24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. minntist nokkrum orðum á atriði sem ég vildi gjarnan koma nánar að. Það er ræða Bandaríkjaforseta þar sem hann bauðst til þess að beita sér fyrir því, að frestað yrði eða hætt að setja niður þau nýju kjarnorkuvopn í Evrópu sem m. a. hefur verið deilt um, ef Sovétmenn væru reiðubúnir að hverfa frá þeirri stefnu, sem þeir hafa fylgt á umliðnum árum um eflingu kjarnorkuvígbúnaðar síns í Evrópu, og drægju til sín þau kjarnavopn sem þeir hafa komið upp þar. Forráðamenn flestra ef ekki allra vestrænna ríkja hafa látið í ljós viðbrögð við þessari tillögu Bandaríkjaforseta. Hafa þau öll verið mjög jákvæð. Sama máli gegnir um viðbrögð allra blaða á Vesturlöndum sem mér er kunnugt um, þ. á m. margra þeirra blaða sem styðja baráttu friðarhreyfingarinnar fyrir raunverulegri afvopnun en ekki einhliða afvopnun vestrænna ríkja.

Ég vildi gjarnan af þessu tilefni beina þeirri fsp. til hæstv. utanrrh., hvað hann hefði að segja, hvert hans mat og álit væri á þessari ræðu Bandaríkjaforseta, frekar en komið hefur fram áður. Og eins saknaði ég þess mjög í máli hins áhugasama friðarsinna, Ólafs Ragnars Grímssonar, að hann léti þess getið hver væri hans skoðun á þessari tillögu Bandaríkjaforseta. Er hann stuðningsmaður þessarar tillögu um að báðir aðilar nái samkomulagi um afvopnun með þessum hætti, hefur hann ekkert um málið að segja eða er hann andvígur því?

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tók sérstaklega fram í sinni ræðu áðan að menn gengju friðargöngur í hinni frjálsu Evrópu, eins og hann sagði. Þessi skilgreining á Vestur- og Austur-Evrópu í munni Alþb.-manns er ný, en hún er rétt. Hér er um að ræða friðargöngur manna í hinni frjálsu Evrópu. Í hinni ófrjálsu Evrópu ganga menn ekki friðargöngur. Við skulum greina mjög á milli þess þegar menn annars vegar óska eftir því, að um gagnkvæman samdrátt herafla og kjarnorkuvopna verði að ræða í Evrópu og annars staðar í heiminum, og hins vegar þeirra sem berjast fyrir því, að annar aðilinn fórni öllu án þess að hinn aðilinn sýni nokkurn lit á því. Það er von mín og trú, að friðarhreyfingarnar, jafnt friðarsinnar hér á Íslandi sem friðarsinnar annars staðar, beri gæfu til þess að haga málflutningi sínum þannig að tilgangur þeirra verði ekki dreginn í efa.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að málflutningur mjög margra manna, sem vilja breiða yfir sig blæju friðarhyggjunnar, hefur verið meira í þá átt að stuðla að frekari ógnun við frið okkar í Evrópu, okkar Evrópubúa, með því að krefjast þess að annar aðilinn hverfi algerlega frá varnarbúnaði, sem hann hefur haft uppi, á sama tíma og þeim finnst með öllu ástæðulaust eða ástæðulítið að fjalla nokkuð um frumkvæði hins.