18.12.1982
Sameinað þing: 33. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

1. mál, fjárlög 1983

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við fjárlagafrv. ásamt þeim hv. þm. Guðmundi Karlssyni og Eggert Haukdal. Þessar till. er að finna á þskj. 238 undir tölulið II. Það sem í þessum brtt. felst er það, að farið er fram á heimild ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán fyrir hlutafélagið Límtré vegna stofntána sem það fær hjá Norræna iðnþróunarsjóðnum og Iðnlánasjóði og í öðru lagi er farið fram á heimild ríkisstj. til að fella niður eða endurgreiða stimpilgjöld af skuldabréfum vegna stofnlánanna. Af því að þessi mál munu vera þm. mjög lítið kunn vil ég í örstuttu máli fara yfir það sem hér er um að ræða.

Það eru fjögur sveitarfélög í Árnessýslu sem hafa stofnað hlutafélag, Límtré hf., sem er ætlað það verkefni að reisa og reka límtrésverksmiðju á Flúðum. Það er áætlað að þessi verksmiðja muni kosta um 17.5 millj. kr. Vélar hafa verið keyptar og þær eru komnar til landsins, verksmiðjuhús er orðið fokhelt og áætlun er um að þessi framleiðsla geti hafist í verksmiðjunni í mars eða apríl n.k. Það er því mjög mikilvægt að ekki verði stór áföll eða stórir erfiðleikar fyrir félagið að koma upp þessum húsum og koma verksmiðjunni í gang, því við þetta mikla fjárfestingu hefur það mikið að seg ja að framleiðslan geti hafist sem fyrst.

Ég gat um að áætlað er að verksmiðjan muni kosta um 17.5 millj. kr. Er áætlað að stofnkostnaður verði fjármagnaður með þeim hætti, að hlutafé verði 30% af stofnkostnaði. Ég vil undirstrika að það er eingöngu hlutafé heimamanna, en ekki hlutafé ríkisins, inni í þessu. Flestir þeir sem eru að fikta við verksmiðjuuppbyggingar hafa viljað fara fram á aðild ríkissjóðs, eins og þm. er kunnugt um frá síðasta þingi. Þetta er algerlega hlutafé heimaaðila. Sveitarfélögin fjögur munu eiga 51% af þessu hlutafé, en einstaklingar 49%. Nokkrir aðilar sem versla með límtré hafa lagt lítils háttar hlutafé í sjóðinn með heimamönnum þarna fyrir austan. Það ætti að verða til þess að tryggja enn betur rekstur þessa fyrirtækis í framtíðinni þegar þeir sem koma til með að dreifa vörunni og nota hana eru með í ráðum. Þá er gert ráð fyrir, eftir þeim venjum sem hafa skapast um iðnaðaruppbyggingu, að Norræni iðnþróunarsjóðurinn muni lána um 25%, Iðnlánasjóðurinn 25% og Byggðasjóðurinn um 20%. Ekki er enn búið að ganga frá þessum stofnlánum, en Norræni iðnþróunarsjóðurinn og Iðnlánasjóður hafa þegar gengið frá sínum loforðum.

Sveitarfélögin og aðrir hluthafar í Límtré hf. hafa staðið að uppbyggingu hlutafélagsins og verksmiðjunnar sjálfrar með miklum myndarbrag, eins og sjá má af því hvað langt þetta verk er komið, en á byggingu hússins var ekki byrjað fyrr en seint í ágústmánuði í sumar. Hlutaféð er ákveðið, eins og ég sagði áðan, 30% af stofnkostnaði. Um 85% af áætlaðri endanlegri hlutafjárupphæð eru þegar innborguð. Af þessu má marka þann áhuga sem menn sem að þessu standa hafa á því að koma þessu verki áfram. Sveitarfélögin hafa veitt ábyrgðir fyrir þeim bráðabirgðalánum sem tekin hafa verið, en munu greiðast upp þegar væntanleg stofnlán hafa verið afgreidd.

Stjórn hlutafélagsins hefur farið fram á það í bréfi til iðnrn., sem gekk einnig til fjvn., og þm. kjördæmisins hafa farið fram á það, að ríkisábyrgð yrði veitt vegna stofnlána sem tekin yrðu í Norræna iðnþróunarsjóðnum og Iðnlánasjóði. Það er ekki fyrir það að þessir sjóðir hafi krafist ríkisábyrgðar, heldur vegna þeirrar ábyrgðartilfinningar sem sveitarfélögin hafa í þessu efni, að fara ekki fram úr hófi með þær ábyrgðir sem á þau eru lagðar. Þess vegna ætla þau að taka á sig ábyrgðir, sem í verður að ganga í sjálfsagt þó nokkuð stórum stíl í sambandi við rekstrarlán þegar verksmiðjan er að fara í gang og sölur hefjast. Þetta er því farið fram á, eins og ég sagði áðan, til þess að létta undir með þeim aðilum sem höfuðábyrgðina bera á hlutafélaginu, að ríkissjóður hlaupi að þessu leyti undir bagga að ábyrgjast stofnlánin og hluta af stofnlánunum og fella niður eða endurgreiða stimpilgjöld af skuldabréfum sem tekin eru vegna þess arna.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þessa till. Ég vil þó aðeins láta það koma hér fram, að hæstv. iðnrh. hefur látið þess getið við mig að hann hafi gengið úr skugga um að ekki þurfi ríkisábyrgð fyrir lánum úr þessum stofns jóði. Það er rétt og ég rengi það ekki. Ég hef rætt í dag við formann hlutafélagsins um hvort ætti að draga til baka þessa till. fyrst svo væri ekki. Hann sagði að það hefði aldrei verið um það rætt að það væri krafa lánasjóðsins um að ríkisábyrgð yrði að ræða, heldur aðeins að létta undir með sveitarfélögunum þannig að þau þyrftu ekki að yfirkeyra sig, og hann legði áherslu á að það væri hægt að verða við þeim óskum hlutafélagsins sem hér eru settar á blað í till.-formi.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta efni, en vænti þess að þm. hafi áttað sig á að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. Það er nauðsynjamál, ég vil að lokum geta um það, ekki síst fyrir þá sök, að með þessum hætti er verið að vinna að uppbyggingu á nýrri atvinnugrein í dreifbýll, en það er talið vera þjóðhagslegt nauðsynjamál eins og við erum öll sammála um. Auk þess er hér um samkeppni að ræða við erlenda aðila og það er því mikils um vert og höfuðatriði að þessi tilraun misheppnist ekki. Virðist stuðningur af því tagi sem hér er óskað eftir í fullu samræmi við þá stefnu að efla og styðja íslenskan iðnað.