24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég sé að stjórnarandstöðuarmur Sjálfstfl. og þeir þm. sem eftir eru í Alþfl. fara mjög eftir vinnureglu síns helsta heimspekings, sem hér í þingsölum var stundum kölluð reglan „talaðu til fjögur“, og hafa fylgt henni dyggilega. Ég verð að segja það, að þar sem reglan líkist höfundum sínum er það eflaust ekki vond regla.

Þetta frv. til l., sem hér er nú í fyrsta skipti til umr. í Nd. Alþingis, er samhlj. brbl. sem gefin voru út í lok sumars, áður en þing kom saman. Eins og hér hefur raunar verið lýst er þetta hefðbundin efnahagsráðstöfun fjórflokkanna, sem felur í sér, eins og segir í 1. gr. frv., að fella skuli niður helming af þeirri verðbótahækkun launa sem ella hefði orðið. Nú er það svo, að þessi aðgerð hefur þegar átt sér stað, en hún er jafnröng og fáránleg fyrir það. Hér er auðvitað um að ræða hefðbundnar millifærslur. Inngrip í launamál með þessum hætti er auðvitað ekkert annað en mjög einföld millifærsla frá launafólki og þar með til fyrirtækjanna í landinu. Og eins og hér kom fram t.d. hjá hv. 3. þm. Vestf. er það auðvitað margsannað mál að aðgerðir eins og þessar duga aldrei nema í nokkrar vikur — ef þær þá duga þann tíma.

Í fyrsta lagi er það með höppum og glöppum hver fer eftir þessu. Það er vitað að mörg miðlungs og smærri fyrirtæki í einkageira fara ekki eftir þessu og fóru ekki eftir þessu 1. des. Hins vegar bitnar þetta auðvitað til að mynda á opinberum starfsmönnum og auðvitað miklu fleiri. Í annan stað er afleiðingin af þessu launaskrið, þar sem niðurstaðan er einfaldlega sú að þessar aðgerðir eru gersamlega bitlausar.

En kjarni málsins er sá, að grundvöllurinn, sem að baki aðgerðum sem þessum er, er orðinn skakkur og fáránlega rangur og öll þessi hugmyndafræði um inngrip ríkisvaldsins í samninga, sem þó að forminu til eiga að vera frjálsir. Það er þar sem öll þessi stóra skekkja liggur. Það hefur verið hefðbundin stefna t.d. launþegasamtakanna áratugum saman að samningar skuli vera frjálsir og þeir skuli fara fram án afskipta ríkisvalds. Nú vitum við hins vegar að þetta hefur verið svona í orði, en ekki alltaf á borði, og kann íslenska hagsagan mörg dæmi þar um.

Í útvarpsumr., sem hér voru haldnar um vantraust á ríkisstj. snemma vetrar, nefndi ég það, þegar ég lýsti mig algerlega andstæðan því frv. til l. sem hér um ræðir, að þetta væri ekki leiðin sem ætti að fara og í vaxandi mæli, og ekki aðeins á launamarkaði heldur líka þegar samið er um annað, eins og fiskverð eða verð landbúnaðarafurða, yrðum við að fara inn á brautir frjálsra samninga, sem þýðir einfaldlega samningar án afskipta ríkisvalds.

Ef launþegasamtök og samtök vinnuveitenda semja um launahækkun og vísitölubindingu á einhverjum forsendum, sem þau ákveða sín á milli, kemur það löggjafanum ekkert við hvort forsendurnar eru, í gæsalöppum sagt og hugsað, „réttar“ eða „rangar“. Aðalatriðið er að þetta eiga að vera frjálsir samningar frjálsra aðila, helst í smærri einingum. En það verður þá auðvitað að ráðast eftir því hvað aðilar vilja. Ef ríkisvaldið telur sig nauðbeygt til að grípa inn í slíka samninga, sem það á helst og alls ekki að gera, á það að vera með þeim hætti að samningum sé sagt lausum og aðilar semji þá upp á nýtt.

Grundvallarhugsunin í þessu öllu verður að vera sú, að einstaklingar og samtök þeirra beri að fullu og öllu ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera. Ef samið er óábyrgt, ef fyrirtækin semja yfir sig um launahækkun og þess utan um vísitölubindingu sem þau ráða ekkert við eiga þau að fara á höfuðið, en þau eiga ekki að geta komið alltaf og ævinlega bakdyramegin til ríkisvaldsins og krafist leiðréttingar. Og hver er svo leiðréttingin? Ævinlega sú sama. Og við erum ekki bara að tala um þessa hefðbundnu samninga um laun, heldur samninga um fiskverð t.d. og samninga vítt og breitt um samfélagið.

Það er þetta, annars vegar þetta dreifða vald, en hins vegar í raun þessi dreifða ábyrgð, sem verður að vera stefna næstu framtíðar. Það er einskis virði að það séu gerðir samningar þegar báðir aðilar, í þessu tilfelli klárlega fyrirtækin í landinu, treysta því að sér velviljað ríkisvald komi nokkru seinna og, í gæsalöppum sagt og hugsað, „leiðrétti“ samningana með því að færa verðmætið til. En það er þetta sem gerst hefur. Það er þetta sem liggur til grundvallar t.d. samningum um fiskverð þegar því er lýst yfir samtímis að gengið verði fellt til að búa til undirstöðu undir samningana.

Það er þetta algera ábyrgðarleysi samningsaðilanna sem veldur skekkjunni í þessum efnum. Það er þessi inngripastefna ríkisvaldsins sem fyrst og fremst er röng. — Og að ekki sé talað um eins og framkvæmdin á þessu varð. Í 2. gr. er talað um einhverjar 50 millj. kr. Við vitum að framkvæmdin á því var öll þannig að úr böndum för, svo að ekki sé meira sagt.

Mér hefur sýnst að vandinn í þessu öllu sé sá, að það sé ekki svo mikill grundvallarmunur á því hvað flokkarnir fjórir eru að leggja til í þessum efnum. Þetta eru hinar hefðbundnu götur sem þeir hafa gengið hver með sínu sniði. En það er út úr þessum vítahring sem við verðum að brjótast. Við brjótumst út úr honum með því að ríkisvaldið dragi inn klærnar og að samningar séu gerðir frjálsir og menn beri raunverulega ábyrgð á niðurstöðum.

Sé vísitölukerfið eins rangt og menn stundum segja að það sé og semji menn um upphæðir sem engin innistæða er fyrir, þá eiga fyrirtækin, sem slíka samninga gera, að bera á því ábyrgð, en þau eiga ekki að eiga hönk upp í bakið á ríkisvaldinu daginn eftir, viku eftir eða mánuði eftir að samningar eru gerðir. Úr því að fyrirtækin áttu ekki 1. des. upp í greiðslur samkv. réttum samningum, sem gerðir hafa verið, hefði hugsanlega verið réttlætanlegt að gefa samninga lausa; segja, ef báðir voru sammála, bæði launamenn og eigendur fyrirtækja, að það væru engar innistæður fyrir þessum samningum og semja upp á nýtt. En að grípa inn í, taka þar og ekki hér, sú aðferð er röng og gersamlega úr sér gengin.

Þetta er kjarni málsins. Og það er alveg sama hvar við grípum inn í efnahagskerfið. Frjálsir dreifðir samningar og frjáls dreifð ábyrgð hlýtur að vera það sem koma skal. Þessar röksemdir hafa svo sem heyrst áður. Þær voru t.d. fluttar af þeim sem hér stendur áður en brbl. komu til framkvæmda. Ég segi það enn og aftur að ég er jafnandvígur þessu frv. nú og ég var þá, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að inngrip af þessu tagi skapi meiri vanda en þann sem því var ætlað að leysa.

Nú hefur það gerst, herra forseti, að á þingskjali 255 eru fluttar brtt. við þetta frv. til l. um efnahagsaðgerðir af hæstv. sjútvrh. Þær ganga út á það, að ráðh. sjálfum sé heimilt að færa til fjármuni í þágu einhverra ónafngreindra fyrirtækja. Ekki er nú bætt um betur með þessari viðbót. Þetta er svo botnlaus till. og í raun og veru ávísun á svo endalausa millifærða siðspillingu að engu tali tekur. Og hvaða fyrirtæki eiga þetta að vera og hvers vegna er þessi leið farin? Vond voru þessi brbl. fyrir, sem í framkvæmd hafa komið, en lengi getur vont versnað og það hefur gerst með þeirri viðbót sem hér er flutt till. um.

Og að lokum, herra forseti. Sú leið, sem lögð var til með brbl. á síðsumri síðastliðnu, er röng. Hún er röng vegna þess að hún felur í sér að einstaklingar og samtök þeirra bera ekki ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera. Menn semja út í loftið vitandi að þeir eiga hönd upp í bakið á ríkisvaldinu seinna meir.

