknun bankans verið óbreytt. Það er fróðlegt að fá að vita það frá mönnum sem eru með reynslu í þessum efnum, hvað þeir telja, hvort þeir hafi ekki athugað þetta gaumgæfilega áður en þeir léðu máls á að samþykkja þetta frv., áður en annar þeirra lagði fram þetta frv. í nafni ríkisstj.

Ég spyr líka hæstv. dómsmrh, að því, hver hann telji að sé munurinn á því að leggja slíkan skatt á viðskiptabanka, ríkisbankana, og að leggja skatt á hin almennu ríkisfyrirtæki í landinu. Hvar á að skilja á milli? Hví á ekki að leggja þá skatt líka á ríkisfyrirtækin? Og þá ætla ég að spyrja hann um Sementsverksmiðju ríkisins þar sem hann á sæti í stjórn. Þykir honum ekki eðlilegt að leggja skatt á Sementsverksmiðjuna? Er hún fær um að greiða slíkan skatt án þess að hækka sementið, eða á að halda áfram leiknum frá því í fyrra að láta Sementsverksmiðjuna taka erlent lán til þess að standa undir hallarekstri? Það kemur einhvern tíma að skuldadögum, en þá verða þessir menn horfnir úr ríkisstj.

Þetta væri fróðlegt að fá að vita frá hendi manna sem eru að leggja þennan óskapnað fram og virðast meina það að koma þessu í gegn á sama tíma og þeir gera ekkert í því sem þeir hétu í upphafi þessa stjórnarsamstarfs.

Mér finnst vera kominn tími til fyrir þá menn, sem telja sig til Sjálfstfl. í ríkisstj., að láta eitthvað í sér heyra, að vera ekki eins og eitthvert hrúgald í sætunum og bíða alltaf meðan Framsfl. og Alþb. eru að deila um hlutina. Það er aldrei talað um þessa menn, að þeir séu til í ríkisstj. Það er bara sagt að það sé verið á fundum um málin í Alþb. og Framsfl. og þar sé verið að rífast. Þegar einhver lausn hefur fengist í bili á deilum þessara flokka, þá er sagt að það rétt sjáist að þeir dragi andann, þessir þrír. Það er furðulegt að hafa slíka forustu í ríkisstj. og að þjóðfélag gangi með svona lík í lestinni. Ég spyr: Hvenær ætla þessir menn að manna sig upp eða standa upp og segja: Við sitjum ekki í svona óstjórn?

Það er undarlegt fólk þetta vinstra fólk, sérstaklega kommarnir. Þegar þeir eru í stjórnarandstöðu er hamast og djöflast á öllu, að allt sé ógert, það sé verið að draga úr framkvæmdum. Það er heimtað að stórauka framkvæmdir á öllum sviðum. Þegar launakröfur voru uppi skrifaði Svavar Gestsson í Þjóðviljann bullsveittur: Af hverju er ekki gengið að kröfum blessaðs launafólksins, verkafólksins í landinu? Því er verið að láta fólkið bíða? Því er verið að kvelja fólk með þessum hætti? En þessir karlar, sem sitja í ríkisstj., þessir karlar, sem stjórna peningamálunum, hreiðra um sig í kerfinu. Þeir hafa það gott, þeir hafa nóga peninga, nóg laun. En af hverju eru þessir menn með fríðindi eins og bílafríðindi?

Hvað sagði Þjóðviljinn þegar Geir Hallgrímsson var borgarstjóri í Reykjavík og Birgir Ísleifur: Að sjá þessa broddborgara vera að veiða fyrstu laxana í Elliðaánum. Þarna er þeim rétt lýst. Verkamaðurinn á eyrinni, hafnarverkamaðurinn, fær ekki að fara með stöngina sína upp í Elliðaárnar og veiða fyrir ekki neitt eins og þessir fínu íhaldsmenn. — Jú jú, svo tóku rauðliðarnir við völdunum í Reykjavík með Sigurjón Pétursson í broddi fylkingar. Ein fyrsta mynd á eftir var Sigurjón með stærðarvindil í munninum og laxveiðistöngina í Elliðaánum fyrir ekki neitt. Þannig er allt í pottinn búið hjá þessum rauðliðum. Og þarna vill Framsókn gamla sænga og líður vel, enda á hún fárra kosta völ, sú útlifaða gamla kona.

