31.01.1983
Neðri deild: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal í stuttu máli svara því sem til mín var beint. Ég vil segja það í fyrsta lagi, að ég hef ekki gert ráðstafanir til að útvega lánsfé sem endurgreitt yrði með gengismun af skreið. Ég hef talið eðlilegt að fá áður fram vilja Alþingis í málinu. En ég er bjartsýnni en kom fram hjá hv. þm. Ég tel allar líkur til þess að skreiðin verði seld úr landi og ýmislegt benda til þess að jafnvel kunni fljótlega eitthvað að liðkast til í skreiðarsölu okkar. Þær upplýsingar hef ég m.a. fengið frá hæstv. viðskrh. Það er hins vegar alveg rétt, að eflaust tekur þetta einhvern tíma og yrði þá að brúa það bil með lánsfé.

Ég vil leiðrétta það, sem skilja mátti á ræðu hv. þm., að ég hafi gert grein fyrir þessari till. í fjölmiðlum. Ég gerði grein fyrir till. í þeirri samráðsnefnd sem starfaði í þinghléi og sendi till. m.a. stjórnarandstæðingum. Eftir það fréttist af henni og hún var komin á borð fjölmiðla, að því er virtist. Ég Svaraði þá spurningum sem til mín var beint um þessa breyttu ráðstöfun á gengismun.

Ég vil vekja athygli á því, að í þessari till. er alls ekki ákveðið að umræddur gengismunur skuli ekki renna í Stofnfjársjóð, heldur má segja að þarna sé slegið á frest slíkri ákvörðun. Í till. segir að því sem er umfram 40 millj., sem renna eiga í Stofnfjársjóð, skuli ráðstafað af sjútvrn. í samráði við sjútvn. Alþingis. Ég vil að sjútvn. Alþingis fái tækifæri til að skoða þann vanda, sem útgerðin er í í heild sinni.

Ég rakti við 1. umr. ýmislegt sem í því sambandi er í athugun, bæði lækkun á skuldum útgerðarinnar við Fiskveiðasjóð og sömuleiðis þá athugun sem gerð hefur verði í samráði við Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég er þeirrar skoðunar, að hvort tveggja þurfi að skoðast í einu lagi og því komi til greina að skipta umræddum gengismun, sem er áætlaður nú töluvert meiri en áður var, þannig að í hvort tveggja fáist nokkurt fjármagn til ráðstöfunar. Ég vil vekja athygli á því, að allmörg útgerðarfyrirtæki fá enga aðstoð í gegnum Stofnfjársjóð. Ég nefni t.d. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hún nýtur slíkrar aðstoðar á engan máta. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar er hins vegar eitt af þeim fyrirtækjum, sem var í úttekt þessarar nefndar, sem ég hef greint hér frá, og þarf að mínu mati í sambandi við endurskipulagningu á rekstri, sem að er unnið, að fá nokkra fjárhagsaðstoð.

Vel kann svo að fara, að eftir viðræður um þessi mál og athugun í sjútvn. komist menn að þeirri niðurstöðu að útvega þurfi meira fjármagn og rétt sé að gengismunur renni þá allur í Stofnfjársjóð eða mestallur, en lánsfé útvegað í aðra fyrirgreiðslu. Þetta finnst mér ekki liggja nægilega ljóst fyrir og þurfi að skoðast betur og þess vegna hef ég lagt til að ekki verði ákveðið nú að öllum gengismun verði ráðstafað í stofnfjársjóðinn.

