02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Nefndin hefur fjallað allítarlega um það frv., sem hér liggur fyrir, og fengið umsagnir um það frá Seðlabanka Íslands, Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda og Sölusamlagi skreiðarframleiðenda. Fulltrúar flestra þessara aðila hafa einnig mætt á fund nefndarinnar til að ræða frv. við nefndarmenn.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykki ásamt brtt. sem fluttar eru á sérstökum þskj., en aðrir nefndarmenn skila séráliti í tvennu lagi. Þær breytingar, sem við leggjum til að gerðar verði á frv., eru í samræmi við bréf sem nefndinni hafa borist, í fyrsta lagi frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og í öðru lagi frá Seðlabanka Íslands.

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt flutti hæstv. forsrh. brtt. við frv. fyrr á þessu þingi. Nefndin hefur tekið þá brtt. upp í sínar brtt. með einni breytingu. Sú breyting felst í því, að upphæðin, sem var í brtt. forsrh. 26 millj. kr., er í okkar brtt. orðuð á þann veg: „allt að 29 millj. kr.“ í samræmi við eftirfarandi ábendingar sem komu fram í bréfi frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, dags. 16. nóv. s. l., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögð hefur verið fram brtt. við frv. þar sem gert er ráð fyrir tiltekinni greiðslu af gengisuppfærslu á endurkeyptum afurðalánum Seðlabankans vegna gengisbreytingarinnar 26. ágúst 1981. Sú upphæð, sem nefnd er, byggist á áætlun sem gerð var um það leyti þar sem endanlegt uppgjör lá þá ekki fyrir. Nú er fyrirsjáanlegt að upphæðin, sem greiða þarf til freðfisksdeildar Verðjöfnunarsjóðs, verður hærri svo að nauðsynlegt er að hækka upphæðina í brtt. í allt að 29 millj. kr., en endanleg upphæð mun verða á bilinu 28–29 millj. kr.“

Hin brtt., sem við flytjum, er í samræmi við bréf frá Seðlabanka Íslands, dags. 17. nóv. s. l., og er á þann veg, að til viðbótar við ákvæði 1. mgr. 1. gr. komi, að gengismunarhlutfallið 2.286% verði eftir 9. nóv. 1981 2.136%, í samræmi við þá breytingu sem gerð var á viðmiðunargenginu fyrr í nóvembermánuði.

Herra forseti. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að með þessum tveimur brtt. verði frv. samþykki. Verði seinni brtt. á þskj. 134 samþykki fellur eðlilega brtt. frá forsrh. niður.