11.11.1981
Efri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það gleður mig jafnan þegar ég get tekið undir með hæstv. fjmrh., og ég vil gjarnan gera það nú. Ég tel að tími sé til þess kominn, ef menn hugsa sér að halda áfram á þeirri braut að skerða framlög ríkissjóðs til fjárfestingarlánasjóða og ýmissa framkvæmda, að breyta þeim lögum, sem um þetta fjalla heldur er að flytja ár eftir ár frv. sem þetta um slíka skerðingu. Ég bendi á það, að skerðing þessara sjóða hefur farið árvaxandi og með þessu er verið að skerða framkvæmdafé af skatttekjum hverju sinni. Það er verið að skerða framlög ríkissjóðs af skatttekjum, en nota þá peninga til þess að þenja út ríkisútgjöldin á öðrum sviðum, — ekki til þess að spara, heldur til þess að þen ja út ríkisútgjöldin á öðrum sviðum. Þegar þannig er að málum staðið er auðvitað ekki nein heil brú í því að bera saman milli ára útgjöld til þarfa ríkisins í A- og B-hluta fjárlaga, þegar stórar fjárhæðir eru færðar út fyrir þetta kerfi og sjóðirnir síðan látnir taka lán á móti. En nóg um það. Ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðh., ef menn hugsa sér að halda áfram á þessari braut, sem ég sé í raun ekki neitt athugavert við, annað en að nota þá peninga til útgjalda ríkissjóðs á öðrum sviðum, að þá ætti að breyta þessum lögum þannig að það væri einhver ákveðin heildarstefna í þessu, en ekki að flytja slíkt frv. ár eftir ár sem hér er flutt um skerðingu, þar sem í rauninni eru numin úr gildi gildandi lög að því er þetta varðar á hverju ári.

Sú lánsfjáráætlun, sem þessu frv. er ætlað að staðfesta, er að mörgu leyti athyglisverð. Hún gerir ráð fyrir að ríkissjóður stórauki útgáfu spariskírteina, auki útgáfu spariskírteina um 66.6%. Hún gerir ráð fyrir að ríkissjóður og opinberir sjóðir stórauki kaup sín á skuldabréfum lífeyrissjóða og að tekin verði með lögum 45% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í þarfir hins opinbera. Um það urðu snarpar umr. á Alþingi á sínum tíma þegar ætlunin var að lögfesta að 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna yrði tekið til þessara sömu þarfa, og þá sagði hógvær maður, hv. fyrrv. þm. Eðvarð Sigurðsson, að verið væri að lögþvinga lífeyrissjóðina með valdi sem væri öndvert vinnandi fólki í landinu. Nú er sem sagt núv. hæstv. ríkisstj. að hugsa sér að seilast dýpra með lögþvingunum að þessu leyti og auka lögþvingaðar lántökur sínar hjá lífeyrissjóðunum um rúm 60%. Þó kastar tólfunum að því er varðar lánsfjáröflun þeirrar lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar sem fylgir þessu frv. Þar er gert ráð fyrir að auka erlendar lántökur um 146%, eins og ég hef áður bent á áður.

Hæstv. ráðh. hefur gagnrýnt þessa tölu mína og talið mig fara þar með blekkingar og ég veit ekki hvað. Hins vegar varð hann nú að viðurkenna að þessi tala er alveg hárrétt. Það er gert ráð fyrir að auka erlendar lántökur til A- og B-hluta fjárlaga með þessu frv. um 146% frá því í fyrra. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að í þessari lántöku í ár er 60 millj. kr. lántaka til fyrirhugaðrar stórvirkjunar og fjáröflun til stórvirkjana hefur ekki verið á A- og B-hluta fjárlaga áður. Engu að síður, þó að þessi tala sé dregin frá, er hæstv. ráðh. að fara fram á heimildir til þess að hækka erlendar lántökur til A- og B-hluta yfir 100% frá lánsfjáráætlun í fyrra. Ég sé að hæstv. ráðh. hristir höfuðið. Það er því miður á rökum byggt sem ég segi, að með þessu frv. er fyrirhugað að auka lántökur, þótt þessi umrædda upphæð sé tekin út úr, yfir 100% til A- og B-hluta.