Nú spyr ég hæstv. fjmrh. og heilbrh. — hann er víst ekki kominn á fætur: Hvað á að gera núna í launamálunum á sjúkrahúsunum? Á að flytja dauðveikt fólk út af sjúkrahúsunum núna 10. maí, ríkisspítölunum, og 15. maí út af Borgarspítalanum? Af hverju er ekki samið við fólkið? sagði Þjóðviljinn. Af hverju spyr hann ekki núna: Af hverju er ekki samið við fólkið? Hvað er að núna? Hefur eitthvað komið fyrir eða hafa þeir bara skipt um skoðun? Það er dálítið líkt með kommunum og þessu gíruga vinstra fólki og veiðibjöllunni. Þegar veiðibjallan kemst í fiskúrgang í þróm fiskmjölsverksmiðja étur hún yfir sig og nær ekki fluginu því að hún er svo södd. Sama er að gerast hérna með þessa róttæku vinstri menn. Þegar þeir komast að kjötkötlunum éta þeir yfir sig, og þeir komast ekki einu sinni á fund þó að hann sé ekki auglýstur fyrr en kl. 10. Þeir eru svo saddir. En raunalegast af öllu er að það skuli vera þrír sjálfstæðismenn sem halda þessari ólukku við völd. Meira að segja einn sér það og veit það, en hinir tveir vilja ekki vita það.

Hvaða ríkisstj. er það sem hefur farið aðrar eins kollsteypur í efnahagsmálum og núv. ríkisstj.? Hún byrjar á því að viðurkenna að gengið verði að aðlagast framleiðslukostnaði til þess að halda atvinnulífinu gangandi. En svo kemur gamall maður, sem er hættur að fylgjast með tímans rás og efnahagsmálum, á gamlárskvöld 1980 og segir: Við verðum að setja okkur markmið. Markmiðið er 40% verðbólga. Hvað sem það kostar atvinnulífið verður þetta að vera markmiðið. — Þannig var eyðilagður grundvöllur atvinnulífsins sem við erum ekki komnir út úr enn þá og verðum lengi að komast út úr. Svo er gefist upp við þetta, sem eðlilegt er, í byrjun þessa árs. En eftir stendur að það er eftir að rétta af þann mikla halla sem skapaðist af aðgerðum ríkisstj. á árinu 1981. Það er þetta sem er gerð krafa til stjórnarinnar að fara nú að gera eða fara frá ella, sem væri auðvitað miklu happadrýgra fyrir þjóðina að hún gerði. En ekkert á að gera.

Eins og ég sagði í gær eru farfuglarnir ýmist komnir eða að koma til landsins, en farfuglar ríkisstj. eru að fara. Það var einn farinn í gær, það eru tveir farnir í dag og sennilega þriðji á morgun og fjórði á sunnudaginn, en svo vita menn ekki um framhaldið. Hvort þeir fara allir veit ég ekki. En ástandið er þannig í þjóðfélaginu að þessi skattaglaða ríkisstj. heldur áfram að leggja byrðar á almenning og atvinnulífið í landinu og láta fínar stofnanir reikna út verðbólguna miðað við vísitöluvörurnar sem alltaf er verið að svindla og ljúga áfram frá mánuði til mánaðar. Verðbólgan heldur áfram, æðir áfram, og hér er Alþingi upptekið af því að rífast um verksmiðjur, um deilur í orkumálum, og allt situr í sama farinu og fyrir ári. Þó að þessar ákvarðanir hafi nú verið teknar er sjáanlegt á öllu að þessum deilum er ekki lokið. Þannig var þessum málum stefnt. Það var reynt að ganga fram hjá stjórnarandstöðunni við allan undirbúning, eins og þessi ríkisstj. hefur gert í flestum tilfellum. Hún hefur verið verst allra ríkisstj. í því að reyna að ganga fram hjá stjórnarandstöðu í veigamiklum málum þar sem stjórnarandstaðan á fullan rétt á að fylgjast með og taka þátt í stefnumótun. En það hefur þessi stjórn ekki viljað því að hrokagikksháttur stjórnarinnar, ákveðinna manna innan hennar, hefur verið með þeim hætti að þetta hefur ekki mátt. Svo er alltaf gripið til þess að íþyngja þjóðinni í sköttum.

