18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þær almennu hugleiðingar sem hér hefur verið haldið fram um millifærslur í hagkerfinu, þegar fjármagn er fært til, almennum orðum talað. Ég var sammála því að eðlislægt yrðu slíkar aðgerðir miður heppilegar. Þó hygg ég að það sé grunnfærni að nefna til það mál eitt, sem hér er til umr., en skoða ekki kerfið, ákvörðunarkerfið um fiskverð í heild sinni. Því að hvað halda menn að verðákvörðunarkerfi um fisk, eins og við búum við hér, sé annað en ein heljarmikil millifærsla? Það er orðið almennt viðurkennt.

Ég nefni sérstaklega hvernig hæstv. sjútvrh. Steingrímur Hermannsson hefur haldið á því máli, ekki bara nú um áramótin heldur löngum áður. Út af fyrir sig má segja að hann hafi ekki verið að gera annað en orða það sem allir vita: að í ákvörðunum um fiskverð felast aðrar ákvarðanir, nefnilega um að nýskrá gengi krónunnar. Og til hvers annars er gengi krónunnar skráð upp á nýtt í kjölfar ákvörðunar um fiskverð eins og nú var lýst yfir samdægurs þegar fiskverði var breytt um áramótin — en til þess að millifæra verðmæti, færa verðmæti til?

Það stoðar lítið að horfa á þetta frv. eitt, sem vitaskuld er millifærsla og nákvæmlega ekkert annað, skoða það eitt og einangrað en líta ekki á baksviðið, sem byggist á heljarmiklum millifærslum vegna samninga svokallaðra, sem auðvitað eru ekkert annað en gervimál, sem gerðir hafa verið út á verðmæti sem ekki eru til.

Það er það sem nú átti sér stað. Það er það sem felst í þessu verðákvörðunarkerfi sjávarafurða. Þegar fiskverð er hækkað um tiltekin prósent og því jafnframt lýst yfir að gengi íslensku krónunnar þurfi að lækka um tiltekin prósent til þess að atvinnuvegurinn gangi, þá er það millifærsla. Það er það sem er kjarni þessa máls.

Ég vil aðeins segja það að ég vil mjög taka undir þær almennu hugleiðingar, t.d. hjá hv. 3. þm. Vestf., sem auðvitað eru góðar og gildar og í grundvallaratriðum réttar, en það verður að skoða málið lengra. Það er ekki þessi eina millifærsla, heldur er allt þetta kerfi byggt upp á millifærslum í þágu þeirra aðila í sjávarútvegi sem ganga ekki með öðrum hætti. Það er það sem í grundvelli sínum er svo óheilbrigt. Og það er af þeirri ástæðu sem lagt hefur verið fram frv., sem er 122. mál í þessari virðulegu deild, sem er andvígt millifærslum en ekki einhverjum litlum hluta þeirra, þegar menn eru ekki að tala á móti prinsippinu, heldur að tala á móti einstökum áherslum millifærslna sem þeir í það og það sinnið kunna að vera á móti. Það er auðvitað prinsippið sjálft sem er rangt. En það verður ekki leyst með því að bera fram aðfinnslur við þetta mál eitt.

Það sem er auðvitað orðið úrelt við þetta fyrirkomulag er ákvörðunarkerfið sjálft, sem var stofnað fyrir rúmum 20 árum í tveimur áföngum. Það er fyrst þannig að svokallaður oddamaður var skipaður af Hæstarétti. Þannig stóð það 1960–1964 og þá þannig að Efnahagsstofnun, eins og í lögum stendur, en er nú orðið Þjóðhagsstofnun, leggur til oddamann.

Upphaflega var þetta hugsað sem einhvers konar sáttasemjari og hann vann sem slíkur. En þegar fram liðu tímar gerðist ríkisvaldið frekara til þessara valda eins og gjarnan hendir. Nú er svo komið, og ég vísa í yfirlýsingar frá hæstv. sjútvrh. nú um áramót, að þetta er orðin einhliða ákvörðun ríkisstj. eða ráðh. í það og það sinnið.

Það sem gerist er það að ákveðin er tiltekin hækkun á fiskverði. Það er jafnframt ákveðið og því lýst yfir, að þetta muni vitaskuld þýða — hvort sem það er kallað gengisfellingu eða gengissig. Gengið var fellt í kjölfar þessarar ákvörðunar nokkru síðar. Það er það sem vitaskuld er hluti af þessu kerfi og er miklu stærri og miklu spilltari millifærsla heldur en sú sem hér er verið að lýsa.

Og séu menn á móti millifærslum, þá eiga menn að tala gegn prinsippinu en ekki tala um að þeir séu á móti millifærslum af því að þeim líki ekki hvert er millifært það og það sinnið. Þá eru menn komnir út í frumskóg sem er auðveldara að fara inn í heldur en að sleppa út úr aftur.

Það er af þeirri ástæðu sem nauðsynlegt er að gera miklu dýpri og annars konar og róttækari breytingu á verðákvörðunarkerfi sjávarútvegsins, nefnilega þá að leggja niður Verðlagsráð sjávarútvegsins. Það verður auðvitað að hafa einhvern aðlögunartíma, en þegar það hefur verið gert, þá semja menn eins og frjálsir menn væru og bera ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera.

Það eru auðvitað gersamlega ábyrgðarlausir samningar sem menn gera þegar menn gera út á lækkað gengi íslensku krónunnar og guð og menn vita að í baksviði samninganna er loforð frá stjórnvöldum um gengisfellingu, sem er millifærsla í þágu útgerðarfyrirtækja sem stæðust ekki að öðrum kosti. Það er þetta sem er svo rangt í þessu kerfi.

Mitt mat er það að þær hliðarráðstafanir sem hér eru gerðar, sem vitaskuld eru hreinar millifærslur, séu minni háttar mál við hliðina á prinsippinu sjálfu, nefnilega kröfunni um það að þeim sem draga fiskinn úr sjó annars vegar og hinum sem vinna hann hins vegar sé gert kleift eftir vissan aðlögunartíma að semja eins og frjálsir menn og bera ábyrgð á niðurstöðum samninga sinna. Þá fyrst mundum við yfirgefa það ógeðfellda millifærslukerfi sem hér hefur verið skapað. En að verja það að fiskverð sé hækkað um tiltekin prósent, gengið sé daginn eftir fellt og verðmæti þar með millifærð frá öllum neytendum í landinu skulum við segja og til þessara fáu fyrirtækja og gera enga athugasemd við það, en gera síðan athugasemd við þetta eitt, það er ekki heil brú í þeim málflutningi. Þá eru menn ekki að tala á móti millifærslum í eðli sínu. Þegar menn hafa uppi tillögur um raunverulega kerfisbreytingu, þá fyrst er heil brú í röksemdum á móti millifærslukerfinu. Að hækka fiskverð og lækka gengi daginn eftir, það er hin ógeðfellda og spillta millifærsla sem við þetta kerfi loðir.

Nú er það svo að ríkisstj. sem situr að völdum hefur meiri hl. þm. á Alþingi en ekki meiri hl. þm. í annarri deild þingsins, eins og þjóðin öll auðvitað veit. Einnig er það ekkert leyndarmál lengur og kannske ekki heldur feimnismál, eins og það var, að fiskverðssamningar fara fram með þeim hætti sem hér hefur verið lýst að framan, því er nú verr og miður. Það er svona sem þetta kerfi vinnur.

Ég veit ekki hvort á að telja það hæstv. sjútvrh. til lofs eða lasts, en alla vega er ljóst að hann hefur ekkert farið dult með það að ákvarðanir um fiskverð eru ekki lengur teknar á borðinu hjá verðlagsráði. Það er augljóst að svokallaður oddamaður er aðeins skilaboðamaður ríkisstj. og ákvarðanir eru nánast teknar einhliða. Þetta er auðvitað til marks um það að þetta kerfi hefur gersamlega gengið sér til húðar. Á móti kemur að vitaskuld hafa báðir aðilar, og þá væntanlega sérstaklega útgerðin, í hótunum við ríkisvaldið.