Eitt er athyglisvert við þetta frv. og þá lánsfjáráætlun sem það styðst við. Það er sú forsenda sem þessi lánsfjáráætlun hvílir á, 33% hækkun á verðlagi milli áranna 1981 og 1982. Þar er um sömu forsendu að ræða og í fjárlagafrv. og er þar kölluð hugsanleg reiknitala, en ekki markmið eða ekki mat ríkisstj. á því, hvað muni gerast á næsta ári.

Nú er auðvitað miklu alvarlegra mál að byggja fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á slíkri hugsanlegri reiknitölu heldur en fjárlög, vegna þess að þá hlýtur að gerast annað tveggja, ef þessi hugsanlega reiknitala bregst og verðlagshækkanir verða miklu meiri, — þá hlýtur að gerast annað tveggja, þegar um fjárfestingar er að ræða, að það verður að skera stórkostlega niður fjárveitingar eða stórauka lántökur. Því miður verð ég að segja alveg eins og er, að það eru litlar horfur á að verðlag hækki ekki meira en um 25% frá ársbyrjun til ársloka 1982, en það þyrfti að vera ef þessi forsenda, sem fjárlög og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun hvíla á, ætti að standast. Ef verðlag hækkar meira frá ársbyrjun til ársloka 1982 en 25% verður að vera annað tveggja: skera stórkostlega niður frá þeirri áætlun, sem gert er ráð fyrir um fjárfestingu, eða auka lántökur. Og eins og ég sagði eru því miður litlar horfur á að verðlag hækki ekki meira en um 25% frá ársbyrjun til ársloka á næsta ári.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan spyrja hæstv. viðskrh., sem talaði þannig við 1. umr. fjárlaga að þetta væri ekki hugsanleg reiknitala í hans huga, 33% verðlagshækkun milli áranna 1981 og 1982, heldur teldi hann a. m. k. vera markmið ríkisstj. í niðurtalningu verðbólgunnar að þessi árangur næðist á næsta ári. Ég þarf ekki að vitna beint í orð hæstv. ráðh. þar sem hann er hér og getur staðfest hvort þetta er rétt skilið. En mér finnst mjög mikilvægt alveg sérstaklega um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun að fá úr því skorið, hvort reiknitala frv., 33% verðbreytingar milli áranna, er hugsanleg reiknitölu, eins og hæstv. fjmrh. vill vera láta, eða markmið ríkisstj. Það breytir öllu, vegna þess að ef svo er og ríkisstj. hefur eitthvað uppi í erminni til þess að tryggja að sú framþróun verði í verðlagsmálum á næsta ári, þá er hér að sjálfsögðu um að ræða miklu traustari áætlunargerð en ella.