Sannleikurinn er sá, að samningar af þessu tagi hafa verið gerðir mér liggur við að segja áratugum saman. Ég veit ekki hvaða persónueinkennum á að lýsa þegar það er sagt að enginn maður hafi orðað þetta jafnopinskátt, að ég hygg, enginn maður í viðlíka stöðu, og hæstv. sjútvrh. þegar hann er að lýsa því sem er í kringum samninga um fiskverð. Samningur er gerður og því samtímis lýst að ríkisvaldið muni breyta þeim grundvelli sem samið er á með annars konar tilfærslum.

Það er auðvitað þetta sem verið er að gera í 1. gr. og fleiri greinum þessa frv. Það er verið að breyta grundvellinum sem samið er á. Í þessu tilfelli: Þegar frv. til laga um efnahagsaðgerðir er hér til umr. er verið að millifæra fjármagn frá launafólki til fyrirtækja vegna þess að samningar voru óábyrgir þá er gerðir voru. Þessu má lýsa sem grundvallarmeini íslensks efnahagskerfis, að menn gera samninga út í loftið, að menn gera samninga sem þeir vita að þeir þurfa aldrei að standa við og að menn treysta því að sér velviljað ríkisvald komi á eftir og leiðrétti samningana. Og hverjum er þetta ríkisvald velviljað og hefur verið árum og áratugum saman? Fyrirtækjunum í landinu. Og hvaða fyrirtækjum? Þeim fyrirtækjum sem mundu ekki annars ganga. Það er ofur einföld regla.

Hér hafa menn skipst í stjórn og stjórnarandstöðu. Mín skoðun er sú, að það er enginn munur á fjórflokkunum í þessum efnum. Þeir hafa allir leikið nákvæmlega þennan leik í kjölfar ábyrgðarlausra samninga. Hvort sem það er um landbúnaðarafurðir, um fiskverð eða um laun að ræða er komið á eftir og millifært til fyrirtækjanna sem annars mundu ekki duga. Þetta vita menn, þessu treysta fyrirtækin og svo semja menn út í loftið. Það er þetta sem hefur gerst eina ferðina enn nú og það er þetta, hvað sem annað má segja, sem hæstv. sjútvrh. lýsir hreinskilnislega, af hvaða hvötum sem það er nú annars, sem ég fer svo sem ekki út í í öðrum atriðum.

Þessi leið, herra forseti, er röng. Hún hefur gengið sér til húðar. Við verðum, þegar við brjótumst út úr þessum ógöngum, að fara aðra leið en fjórflokkarnir leggja til, — nefnilega þá, að samningavaldinu sé dreift, að ábyrgðinni sé einnig dreift og að menn og samtök þeirra beri fulla og alla ábyrgð á því sem samið er um. Auðvitað segja menn þá: Fyrirtæki þar eða fyrirtæki hér fer á hausinn og atvinnuleysisástand skapast. Það er gjald sem við verðum að greiða. — Og það eru aðrir aðilar, hið opinbera kannske, sem eru tilbúnir að taka slíkan rekstur að sér.

En það er þetta kerfi ábyrgðarleysis, hvert sem litið er, hvar sem litið er í atvinnulífinu, í landbúnaðinum, í sjávarútveginum og því miður einnig hjá hinni fámennu forustusveit launþeganna, sem tekur þátt í þessum ábyrgðarlausa leik einnig. Af þessum ástæðum, herra forseti, þá hef ég bæði verið og er andvígur þeirri leið sem hér er lögð til. Það er nóg komið af ábyrgðarleysinu, nóg komið af því að mönnum og samtökum þeirra sé ekki gert að bera ábyrgð á þeim samningum sem þeir gera.

Það er nú svo, herra forseti, að klukkan er eitthvað gengin í sjö. Ég vil enda þar sem ég byrjaði að hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og hv. þm. Alþfl. þeir sem eftir eru — fylgja dyggilega reglu höfðingja síns sem kölluð er „talaðu til fjögur reglan“. Því miður, tilheyrandi samtökum sem eru heldur andvíg þessu fjórflokkakerfi, hvað sem þeir flokkar heita, verðum við að taka því að þeir vinna eftir reglu höfðingja síns. Ég hef ekkert meira um það að segja. En engu að síður: Þessi sjónarmið, þrátt fyrir þessa teiki, munu nú láta á sér bera víðar en hér í þingsölum.