17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hræddur er ég um að enn hafi verið rennt stoðum undir þá fornu skoðun, að æskilegt væri að 1ögfróður maður sæti hverju sinni í embætti dómsmrh. Staðhæfing fyrrv. dómsmrh., hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, um að flytjandi útvarpsþáttarins um Daginn og veginn beri algerlega ábyrgð á orðum sínum og efni þáttarins hverju sinni fær varla staðist. Fyrir liggja álitsgerðir þriggja, að því er ég best veit, prýðilegra lögfróðra manna um að Ríkisútvarpið beri hina endanlegu ábyrgð á öllu töluðu máli sem í það er flutt.

Ég fylgdist með mörg fyrstu árin sem útvarpið flutti útdrátt úr leiðurum dagblaðanna. Til þess voru settir greindir og gegnir málfróðir menn að gera þessa útdrætti og sættu jafnan gagnrýni, sem eðlilegt var, fyrir þau störf, sem voru erfið. Þá hygg ég að hafi verið greitt minna fyrir þetta starf en nú er gert. En það hlýt ég að segja, að ég gat oft og tíðum ekki legið þessum ágætu mönnum á hálsi fyrir það, þótt erfiðlega gengi að tína út úr leiðurunum kjarna máls, stytta þá þannig að aðalatriðin kæmu fram, því að gjarnan var það svo, að aðalatriði fundust ekki í þessum ritstjórnargreinum. Og nú spyr ég: Er leiðarahöfundi, er höfundi ritstjórnargreinar, þar sem aðalatriðið verður ekki fundið þó að leitað sé með logandi ljósi, trúandi til að stytta ritstjórnargreinina með þeim hætti að þessi kjarni málsins komi fram? Ég leyfi mér að draga það stórlega í efa. Ég held að Ríkisútvarpið verði að vinna þetta á eigin ábyrgð í góðri sátt við ritstjóra blaðanna. E. t. v. mætti leggja í þetta enn þá meiri vinnu en gert hefur verið, hafa samráð við höfunda og jafnvel þá á þá lund að ritstjórnargrein væri skrifuð upp á nýtt og aðalatriðinu komið ljóslega til skila í ritstjórnargreininni sjálfri.

Annars byrjuðu þessar ritstjórnargreinar býsna snemma eftir að tekið var upp á því að útvarpa þeim eða hluta úr þeim að hafa áhrif á sjálfa samningu greinanna. Ég man t. d. eftir ritstjórnargrein í Þjóðviljanum, sem byrjaði svona: Í þessum útvarpsþætti.

Ég sem sagt ítreka þá skoðun mína, að þetta verði að vera á ábyrgð útvarpsins svo sem verið hefur.