Þetta frv. er dæmigert fyrir það, að verið er að aukaskattana á almenning, á atvinnulífið, á sama tíma og stöðvaðar eru framkvæmdir til þess að auka hagkvæmni í atvinnulífinu. Árangurinn af þessari stefnu er svo minnkandi þjóðarframleiðsla. Í staðinn fyrir að stefna að aukningu þjóðarframleiðslu er markvisst verið að minnka þjóðarframleiðsluna.

Við skulum taka t. d. lítinn samanburð sem sýnir spár á örstuttum tíma. Í haust, þegar við vorum að byrja að vinna að langtímaáætlun í vegamálum í samstarfi við Vegagerðina, var reiknað með spám Þjóðhagsstofnunar um þróun í vergri þjóðarframleiðslu. Í tekjum til vegamála á áætlunartímabilinu var reiknað með í þessari haustspá Þjóðhagsstofnunar að þessi þróun yrði þannig að 2.1–2.4% ættu að gefa 9958 millj. En við endurskoðun á spám Þjóðhagsstofnunar frá 3. mars er þessi tala komin niður í 9533 millj. M. ö. o.: þessi spá, sem bara snertir framlag til vegamála, sem er aðeins 2.4% af þjóðarframleiðslunni, lækkar um 425 millj. á þessu tímabili. Hugsið ykkur lífskjör í þessu landi ef áfram heldur stefna eða stefnuleysi þeirrar ólukku ríkisstj. sem nú situr. Við erum að sigla hraðbyri inn í fátæktina, enda er farið að fara minna fyrir kröfugerðarmönnunum í Alþb. á seinni árum. Það eru líka að þynnast fylkingarnar 1. maí. Það er minnkandi traust á forustumönnum Alþb. og ber ótvíræðan vott um hvert er verið að stefna. En þeir liggja afvelta eins og veiðibjallan. Þeir hafa étið yfir sig.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég taldi nauðsynlegt að rifja upp ástand og horfur í efnahagsmálunum um leið og stjórnarliðið er að myndast við að leggja nýja skatta á þjóðina og er orðið órólegt að geta ekki komist í sumarfrí því að stjórnarandstaðan vill ræða málin og líka ástand þjóðmálanna almennt.

Í önnum þingsins á undanförnum vikum í sambandi við stóriðjumál og raforkuframkvæmdir virðist hafa gleymst hjá allflestum þm. þetta mikilvæga mál, efnahagsmálin, sem eru að verða sífellt meira áhyggjuefni. Það eru blikur á lofti. Við getum ekki mörg ár í röð keypt af okkur atvinnuleysið með nýjum erlendum lántökum. Það kemur einhvern tíma að því, ef slíkir menn eiga að ráða, að lánstraust þjóðarinnar verður búið á erlendum mörkuðum, þó að það hafi verið mjög gott þegar þessi ríkisstj. tók við. Áform hennar í sambandi við erlendar lántökur miðað við stjórnarsáttmálann hafa að engu orðið, eins og menn geta séð með því að bera saman stjórnarsáttmálann og það, að nú þegar eru erlendu lántökurnar komnar svo hátt að rúmlega fimmta hver króna af því, sem framleitt er og selt til útlanda, fer til greiðslu afborgana og vaxta af erlendum lánum.