24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er vissulega ástæða til að fagna því, að þessi mál skuli bera á góma hér. Og það er rík ástæða til að binda miklar vonir við þær viðræður sem eiga að hefjast í lok þessa mánaðar um viðleitni til þess að draga úr kjarnorkuvígbúnaði í Evrópu. Auðvitað er það ein af meginstaðreyndum þessa máls, að atburður sá, sem gerðist í Svíþjóð fyrir skömmu, hefur breytt þessari umræðu allri mjög verulega, sveigt hana inn á nýjar brautir og sömuleiðis breytt þeim hugmyndum, sem fólk á Norðurlöndum áður hafði um þær hættur sem að steðjuðu í þessum efnum.

Þessi mál eru mönnum náttúrlega einkar hugleikin í Svíþjóð þessa dagana og mikið um þau skrifað og fjallað. Í sænska blaðinu Dagens Nyheter s. l. laugardag er yfirlit, sem gert er af afvopnunarsérfræðingnum og rannsóknarmanni við utanríkismálastofnunina, Milton Litenberg, um það, í hve ríkum mæli sovésk vopn beinist að Svíþjóð. Þar kemur m. a. fram að talið er að 4800 kjarnahleðslur beinist að Svíþjóð með einhverjum hætti eða án þess að þær séu fluttar til frá þeim stöðum þar sem þær eru nú, á Eystrasalti séu a. m. k. 102 og í kringum Leningrad séu 150 skotstaðir fyrir kjarnorkuvopn sem einkum beinist að Norðurlöndum. Þetta eru auðvitað óhugnanlegar tölur, að ekki sé meira sagt.

Þá mun það fram komið og fyrir því öruggar heimildir, að undan Austfjörðum, undan Austurlandi séu að jafnaði allan ársins hring tveir sovéskir kjarnorkubúnir kafbátar búnir fullkomnustu vopnum sem Sovétríkin ráða yfir. Nú vildi ég gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh., hvort einhver svipuð athugun hafi verið gerð að því er Ísland varðar og fram kemur í þessu sænska blaði að því er Svíþjóð varðar, þ. e. í hve miklum mæli kjarnorkuvopn Sovétríkjanna beinist að Íslandi? Ég ætlast ekki til að hæstv. ráðh. hafi svar á reiðum höndum hér og nú við þessu, en hins vegar held ég að eðlilegt væri að þessara upplýsinga væri aflað.