20.01.1983
Sameinað þing: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

75. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég get á vissan hátt tekið undir þau orð sem hér hafa verið látin falla um þessa umr. sem frekar jákvætt innlegg í landbúnaðarmál og ég sé ekki ástæðu til að fara efnislega út í umr., þær gefa tæpast tilefni til þess. Það er bara af því að það eru orðnir svo fáir hér eftir.

En þó. Það er hv. þm. af Austurlandi, Helgi Seljan, af því að hann gerði nokkurt mál úr því að ég yrði talsmaður stefnu núverandi landbrh. þegar kæmi fram á sumar. Ég held að það sé óskaplega auðvelt fyrir mig að verjast í þeim efnum. Ástæðan er sú, að hvorki í þessu tilviki né neinum öðrum legg ég til grundvallar í minni málaafstöðu hver maðurinn sé. Það er ekki það sem skiptir máli. Það sem hæstv. landbrh. var að tala um hér áðan sem nart í sinn garð er frásögn af þróun landbúnaðarmála á þessu landi í tíð núverandi ríkisstj. Menn verða að segja þá sögu alveg án tillits til þess hver á í hlut. Ég get meira að segja lofað hv. þm. Helga Seljan því, verði hér annað stjórnarfyrirkomulag eftir næstu alþingiskosningar sem t.d. Sjálfstfl. ætti hlut að, að ég mundi ekki líða það undir nokkrum kringumstæðum að það líðist eins mikill undansláttur í málefnum íslensks landbúnaðar og menn hafa látið yfir sig ganga á þessu kjörtímabili.

En ekki skiptir þetta nú meginmáli. Ég endurtek þakklæti mitt fyrir málefnalegt innlegg í þessa umr. hjá öllum þeim sem hér hafa talað og lýk þar með máli mínu, herra forseti.