Eins og hér hefur verið lýst er oddamaðurinn í þessu kerfi í raun og veru aðeins móttakari hótana, sem ganga á milli ráðh. og forsvarsmanna fyrirtækjanna, sem margir hverjir eru óhæfir til að standa í atvinnurekstri. Það er með þessum hætti sem það gerist. Síðan er með lækkuðu gengi í kjötfar hækkaðs fiskverðs sett öryggisnet undir lakast reknu fyrirtækin, það er það sem gerist. En halda menn að öll fyrirtæki séu eins rekin? Ekki aldeilis. Og hvað þýðir það? Vitaskuld fer ómældur gróði til þeirra sem fyrir ofan þessi öryggismörk eru. Það er svona sem þetta ábyrgðarlausa kerfi vinnur. Og að styðja fiskverðshækkunina út af fyrir sig og gengislækkunina í kjölfarið, þ.e. millifærsluna frá neytendum til fyrirtækjanna, þetta er ekkert annað, en tala síðan á móti þessu tiltekna máli, sá málflutningur stenst ekki frá degi til dags, hann stenst a.m.k. ekki frá viku til viku.

Við þessar sérkennilegu aðstæður er auðvitað svo komið að ríkisstj. í landinu svífur í lausu lofti á miðjum vetri. Um það er ekki að villast, að þessir samningar hafa verið gerðir. Það er einnig ótvírætt að ráðh. hefur gefið vilyrði fyrir því að að baki þessum samningum kæmu aðrar aðgerðir, annars konar og frekari útfærsla og millifærsla að viðbættum þeim sem fram fóru í samspili fiskverðs og gengis. Þessar frekari aðgerðir sjá dagsins ljós í formi frv. til l. um Olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o.fl. og eru 159. mál þingsins.

Þessir samningar hafa verið gerðir, og vitaskuld með þessum inngripum ríkisvaldsins sem skrifast fyrst og fremst á reikning Verðlagsráðs sjávarútvegsins, þess kerfis sem þar hefur verið upp byggt og sem ég hef lýst og tel vera mjög rangt og hef flutt frv. um á þessu þingi, þau ríkisinngrip og það ábyrgðarleysi sem af hefur leitt, eins og það leggur sig, og þær millifærslur sem þar fylgja í kjölfarið. Hins vegar er ljóst að þessir samningar hafa verið gerðir og þetta þingmál, sem hæstv. ráðh. hefur mælt fyrir hér í dag, er í raun og veru hluti af þessum samningum vegna þess hve veik staða ríkisstj. er, að hún hefur ekki meiri hl. í annarri deild þingsins, þá standa menn frammi fyrir mjög einföldu vali, en hvorugur kosturinn er vitaskuld góður. Menn standa frammi fyrir því að annaðhvort séu þessir svokölluðu samningar, sem auðvitað engir samningar eru, sprengdir í loft upp. Það gæti þýtt, eins og hæstv. ráðh. hefur lýst í mjög skringilegu blaðaviðtali, að flotinn sigldi í höfn, að atvinnuleysi fylgdi. Það kallaði hann óskastöðu sína, hvernig sem það má vera, þá væri rétti tíminn til þess að fara út í kosningar, með flotann stöðvaðan, atvinnuleysi í landinu. Hann notaði orðið óskastaða um þetta. Ég veit ekki um óskastöðu, mér þótti þetta orðalag með eindæmum einkennilegt, en ég hef lýst því yfir — og ég tel það fullkomlega eðlilegan málflutning sem 1/60 hluti af löggjafarvaldinu — að á þessu vil ég ekki bera ábyrgð. Ég tel miklu mikilvægara að aðrar og róttækari breytingar náist fram. Þetta hefur gengið með þessum hætti og ef ég get, t.d. með hjásetu minni, komið í veg fyrir að þessi óskastaða ráðh. komi upp, þá mun ég gera það.

