17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

331. mál, gróði bankakerfisins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er fyllsta ástæða til að ræða þessi mál sérstaklega hér á Alþingi í ljósi þeirrar furðulegu umræðu sem í raun hefur átt sér stað um þessi mál á almennum vettvangi að undanförnu. Mér finnst furðulegt að menn tali í öðru orðinu um hagnað en í hinu um tölur í efnahagsreikningi bankakerfisins. Eitt er hagnaður, annað er efnahagsstaða.

Það eru í rauninni þrír liðir sem hér hafa verið ræddir. Það er í fyrsta lagi hagnaður Seðlabankans. Þá skulum við gera okkur grein fyrir því, að hagnaður hans kemur fram á rekstrarreikningi, en ekki á efnahagsreikningi. Hagnað hans má lesa af rekstrarreikningi. Í öðru lagi er verið að tala um efnahag Seðlabankans. Og í þriðja lagi er verið að tala um viðskiptabanka. Hæstv. viðskrh. gaf tölur bæði um rekstrarhagnað þeirra og eins um eiginfjárstöðu. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn haldi þessu aðskildu.

Ef við litum fyrst á hagnað viðskiptabankanna og spyrjum okkur hvort hann, þ. e. a. s. sá hagnaður sem birtist á rekstrarreikningi viðskiptabankanna, eigi að vera til úthlutunar í þjóðfélaginu, þá má vel vera að hann eigi að vera til úthlutunar í þjóðfélaginu. En þá spyr ég: Hverjir eru það sem eiga kröfu í þann hagnað? Hvernig varð sá hagnaður til hjá viðskiptabönkunum? Jú, hann varð þannig til að útlánavextir voru hærri en innlánavextir að raungildi og sparifjáreigendur fengu ekki raunvexti. Það eru því sparifjáreigendur sem eiga kröfu í hagnað viðskiptabankanna.

Að því er varðar hagnað Seðlabankans af viðskiptum t. d. við aðila sjávarútvegsins finnst mér ekki eðlilegt að það sé hagnaður af því, en sá hagnaður á að koma fram á rekstrarreikningi. Að því er varðar efnahagsreikning Seðlabankans gegnir allt allt öðru máli. Þar er um að ræða uppfærslu á eignum. Þar er í raun og sannleika um gjaldeyrisvarasjóðinn að ræða. Þessi sjóður er sameign allrar þjóðarinnar og verður ekki úthlutað til einhverra einstakra útvalinna hópa. Fyrir gjaldeyrisvarasjóðnum hefur þjóðin unnið öll í sameiningu og hún á hann saman. Honum verður ekki úthlutað til neinna einstakra hópa. Það mundi auk þess stefna efnahagslegu sjálfstæði okkar í enn frekari voða að ganga á gjaldeyrisvarasjóðinn. Það væri nú til að kóróna vitleysuna í þessu þjóðfélagi, þegar allir sjóðir hafa verið tæmdir, herra forseti, og teknir peningar að láni, að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum.