17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

55. mál, orlof

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Það er mjög nauðsynlegt að það nái fram að ganga og engin tilraun verður gerð af minni hálfu til að tefja það á einn eða annan hátt.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hér hljóðs er sú, að ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni að flytja brtt. við umr. — Ég veit ekki hvort á að geta þess hver býsn og ósköp gerðust í gærkvöld eða gær réttara sagt. Hér var komin á borð þm. brtt. með mínu nafni, sem ég hygg að hv. þm. hafi séð strax að var með ólíkindum að kæmi frá mér, enda sýndist það vera hrein firra sem þar var á ferðinni. Þó að ég hefði ekki flutt þá till., en nafnið mitt stóð á henni, dró ég hana að sjálfsögðu til baka og breytti henni eins og ég ætlaði mér að flytja málið.

Hér er um að ræða tvær breytingar á þskj. 190, sem varða þetta mál, og er hvor tveggja til frekara samræmis og leiðréttingar launþegum innan Alþýðusambandsins til handa miðað við það sem gerist hjá öðrum stéttum, eins og t.d. opinberum starfsmönnum. Ég vil þó áður en ég vík að því spyrjast fyrir um hvort ég hafi skilið rétt það sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 10. þm. Reykv. Mér heyrðist hann vera í vafa um hvort þetta frv. — lög þegar það hefur verið samþykkt, tæki til sjómanna. (Gripið fram í: Frídag verslunarmanna.) Frídag verslunarmanna. Já, það var annað. Það hlaut að vera. Það gat varla verið annað en hv. 10. þm. Reykv. væri kunnugt um að þetta orlofsmál næði til sjómanna.

Brtt. sem hér er um að ræða varða í fyrsta lagi 1. gr. „Á eftir 1. mgr. komi ný mgr. er orðist svo: Starfsmaður, sem unnið hefur samfleytt í 10 ár hjá sama atvinnurekanda eða náð hefur 40 ára aldri á því orlofsári sem gjaldfallið er, skal auk lágmarksorlofs samkv. 1. mgr. þessarar greinar fá þrjá daga í orlof, og sá, sem unnið hefur hjá sama atvinnurekanda í 18 ár eða náð 50 ára aldri, skal enn fá þrjá daga til viðbótar.“

Hér er um að ræða að verðlauna þá einstaklinga sem hafa verið í starfi og sýnt langa og dygga þjónustu í sömu atvinnugrein og hjá sama atvinnurekanda og bæta þeim upp með auknu orlofi þá löngu þjónustu sem þessi árafjöldi gefur til kynna. Eins og ég sagði áðan er hér um að ræða að samræma kjör fólks á hinum almenna vinnumarkaði, ekki síst hins almenna verkamanns, félaga innan Alþýðusambandsins, sem tilheyra hinum almennu verkalýðsfélögum, kjörum sem tíðkast eftir síðustu kjarasamninga hjá BSRB. Auk þess munu, að því er ég best veit, vera í samningum ýmissa iðnaðarmannafélaga ákvæði sem veita aukið orlof eftir tiltekinn ákveðinn árafjölda í starfi. Það má því segja að þessi brtt., sem hér er um að ræða, sé bæði til samræmis við það sem félagar innan BSRB hafa fengið í samningum við ríkisvaldið og einnig sé gerð tilraun til að leiðrétta kjör fólks sem er í hinum almennu verkalýðsfélögum innan Alþýðusambandsins svo að þau verði sambærileg við ýmis iðnaðarmannafélög, sem eru, að ég hygg, búin að vera með í nokkuð mörg ár aukinn orlofsrétt þeim til handa sem hafa verið lengi í starfi.

Síðari brtt. er í raun og veru frekari staðfesting á þessu. Þar er sett inn orlofsprósenta miðað við hver lengd orlofsins er hjá hverjum og einum einstaklingi. Við teljum rétt að nái fram að ganga lagaákvæði um verðlaun til handa því fólki sem lengi hefur þjónað í starfi sé jafnframt því sett inn hin ákveðna prósenta sem það á að njóta til orlofs.

Ég þarf ekki, herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt. Það er brýn nauðsyn á að þetta mál nái fram að ganga áður en þinghlé verður gert og þó fyrr hefði verið. Ég skal ekkert blanda mér í þær umr. sem hér hafa orðið um hverjum það sé að kenna að málið hefur dregist, en það er brýn nauðsyn að það verði afgreitt áður en þm. fara í jólaleyfi. Ég legg áherslu á það og ítreka það. Ég trúi því vart, ekki fyrr en ég þá tek á því, að hv. alþm. vilji ekki stíga fram á veginn til meira réttlætis í þessu efni en frv., eins og það kemur frá nefnd, gerir ráð fyrir. Ég vona a.m.k. að réttlætis gæti hjá það mörgum hv. þm. að þeir vilji gera þessa réttarbót til handa láglaunafólkinu, sem er verst sett hvað þetta áhrærir, og vona að þessar brtt. fái samþykki hér í deild.