Á þessu máli eru margar hliðar. Hæstv. ráðh. lýsir því í blaðaviðtali við Morgunblaðið, sem hér hefur verið nefnt af öðrum ræðumönnum, miðvikudaginn 12. jan. s.l. Ráðh. segir með leyfi forseta:

„Ég mun að sjálfsögðu“ — ég undirstrika: „að sjálfsögðu leggja til þingrof og nýjar kosningar því flotinn siglir þá í land og útgerðin stöðvast og þá er náttúrlega ekki annað að gera en leggja málið fyrir þjóðina.“ Herra forseti. Tilvitnun lýkur að sinni.

Þegar staðan er þessi er mér þetta alveg óskiljanlegt í raun og veru því mér finnst þessi hugsun vera svo ábyrgðarlaus vera svo gersamlega ábyrgðarlaus. Og hæstv. ráðh. bætir við: „Ég hef fulla trú á því að hæstv. forsrh. hafi sama skilning á þessu og ég.“ Það hefur síðan komið í ljós að svo er ekki. En látum það vera.

Valkostirnir eru ekki góðir, en dæmið er þó mjög skýrt. Þessi minni háttar millifærsla, sem kemur í kjölfar hinnar meiri háttar millifærslu, sem er hækkað fiskverð og lækkað gengi, samningar um hana hafa verið gerðir og þetta er raunverulega spurning um að staðfesta þessa samninga. Ráðh. hefur væntanlega bakstuðning þeirra sem styðja ríkisstj. hér á Alþingi. Hjáseta eins nægir til og ég mun veita hana.

Síðar í þessu viðtali segir hæstv. ráðh. með leyfi forseta: „Ég teldi það mjög góða stöðu fyrir mig“ — ég endurtek: „fyrir mig pólitískt, ef hún felldi það.“ Hún er stjórnarandstaðan. „Þá fæ ég tækifæri til að fá kosningar fljótt og þá hefur hún stöðvað útgerðina, en ég hef enga trú á því að hún geri það.“

Herra forseti. Það getur verið erfitt að leitast við að bjarga þeim sem vilja ekki bjarga sér sjálfir. Það kom mér á óvart að ekki skyldi birtast leiðrétting í blaðinu daginn eftir. Ég vildi trúa því að það væri blaðamaðurinn, sem hefði eitthvað misskilið, eins og vill nú verða, það væri misskilningur í símtali eða eitthvað slíkt. En slíka leiðréttingu hef ég ekki séð.

Ég er að lýsa yfir að ég vilji taka þátt í að staðfesta með hjásetu minni samninga sem hæstv. ráðh. hefur gert, í ljósi þess sem þegar er sagt, og mér er óskiljanlegt hvernig hann getur sagt að hann teldi það mjög góða stöðu fyrir sjálfan sig pólitískt ef samningar, sem hann hefur gert, séu felldir á Alþingi og útgerðin stöðvist og til atvinnuleysis komi. Þá sé rétti tíminn að boða til kosninga, þá sé rétti tíminn að fara með allt út í kosningar. Ég er út af fyrir sig stoltur af því að með þessari afstöðu megi koma í veg fyrir að ráðh. komist í þessa óskastöðu sína.

Ég vil, herra forseti, til áréttingar því sem þegar hefur verið sagt, vísa til þess að nú um helgina var formlega stofnað Bandalag jafnaðarmanna, sem ályktaði eðli málsins samkvæmt um afstöðu í þessu máli, eins og mönnum hér er kunnugt um. Einhvers titrings tauganna hefur orðið vart í hinu flokksstýrða fjölmiðlakerfi í dag. Ég vil stinga inn í grg. mína fyrir þessari afstöðu efni úr forustugrein Þjóðviljans í dag, sem fjallar um þessa afstöðu sem ég hef nú verið að lýsa.