Hér hefur töluvert mikið verið um skreiðina talað og má skilja suma menn svo, að um óeðlilega skattlagningu á skreiðina sé að ræða. Skreiðarframleiðendur eiga í erfiðleikum, það er rétt. Ég gerði aths. við þetta við 1. umr. og hef síðan beðið Þjóðhagsstofnun að áætla fyrir mig hver ávöxtun fjármagns er í skreiðarbirgðum miðað við þróun á dollara- og afurðalánum og annan kostnað á síðasta ári. Þetta hefur Þjóðhagsstofnun gert. Þar kemur fram að birgðir að verðmæti 1 000 kr. í árslok 1981 voru í lok ársins orðnar 2 290 kr. Að sjálfsögðu er þessi hækkun til komin vegna breytingar á gengi dollarans. Gengisbreyting dollarans frá árslokum 1981 til 25. janúar 1983 — þar er tekin með gengisbreytingin sem varð í jan. — er um 129%, þannig að verðmætið hefur aukist úr 1 000 kr. í 2 290 kr. Frá þessu ber síðan að draga þann gengismun, sem hér um ræðir, sem er 6.5% eða 150 kr., og einnig geymslukostnað, sem er áætlaður 115 kr., þannig að það sem fæst eru 2 025 kr.

Undir venjulegum kringumstæðum eru afurðalán í fyrsta lagi endurkaup Seðlabankans 52% og viðbótarlán 40% af endurkaupum. Samtals gerir þetta 730 kr., þannig að sá mismunur, þ.e. sá hluti birgða sem ekki er fjármagnaður með afurðalánum, yrði þá 270 kr.

Nú vil ég taka það fram, að afurðalán út á skreið hafa ekki náð þessari hundraðstölu. Þarna er reiknað með venjulegum afurðalánum, en þau hafa verið nokkru lægri. Sé svo reiknað með 33% vöxtum afurðalána, sem reyndar voru nú ekki svo háir allt árið, heldur töluvert lægri, þá kemur út að vaxtakostnaður hefði orðið 320 kr. og sé það svo dregið frá kemur í ljós að mismunur, þ.e. hluti söluverðmætis sem framleiðandi fær í sinn hlut, er 975 kr. M.ö.o.: ávöxtun þessa fjármagns er á ársgrundvelli 240%, þ.e. eigið fé ávaxtast um 240%.

En um leið og ég segi þetta vil ég leggja á það ríka áherslu að erfiðleikar skreiðarframleiðenda eru miklir vegna greiðslufjárerfiðleika. Það er út af fyrir sig annað mál. Margir þessara manna hafa ekki efni á að festa sitt fjármagn í skreið, jafnvel þótt ávöxtunin sé svona mikil.

Ég vek hins vegar athygli á því, að þessi umræddi 6.5% gengismunur er ekki tekinn fyrr en skreiðin fer úr landi. Því er ekki verið að skattleggja einn eða neinn fyrr en hann hefur fengið þessa ágætu ávöxtun eigin fjármagns í hendur. Ég verð því að segja það eins og er, að mér sýnist ekki að verið sé að íþyngja skreiðarframleiðendum. Svo geta menn náttúrlega metið það, hvort þetta verð fæst fyrir skreiðina. Það lækkar kannske eitthvað frá því sem hér hefur verið reiknað með. En hins vegar er ansi mikið borð fyrir báru. Það er því á misskilningi byggt sem hér hefur verið sagt um þá erfiðleika sem þetta veldur skreiðarframleiðendum.

Ég vil jafnframt upplýsa, að sú aðstoð sem Norðmenn hafa veitt skreiðarframleiðendum þar í landi er mjög hliðstæð þeim afurðatánum sem hér eru veitt af Seðlabankanum. Norðmenn veita ekki slík afurðalán frá sínum seðlabanka. Þeir veita útflutningslán með miklu óhagstæðari kjörum. En Norðmenn hafa tvisvar í sérstökum erfiðleikum skreiðarframleiðenda veitt afurðalán, sem við getum kallað svo. Þetta er því úf af fyrir sig ekkert nýtt fyrir okkur. Við gerum þetta alla tíð gegnum okkar seðlabanka.

Ég vona að ég hafi svarað þeirri spurningu, sem til mín var beint, og þarf ekki að hafa fleiri orð um frv.