26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það bar við í sept. s. l., að óveður gekk sums staðar yfir landið. Í því óveðri varð tjón á Vesturlínu sem flytur raforkuna til Vestfjarða í Mjólká frá aðalorkukerfi landsins. Þessi tíðindi eru mjög váleg fyrir Vestfirði. Vestfjarðalinan er ákaflega þýðingarmikil. Hún er svo þýðingarmikil fyrir Vestfirði, að lagning hennar var forsenda fyrir stofnun Orkubús Vestfjarða á sínum tíma. Þetta var veigamikil forsenda fyrir því að Vestfirðingar töldu sér fært að taka í eigin hendur orkumálin á Vestfjörðum.

Ég ætla ekki að fara að rekja þessa sögu en minni á það, að Vesturlína varð ekki tilbúinn á þeim tíma sem ráð var fyrir gert þegar Orkubúið var stofnað. Var um verulegan drátt að ræða.

Haustið 1980 var svo Vesturlínan tekin í notkun. Þá gerðu menn sér vonir um að gerbreytt ástand yrði í orkumálum Vestfjarða, að liðinn væri sá tími að það þyrfti að keyra dísilvélar til að framleiða raforku á Vestfjörðum nema í undantekningartilfellum. En við þekkjum hvernig var háttað um þessi mál á s. l. vetri. Vestfirðingar fengu ekki nema brot af þeirri orku sem þeir þurftu gegnum Vesturlínu. Það varð að standa áfram undir hinum mikla kostnaði sem er við framleiðslu rafmagns með dísilvélum. En það var vonast eftir að þetta ástand yrði ekki nema til bráðabirgða. Í þeirri von var lagt upp í veturinn í vetur. En þá kom það fyrir, að verulegar skemmdir urðu á Vesturlínu. Og þessar skemmdir hljóta að hafa í för með sér verulegan aukakostnað fyrir Orkubú Vestfjarða, ef tjónið af þessum skemmdum verður látið falla á Vestfirðinga.

En þetta mál er einnig enn þá stærra. Það eru stórtíðindi í raun og veru sem hafa skeð í sambandi við Vesturlínu, vegna þess að tjónið á henni er með slíkum hætti. Vesturlína hefur lagst á hlið á stórum köflum með alveg óvenjulegum hætti. Það er einmitt þetta einkenni þess, sem skeð hefur, sem kallar á það að fá nánari upplýsingar varðandi þetta tjón.

Þess vegna hef ég leyft mér, herra forseti, á þskj. 53 að bera fram fsp. til hæstv. iðnrh. varðandi þetta efni. Það er í fyrsta lagi um það, hvaða skemmdir urðu á Vesturlinu í óveðri sem gekk yfir í sept. s, l. Það er í öðru lagi, hverjar eru orsakir tjónsins? Var um að ræða galla á hönnun línunnar; léleg vinnubrögð við línulagninguna eða að línan væri ekki byggð til að standast slík veður sem hér bar að? Þá er í þriðja lagi spurt að því, hverjum sé ætlað að greiða óumflýjanlegan kostnað af raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með dísilvélum á þeim tíma sem viðgerð línunnar fer fram.

Það eru þessar spurningar, herra forseti, sem ég hef leyft mér að leggja fram fyrir hæstv. iðnrh.