25.01.1983
Sameinað þing: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1300)

109. mál, Ilmenitmagn í Húnavatnssýslum

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er síður en svo að ég hafi eitthvað við þennan tillöguflutning að athuga, þótt mér komi það reyndar nokkuð einkennilega fyrir eyru að heyra hvað Húnavatnssýsla er allt í einu orðin merkilegt landssvæði frá jarðfræðilegu sjónarmiði séð. Það hefur víðar verið minnst á Ilmenit, og kannske eru önnur svæði á þessu landi fullt eins líkleg til þeirrar vinnslu og dalir og fjöll norður í Húnaþingi.

Annars er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að vekja athygli á máli sem þessu. Það er hins vegar þannig vaxið, að nauðsynlegt er að þá sé fjallað um verkefnið sem eina heild og það sé ekki einskorðað við einstakar sýslur. Slíkur tillöguflutningur finnst mér satt að segja bera heldur mikinn keim af prófkjörsumhverfi. Þetta er að sjálfsögðu þannig mál að líta verður á það sem verkefni yfir allt landið.

Við höfum heyrt mikið talað um t.d. staðsetningu og staðarval. Það er til sérstök nefnd sem fjallar um staðarval hinna ýmsu orkukosta, svo að það séu nú notuð orð sem oft eru viðhöfð við hátíðleg tækifæri. Það er að sjálfsögðu hvað varðar frumrannsóknir og athuganir alveg útilokað að nefna eitt sýslufélag frekar en annað, og þá alveg sérstaklega þegar það hefur enga sérstaka sérstöðu í þeim efnum.

Ég hygg að mestu gabbrósvæði á þessu landi séu suðaustanlands. Þar hefur einmitt farið fram greining á grjóti af þessu fagi. Ég hygg að ég fari líka rétt með að Jón Jónsson jarðfræðingur hafi fundið í fjörusöndum við strendur í Austur-Skaftafellssýslu sand með mjög háu innihaldi af Ilmeniti þar sem aðstæður til slíkrar hugsanlegrar vinnslu, sem vafalaust er ekki í nánd, væru mjög ákjósanlegar. Þess vegna verða menn í tillöguflutningi sem þessum, og ekki síst við afgreiðslu þingmála sem þessara, að fjalla um málið á landsvísu. Það verður að leggja áherslu á að frekari rannsóknir af þessu tagi séu bundnar við þau svæði þar sem frumrannsóknir hafa þegar farið fram og árangur þykir líklegastur. Þó að þarna sé um að ræða merkilegt byggðarlag, Húnavatnssýslur, sé ég ekki að það skapi neina sérstöðu í kringum verkefni sem þessi.

Ég vil af þessari ástæðu, um leið og ég þakka 1. flm. fyrir að vekja athygli á þessu máli, mjög ákveðið leggja til við meðferð þess í þingnefnd að þar fari sú umfjötlun fram á þeim grundvelli að þau hugsanlegu svæði sem innihalda þetta efni verði rannsökuð á jafnréttisgrundvelli, því að m.a. þá þjónar það ekki neinum tilgangi að taka eitt byggðarlag sérstaklega út úr. Það flýtir ekkert fyrir málinu á þeim stað vegna þess að það verður ekki komist hjá því áður en það hugsanlega kemur að meiri alvöru í þessu máli að meta hvort aðstæður, álíka góðar eða betri, séu annars staðar fyrir hendi á þessu landi. Þar af leiðandi má í svona máli ekki með neinum hætti gæta þröngra hagsmunasjónarmiða.

Ég vona að þetta verði ekki skoðað þannig, að ég líti á störf þessa mæta þingmanns sem dæmi þröngs sjónarmiðs í kjördæmi. En mér geðjast ekki að því að þarna skuli sérstaklega vera talað um eitt sýslufélag. Ég held að málinu sé ekki gerður sérstaklega mikill greiði með því að binda það þannig böndum.

Ég vil svo, að þessum orðum sögðum, lýsa stuðningi við breytta till.-gerð eða víðtækari afgreiðslu þessa máls því að málið er að öðru leyti hið gagnlegasta.