24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á tveimur atriðum sem fram hafa komið í þessum umr. Ég get að sjálfsögðu, áður en ég geri það, upplýst hv. þm. Stefán Jónsson um að ég hef aldrei sofið um borð í öðru skipi en íslensku og nánast aldrei komið um borð í önnur skip en íslensk. Þar greinir nokkuð á með okkur vegna þess að hv. þm. mun í sinni tíð sem fregnritari hafa komið um borð í allmörg erlend herskip.

Tvö atriði vildi ég gjarnan benda á í þessu sambandi. Hið fyrra er, að það kom mér nokkuð á óvart að heyra það frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að af tillögum Bandaríkjaforseta væri nokkurt áróðursbragð þar eð hann færi fram á það við Sovétríkin, að þau legðu of mikið af sínum kjarnorkuvopnum niður, og þetta væri e. t. v. ósanngjörn krafa á hendur Sovétríkjunum. Ég hélt að friðarsinni eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mundi fagna því, þeim mun fleiri kjarnorkuvopn sem væru lögð niður, en færi ekki að vekja sérstaka athygli á því, að þarna væri Bandaríkjaforseti ósanngjarn í garð Sovétríkjanna. Ég hef ekki orðið var við það hingað til, að hann telji Sovétríkin ósanngjörn í kröfum sínum gagnvart Bandaríkjunum um hliðstæð efni.

Annað, herra forseti, sem ég vildi vekja athygli á, er að um þetta stórmál, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og Þjóðviljinn hafa rætt seint og snemma umliðna mánuði, hefur af frásögn utanrrh. að dæma aldrei verið rætt í ríkisstj. Enginn Alþb.-ráðh. þar hefur samkv. frásögn hæstv. utanrrh. nokkurn tíma séð ástæðu til að minnast aukateknu orði á þessi stórmál Alþb. og Þjóðviljans. Og ég vek athygli ykkar á því, hv. þm., að um leið og þessi fsp. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og umr. um hana komu hér á dagskrá viku allir ráðherrar Alþb. úr salnum og hafa ekki sést hér síðan. Þeir hafa varað sig á því, allir ráðherrar Alþb., að vera viðstaddir þessar umr. Þeir hafa flúið úr salnum allir með tölu um leið og þeir sáu hvað til stóð, til þess að þurfa ekki að vera viðstaddir og þurfa ekki að taka þátt í þessum umr. og þurfa ekki að svara neinum fsp. um hvernig á því stendur, að þessir hv. þm. og hæstv. ráðh. hafa setið þegjandi allan þennan tíma í ríkisstj., sérstaklega síðustu vikur og mánuði, þegar Þjóðviljinn hefur varla átt nógu stór orð í öllum sínum orðaforða til að lýsa nauðsyn þess, að á þessu máli verði tekið.