16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir vinsamleg orð hans í garð þessa máls, þrátt fyrir efasemdir sem hann persónulega hefur um þörfina fyrir það, það er að sjálfsögðu rétt hjá honum, að enginn setur, hvorki flokkar né aðrir, okkur Íslendingum nein skilyrði um trúarsöfnuð. Við förum þar að eigin sannfæringu og vilja. En því verður ekki í móti mælt, að hér er þjóðkirkja, og þess vegna ber Alþingi nokkrar skyldur gagnvart þeirri kirkju þó að ekkert sé því til fyrirstöðu að þingið liðsinni á einn eða annan hátt öðrum trúarsöfnuðum. Vera má að einhverjir stjórnmálaflokkar kæri sig ekki um að koma nálægt tengslum við þjóðkirkjuna. Ég dreg það satt að segja í efa. En ef svo fer er það vandamál sem ekki verður erfitt að yfirstíga.

Ég er sammála hv. þm. um það, að persónulegt samband hvers og eins við þessa stofnun er auðvitað mikilsverðast. En ég ítreka það, að þar sem um þjóðkirkju er að ræða, þar sem fjármál hennar og framkvæmdir á hennar vegum eru algerlega háð ríkisvaldinu, ber Alþingi skylda til þess að sinna því eins og öðrum verkefnum hins íslenska ríkis.