Í sambandi við þetta frv., sem eins og ég sagði áðan er frv. til staðfestingar á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, er rétt að vekja athygli á því enn einu sinni, að í mörg ár og alveg sérstaklega í tíð núv. ríkisstj. hafa lántökur til umsvifa ríkissjóðs verið stórauknar. Árið 1978 voru lántökur af heildarráðstöfunarfé ríkisgeirans á því ári rétt innan við 7%, — lántökur í hlutfalli við heildarráðstöfunarfé ríkissjóðs á þeim tíma. En nú er þetta hlutfall komið upp í 13.5%. Við þessari þróun hef ég varað undanfarin ár. Þetta er afleiðing af þeirri stefnu hæstv. ríkisstj. að halda sífellt áfram að þenja út ríkisgeirann, ef ekki með sköttum, ef ekki með niðurskurði á framkvæmdalögum, þá með lántöku. Allt þetta hefur hún í raun notað til þess að þenja út ríkisgeirann þó. Þó kastar tólfunum í ár þegar upphæðin, sem hæstv. ríkisstj. tekur að láni, er orðin 13.5% af því ráðstöfunarfé sem hún fær af skatttekjum og öllu ráðstöfunarfénu. (Viðskrh.: Hvar vill þm. skera niður?) Hæstv. ráðh. talaði langt mál um það við 1. umr. fjárlaga, að hér væri komið út á vafasama braut með lántökur ríkissjóðs. (Gripið fram í.) Það var gott að hæstv. ráðh. minnti mig á það. Ég ætlaði einmitt að upplýsa hv. dm., sem ekki voru við umræðuna, um að hæstv. ráðh. talaði þar að mörgu leyti mjög skynsamlega að mínu mati og benti á að hér væri komið út á meira en vafasama braut, enda skal ég koma inn á það í örfáum orðum hvað lántökur, erlendar lántökur sérstaklega, stefna í mikið óefni hjá okkur.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að raforkuframkvæmdir í landinu dragist saman að magni til um 43.5%, og það er gert ráð fyrir að hitaveituframkvæmdir dragist saman um 31.5%. Þetta stendur allt í þessu plaggi hæstv. ríkisstj. Samt sem áður er erlend lántaka verulega miklu meiri en hún varð á síðasta ári og heldur áfram að aukast gífurlega fjórða árið í röð. Frá því um áramót 1977–1978 höfðu löng erlend lán aukist til ársins í ár um u. þ. b. 450 millj. Bandaríkjadollara eða 77% í erlendri mynt, og á þessu ári heldur þessi þróun áfram þannig að samkv. lánsfjáráætluninni er hrein aukning rúmur milljarður nýkr. og verður skuld þjóðarbúsins samkv. þessari áætlun 8375 millj. nýkr. eða 8.4 milljarðar gkr. í löngum erlendum lánum. Það eru 37% af þjóðarframleiðslu og þetta hlutfall hefur aldrei verið hærra. Gert er ráð fyrir að greiðslubyrði í prósentum af útflutningstekjum fari upp í 17–18% á árinu 1982, en þetta hlutfall var, ef ég man rétt, um 12–13% fyrir nokkrum árum. Það lætur sem sagt nærri að um fimmti hver fiskur, sem við drögum á land, fari í afborganir af erlendum lánum, og það er uggvænleg þróun, að á sama tíma sem slíkur samdráttur sem ég lýsti áðan verður í okkar orkuframkvæmdum skuli þetta gerast.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að um þetta mál var rætt verulega í tengslum við fjárlagaumr. fyrir nokkru í Sþ. Það er því kannske óþarfi að fjölyrða mikið um það. En ég vil endurtaka spurningu mína til hæstv. viðskrh., sem ég tel mjög mikilvæga, hvort hann telur þá forsendu, sem þessi áætlunargerð hvílir á, 33% verðbreytingar milli áranna 1981 og 1982, hreina reiknitölu eða markmið ríkisstj.

Þá er annað atriði sem ég vil spyrja hann eða hæstv. fjmrh. um, hvort samstaða sé um það í ríkisstj. sem stendur á bls. 14 í grg. með þessu máli, þ. e. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Þá er þess að geta, að fyrirhugað er að leggja sérstakt gjald á raforkusölu eftir stofnlínum.“ Er samstaða um það í hæstv. ríkisstj. að leggja þetta gjald á, og hvers vegna var þá ekki gert ráð fyrir því í tekjuáætlun fjárl. þar sem þarna er að sjálfsögðu um skattlagningu að ræða sem á ekki heima í lánsfjárlögum. Er samstaða um hvernig menn hugsa sér að leggja þennan nýja skatt á? Og þá að síðustu, þar sem hæstv. viðskrh. svarar þessu vafalaust, spyr ég, hvort hann og hæstv. ráðh. Framsfl. hafi einhverja fyrirvara við frv. til lánsfjárlaga eins og þeir höfðu við fjárlagafrv.