Þjóðviljinn er flokksmálgagn Alþb. sem aftur er aðili að ríkisstj. Eftir að búið er að lýsa stjórnmálum í stíl klúbba úr unglingaskóla, tala um að eitthvað sé aumasta bull, tómahljóð o.s.frv., þessi venjulegu orð hins ríkisstyrkta fjölmiðlakerfis, þá segir með leyfi forseta í þessari forustugrein Þjóðviljans:

„Einna kátlegast“ — ég endurtek: „kátlegast“. Það er verið að bjarga samningum, sem ríkisstj. hefur gert, og leiðarahöfundur Þjóðviljans, sem telst nú kannske ekki til helstu húmorista þjóðarinnar að vísu, segir: „Einna kátlegast er að sjá afstöðu Vilmundar til nýlegrar fiskverðsákvörðunar og þeirra hliðarráðstafana sem henni fylgdu. Vilmundur fordæmir harðlega allar þessar ákvarðanir, svo og sjálft verðlagskerfið, og telur þetta allt ómögulegt, — en svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Bandalag jafnaðarmanna ætlar nú samt að styðja þessar ráðstafanir með sínu eina atkv. á Alþingi“ og tvö upphrópunarmerki, sem er einkenni á sérstaklega feimnum mönnum, þegar þeir vilja vekja athygli á brandaranum sem þeir voru að segja. Kátlegast að stuðla að því með hjásetu að gerðir samningar standi. Það er það sem verið er að gera. Og þar kemur að þjóðin fær um það að vita. Það er á þessum forsendum sem þessi ákvörðun er byggð.

Ég vil taka undir það með hv. 3. þm. Vestf. að það sem verið er að gera í þessu frv. er að það er verið að endurreisa sjóð, Olíusjóð fiskiskipa, sem vitaskuld er millifærslutæki. En hann og aðrir verða að skilja að þetta er ekki nema brot af millifærslunum. Fiskverðsákvörðunarkerfið er ein heljarmillifærsla í þágu manna sem oftar en ekki eru óhæfir í atvinnurekstri. Og það að vera á móti þessu einu, en sjá ekki baksviðið og vilja ekki gera róttækan uppskurð á því, er ekki að vera sjálfum sér samkvæmur.

Vitaskuld liggur það inni í þessum ákvörðunum að sá sem aflar með minnstum olíukostnaði greiðir hæst olíuverð. Þetta er það sem millifærslukerfið ægilega felur í sér, að það er verið að flytja frá þeim sem vinnur með hagkvæmum hætti og til hins sem vinnur með óhagkvæmum hætti, flytja frá þeim hæfa til þess óhæfa. Öll millifærslukerfi eru þannig. Að hækka fiskverð og lækka gengi er nákvæmlega þessi athöfn. Það er þetta baksvið sem við eigum að leiðrétta. Og það er hægt að gera með einföldum hætti, með því að afnema Verðlagsráð sjávarútvegsins, svo að aðilar beri ábyrgð á þeim athöfnum sem þeir fremja. Þá fyrst er samhengi í málflutningnum gegn millifærslunum. En það sem er ekki gott að gera er að tala almennt á móti millifærslum, en vilja í raun og veru millifæra til eins og ekki millifæra til annars. Því ég endurtek það að þá eru menn komnir inn í frumskóg sem auðveldara er inn í að komast en út úr aftur.

Að þessari afstöðu lýstri áskil ég mér vitaskuld rétt til að flytja og fylgja brtt. sem fram kunna að koma, svo sem eðlilegt er.

Miðstjórn Bandalags jafnaðarmanna ályktaði um þessi mál, sem er auðvitað stór ákvörðun að taka. Þar segir svo með leyfi forseta:

„Í drögum að málefnagrundvelli Bandalags jafnaðarmanna er lagt til að vissum þáttum efnahagslífsins verði gerbreytt og þá ekki síst samningum um fiskverð, þannig að kaupendur og seljendur eigi sjálfir að semja án afskipta ríkisvaldsins og beri þeir fulla og algera ábyrgð á þeim samningum sem þeir kunna að gera.

Fiskverðsákvörðun nú um áramót er afar táknræn fyrir þær ógöngur sem núverandi fyrirkomulag leiðir til. Enn dæmigerðari er hótun sjútvrh. um að samþykki Alþingi ekki hliðarráðstafanir og komi til stöðvunar og verkfalla þeirra sem af gæti leitt, þá verði þjóðin að fara þegar í stað í kosningar í skugga verkfalla og jafnvel atvinnuleysis.

