30.11.1981
Sameinað þing: 28. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

330. mál, útboð verklegra framkæmda

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 41 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. samgrh. og er hún svohljóðandi:

„1. Hvaða verk hafa verið boðin út á almennum verktakamarkaði árin 1980 og 1981 hjá eftirtöldum stofnunum:

a. Vegagerð ríkisins.

b. Pósti og síma.

c. Vita- og hafnarmálaskrifstofunni.

d. Flugmálastjórn?

2. Hversu stór hluti af heildarframkvæmdum þessara stofnana var boðinn út 1980 og 1981 og hversu stór hluti var unninn af verktökum samkv. samningum án útboðs?“

Ég bar fram fsp. svipaðs efnis hér í hv. Sþ. 22. apríl 1980 til hæstv. samgrh. og náði sú fsp. yfir árin 1978 og 1979. Þá kom fram í svörum, sem hæstv. ráðh. gaf, að tiltölulega mjög lítill hluti af verkum þessara stofnana er boðinn út á almennum verktakamarkaði þrátt fyrir mjög skýr og ég vil segja ótvíræð lagaákvæði þar um. Hæstv. samgrh. var þá nýtekinn við embætti og hann lét í ljós í þeim umr., sem þá fóru fram, áhuga á því að reynt yrði að taka upp útboð í ríkara mæli þótt hann hefði vissulega á því ákveðna fyrirvara. Þess vegna er fróðlegt að fá það fram nú, hver þróun hefur orðið í þessum efnum hjá þessum fjórum ríkisstofnunum sem undir hæstv. ráðh. heyra, en allar þessar stofnanir hafa með höndum umfangsmikla starfsemi á sviði verklegra framkvæmda og hafa, að því er ég tel, í of ríkum mæli sjálfar haft tilhneigingu til að framkvæma verkin.