19.11.1981
Sameinað þing: 23. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

56. mál, stefnumörkun í fjölskyldumálum

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þó að þessi till. láti ekki mikið yfir sér er henni þó ætlað að steypt sé í eina löggjöf málefnum sem spanna raunar yfir mjög stóran hluta þeirra viðfangsefna sem fjallað er um bæði í bæjarstjórnum og á Alþingi. Í tillgr. er talað um að undirbúa löggjöf um samræmda stefnu í málefnum er varða eflingu og vernd fjölskyldunnar með tilliti til mikilvægis hennar í þjóðfélaginu, og í grg. eru nefnd í þessu sambandi tryggingamál, framfærsluskylda, dagvistarmál, skólatími, sifjalöggjöf, atvinnumál, vinnutími, skattamál, launamál, húsnæðismál, íþróttaiðkanir og frístundastarf og vandamál aldraðra sem þurfi að taka til athugunar varðandi þessa löggjöf.

Þegar til þessa er litið, að till. spannar raunar yfir allan þennan fjölda málaflokka, þá hlýtur að vera nauðsynlegt að fá fram hvernig flm. hugsa sér að taka eigi á þessum málum. Án skilgreiningar á því er till. marklaus. Í tillgr. er talað um löggjöf um samræmda stefnu og nefndir til í grg. 12–15 stórir og raunar ólíkir málaflokkar. Hvernig hugsa flm. sér útfærslu á slíkri löggjöf? Er hugmyndin að samræma í eina heildarlöggjöf alla þá þætti, öll þau viðfangsefni á pólitíska sviðinu sem stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar? Þurfum við þá ekki að tína til fleiri þætti en hér eru upp taldir í grg.? Hvað með skipulagsmál, umhverfismál, snerta þau ekki einnig málefni fjölskyldna? Hvað með foreldrafræðslu, fjölskylduráðgjöf, fullorðinsfræðslu? Eigum við að taka þessa þætti inn í samræmda löggjöf til að vernda og efla fjölskylduna, eins og segir í grg.? Hvernig getum við verndað og eflt hag fjölskyldna sem þurfa að fást við hin ýmsu vandamál sem af fötlun einstaklinga innan fjölskyldna leiðir? Eigum við að taka vandamál þeirra upp í samræmda löggjöf til að efla og vernda hag fjölskyldunnar? Af hverju eru þessum málaflokkum ekki einnig gerð skil í grg. ef samræma á í löggjöf málefni er snerta hag fjölskyldna í þessu landi?

Þm. hljóta að verða að fá svar við því og nánari skilgreiningu, hvað við er átt í þessari till., sem einungis kveður á um að koma á löggjöf um samræmda stefnu er varðar eflingu og vernd fjölskyldunnar með tilliti til mikilvægis hennar í þjóðfélaginu, án þess að fram komi nokkur skilgreining á hvernig ná eigi því marki. Bæði félagssamtök og stjórnmálaflokkar hafa sett fram marktæk stefnumið og hugmyndir sem hafa þann tilgang að treysta fjölskylduna í sessi. Ljóst er að þessir aðilar hafa mismunandi sjónarmið á því, hvernig skipan þessara mála eigi að vera, hvaða leiðir séu heppilegastar til þess að vernda hag fjölskyldna. Viðhorf manna og stjórnmálaflokka eru mismunandi og margvísleg í þessu efni og kannske ekki síður ólík í þessum málum en öðrum og taka fyrst og fremst mark og mið af lífsviðhorfum fólks og stefnumálum hinna ýmsu flokka.

Reynt hefur verið að koma á félagsmálalöggjöf t. d. og nefnd starfað að því að sameina í eina löggjöf hin ýmsu viðfangsefni á félagsmálasviðinu. Það hefur ekki enn tekist, og skilst mér að sú nefnd hafi klofnað í afstöðu til þess máls. Ef von á að vera um að koma á samræmdri löggjöf um öll þau mál, er snerta málefni fjölskyldna og taka til enn fleiri þátta en beint snerta hið félagslega svið, þá hlýtur að vera lágmarkskrafa að þeir, sem leggja það til, geri þingheimi grein fyrir því, hvernig þeir vilja ná því markmiði, skilgreini að hverju beri að stefna í þeim málaflokkum sem upp eru taldir. Hlýtur það einnig að vera nauðsynlegt fyrir þá nefnd, sem fær þetta verkefni til úrlausnar og ráð er fyrir gert í þessari þáltill., að fá fram skilgreiningu á hver sé vilji löggjafans í þessu efni með tilliti til hvers málaflokks um sig sem miðar að því að vernda og efla hag fjölskyldna.

Á flokksþingi Alþfl. í síðasta mánuði var einmitt fjallað um þessi mál. Þar var nákvæmlega skilgreind stefna Alþfl. í hverjum þeirra málaflokka fyrir sig sem snerta fjölskyldumálefni. Í hverjum málaflokki fyrir sig var skilgreind stefnan um að hverju bæri að keppa til að vernda og efla hag fjölskyldna. Þegar rætt er um stefnumörkun í fjölskyldumálum hljóta stjórnmálaflokkar að viðhafa slík vinnubrögð ef þeir vilja láta taka sig alvarlega í þeim málum. — Þetta vildi ég láta koma fram við 1. umr. um þetta mál.