Þessar yfirlýsingar undirstrika gjaldþrot og getuleysi, ekki aðeins núv. ríkisstj. heldur þess stjórnmálakerfis sem hún byggir á. Miðstjórn Bandalags jafnaðarmanna leggur því áherslu á að ekki sé verjandi fyrir núv. stjórnarandstöðu að bregða fæti fyrir þá ákvörðun um fiskverð sem tekin hefur verið, þrátt fyrir hið úrelta verðlagskerfi sjávarútvegsins.“ Og síðan er undirstrikað: „Einnig vegna þeirrar grundvallarskyldu sem Alþingi hefur gagnvart fólkinu í landinu að leysa stjórnarskrármálin áður en kemur til kosninga.“

Þetta er, herra forseti, að minni hyggju mikið aðalatriði þessa máls einnig. Öllum er auðvitað kunnugt um — og því nefni ég það að hæstv. ráðh. hefur gefið tilefni til þess — að hann hefur beinlínis hótað skyndiþingrofi og kosningum ef þetta mál fær önnur úrslit en hann kysi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta séu gersamlega ábyrgðarlausar yfirlýsingar hjá ráðh. Ekki aðeins það að kjósa í skugga stöðvunar flotans, atvinnuleysis og annarrar þeirrar óáranar sem af gæti leitt. Það er nógu slæmt í sjálfu sér. En það er einnig slæmt að nú er vitað að hér kynnu menn að vera komnir langt með hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni. Hversu langt nákvæmlega er ekki vitað, en nokkuð langt gæti það verið.

Nú er heldur ekki vitað hvaða tíma raunverulega þarf til að kynna þjóðinni þessi mál. En hitt er vitað, að á hv. Alþingi eru allmargir hv. alþm. sem kæra sig ekkert um þessa breytingu, og þá á ég bæði við kjördæmaþátt málsins og stjórnarskrármálin almennt talað. Þessir menn mundu efalítið fylgja hæstv. ráðh. í því að fleygja þjóðinni út í kosningar með vofu atvinnuleysis og flotastöðvunar á hælunum. Svona finnst mér að ráðh. geti ekki talað. Hann má vera viss um það að eiga fylgismenn til þessara athafna hér á hinu háa Alþingi. En sá sem hér stendur er ekki einn af þeim. Einnig má vara að í flokkakerfinu gamla þveru og endilöngu sé taugatitringur vegna nýrra atburða í stjórnmálum, sem af þeim ástæðum einnig vilja fleygja þjóðinni út í kosningar. En af ástæðum sem blasa við er sá sem hér stendur ekki heldur einn af þeim.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Þessir samningar hafa verið gerðir, að vísu eftir kerfi sem ég er mjög andvígur vegna millifærslnanna sem af því leiðir, sem eru hinar stóru millifærslur í þessu máli. Ég hef í raun og veru gefið margfaldar skýringar á því, af hverju ég tel ekki bara rétt heldur skylt að haga máli mínu og afstöðu með þessum hætti. Það hangir nákvæmlega ekkert annað á þeirri spýtu þrátt fyrir það sem um hefur verið dylgjað. Þetta er afstaða til þessa máls eins, staðfestingar á gerðum samningi. Hvað sem síðar verður, þá er auðvitað þetta sjúka kerfi okkar með þeim hætti að vilji menn virkilega þar um breyta, þá verða menn að leggja til róttækari breytingar en að fella þessar hliðarráðstafanir einar. Því að hverju eru menn bættari með það? Menn hafa tillögur um sjávarútvegskerfið sjálft, þær eru til hér á þskj. 122, hvernig samið skuli um fiskverð og þar með brotist út úr millifærslukerfinu. En menn þurfa að gera meira. Menn þurfa að hafa tillögur um lausn á í stjórnarskrár- og kjördæmamálinu. Þær eru einnig til, þær eru á þskj. 93 og fjalla um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Hvað vilja menn meira? Þetta er ábyrg og heilleg afstaða. En það að ætla að leggja aðeins neikvætt til málanna, að fella þetta mál eitt, þessa gerðu samninga og hafa í rauninni ekkert annað til málanna að leggja — og detta mér í hug ýmsir þeir sem ég þekki best í þeim efnum — það er vond leið.