16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

74. mál, þingsköp Alþingis

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er flutt nú, er ekki nýtt af nálinni. Það hefur áður verið rætt á Alþingi. Ég ætla ekki að leggja mat á það á þessu stigi, hvort ég fylgi hugmyndinni, sem fram er borin, eða ekki. Verði frv. að lögum og sú nefnd, sem þar um getur, sett á laggirnar, þá held ég að rétt sé að sú nefnd, sem fær frv. til meðferðar, hafi í huga hvort ekki sé rétt í sambandi við lög samþykki á Alþingi, þar sem tekið er fram að ráðh. skuli setja reglugerð um nánari útfærslu, að reglugerðin verði send til athugunar hjá nefnd og fái staðfestingu Alþingis áður en hún kemur til framkvæmda. Oft eru reglugerðir alls ekki í anda laganna eins og um þau er rætt hér á Alþingi og samþykki. Ég held að mesta hættan liggi í reglugerðum eftir að lög eru samþykkt á Alþingi. Ég legg til að sú nefnd, sem fær þetta frv. til athugunar, athugi þessa hlið um leið.