24.01.1983
Neðri deild: 27. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og réttilega hefur komið fram hjá hæstv. forseta er gert ráð fyrir að ljúka 1. umr. á þessum fundi þannig að ekki þurfi að boða til kvöldfundar sérstaklega. Það er meðfram af því við höfum tekið tillit til þess að við höfum stillt okkar málflutning mjög í hóf og orðið að sleppa mjög mörgu því sem vissulega hefði verið ástæða til að fjalla um. Við ætlumst þá auðvitað til þess að nefndin fjalli um þetta. En það kemur mér stórkostlega á óvart, eftir að hafa varpað hér fram nokkrum fsp. um veigamikil atriði, gert það ásamt hv. þm. Geir Hallgrímssyni og Sighvati Björgvinssyni, að ekki skuli koma eitt einasta svar frá hv. frsm. í þessu máli.

Þegar hæstv. forsrh. flutti sína framsöguræðu sagði hann, með leyfi forseta:

Hv. 10. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, undraðist það mjög að hann hefði ekki fengið svör við fsp. sem hann bar fram til ráðh. Ég vil bara benda á það, að þær fsp. sem hann bar fram til okkar heyra undir efnisumr. um það mál sem nú er til umr.“ — Ég skýt því hér inn að þessum fsp. var beint til hæstv. ráðh. í þingskapaumr. Held ég áfram lestrinum: „Hitt er náttúrlega hrein fjarstæða og sýnir að eitthvað á hv. þm. enn ólært í þingvenjum og þingsköpum. Það er ákaflega óeðlilegt ef við færum að ræða utan dagskrár um þau atriði eða svara fsp. um þau atriði sem heyra alveg beinlínis undir það mál sem er á dagskrá og er nú komið til dagskrár, en sem þessir hv. þm. hafa verið að tefja nú með málþófi.“

Nú stendur þannig á að við höfum fallist á að flýta þessum umr. í dag. Ég hélt satt að segja að hæstv. ráðh. hefði með þessum ummælum sínum á síðasta fundi á miðvikudaginn var verið að segja að þetta heyrði undir efnisumr. málsins og hann hlyti þá að koma hér upp og taka þátt í þeim umr. og svara þeim fsp. sem yrðu til þegar þetta mál kæmi til umr. Ég var svo einfaldur, svo — hvað er það nú kallað — lítt þingvanur og þekkti svo lítið þingsköp. Það má vera að það sé ástæða þess að ég spyr svona barnalega, en ég ætlast þá til þess af mönnum, sem hafa setið hér áralangt og um áratuga skeið, að þeir skýri út hvað felst í slíkum ummælum.

Þetta mál er þannig vaxið, að í því eru fjölmörg atriði sem við vissulega vildum fá svör við. Ég skal bara taka eitt einasta mál út úr og það varðar verðbótakerfið. Ég þarf ekki að endurtaka spurninguna. Þær hafa komið fram frá fjölmörgum aðilum við þessa umr. En mér finnst vera full ástæða til að spyrja og ítreka þá spurningu, hvar það mál standi o. s. frv. Gerist það ekki ætlast ég til þess af hv. nm. í fjh.- og viðskn. að þeir taki þetta mál til vandlegrar íhugunar og gefi sér góðan tíma til að kynna sér og leita að því hvar þetta mál er statt.

Herra forseti. Ég tek fullt tillit til þeirra óska að ekki verði hér kvöldfundur. En mér fannst nauðsynlegt vegna þeirra ummæla sem féllu hér við framsöguræðu í þessu máli að biðja um að þau yrðu skýrð í ljósi þess að nú hafa fsp. komið þegar efnisumr. fór fram um þetta mál.