01.02.1983
Sameinað þing: 43. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (1384)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að hér komi sérstaklega til umr. á hv. Alþingi þær miklu hækkanir sem að undanförnu hafa komið fram á orkuverði í landinu. Ég hygg að það sé öllum ljóst, eftir þá umr. sem hér hefur farið fram, að þær hækkanir standa auðvitað í nánum tengslum við veika stöðu orkufyrirtækja okkar og mikinn halla sumra þeirra og þá sérstaklega Landsvirkjunar, sem er okkar aðalvirkjunarfyrirtæki. Það hlýtur að vera þjóð eins og Íslendingum mikið umhugsunarefni hvernig staða þessa fyrirtækis og orkufyrirtækjanna er, ekki síst í ljósi þess að Íslendingar hafa ævinlega hugsað sér að byggja framtíð sína að verulegu leyti á orkunýtingu. Íslenska þjóðin og ekki síst þessi ríkisstj., hefur mjög horft fram til þess og sett sér ákveðin markmið um nýtingu orku fram til aldamótanna. Stefni menn að því er auðvitað útilokað að standa þannig að því, að orkuvinnslufyrirtækin séu í jafnmiklum fjárhagslegum vanda og þau eru nú. Fram hjá því verður auðvitað alls ekki horft.

Ég hygg að það sé ljóst að við höfum sýnt nokkurt fyrirhyggjuleysi í þessum málum. Öllum alþm. er kunnugt um það til að mynda, að byggðalínurnar, hringtengingin um landið, eru reistar fyrir erlent lánsfé, en ekki bara það, heldur hafa byggðalínurnar verið reknar á erlendu lánsfé. Við tökum ekki einungis erlent lán til að reisa þessar línur, heldur tökum við erlend lán til að greiða af erlendu lánunum og fjármagnskostnaði, vextina líka, þannig að byggðalínurnar eru nánast og hafa verið reknar á erlendum lánum. Það hefur enginn borgað fyrir þann kostnað sem því fylgir að flytja orkuna um þessar línur.

Án þess að fara nánar út í það, og ég skal reyna að verða við tilmælum forseta um að stytta mitt mál, þá vil ég segja að auðvitað er það eðlilegt og nauðsynlegt að reynt sé að mæta þeim mikla kostnaði sem nú dynur yfir þá fjölmörgu landsmenn sem nýta raforku til húshitunar. Það er auðvitað alveg rétt, að það er mikið misvægi sem kemur fram í landinu þegar orka til rafhitunar hækkar svo mjög sem hún hefði gert ef ekki hefði verið gripið til þessara niðurgreiðslna. En í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á tvö atriði: Annars vegar hættir mönnum um of til að meta þetta misvægi og vega og miða við Hitaveitu Reykjavíkur, það lága orkuverð sem hér er, sem síðasti ræðumaður kom réttilega inn á. Það er auðvitað ekki sanngjarnt vegna þess að orkuverði Hitaveitu Reykjavíkur hefur verið haldið mjög niðri þrátt fyrir nauðsynlegar hækkanir sem hitaveitan hefði þurft að fá. Þar af leiðandi verður þessi mismunur miklu meiri en ella væri, ef eðlilegt væri. Hins vegar vil ég sérstaklega vara við því, að nú, þegar farið er út á þá braut að greiða raforkuna niður með almennri lækkun gjaldskrárinnar, eins og iðnrh. hefur gert grein fyrir hér, þannig að hitunarkostnaður með raforku nemi um 62% af olíukostnaði, þá er það gert með almennri gjaldskrárlagningu, sem þýðir það, ég met það svo, að um sé að ræða víða um land beina samkeppni við hitaveitur, oft hitaveitur sem nýlega er stofnað til.

Við skulum taka Hitaveitu Þorlákshafnar, við skulum taka Hitaveitu Eyrarbakka og Stokkseyrar og fleiri og fleiri, Hitaveitu Hellu og Hvolsvallar. Þetta eru hitaveitur sem ráðist er í á svæðum þar sem rafhitun er mikil fyrir. Þessar hitaveitur verða því aðeins hagkvæmar að þær nái sem mestri vatnssölu og að þeir sem við rafhitun búa breyti yfir í nýtingu hitaveitu. Með því að greiða rafhitunina niður á þessum svæðum í þeim mæli sem hér er gert er hætta á því að hinar hagkvæmu hitaveitur, sem ella væru, og þær eru fleiri en ég hef talið upp, verði ekki hagkvæmar og geti jafnvel lent í einhverjum greiðsluerfiðleikum vegna þess að þeir sem við rafhitun búa sjá ekki haginn í því að breyta yfir í hitaveituna. Þar af leiðandi greiðum við niður úr almenningssjóðum rafhitun, sem við þyrftum ekki að gera ef þessir aðilar notuðu hitaveituna. Þarna er atriði sem við þurfum dálítið að vara okkur á.

Herra forseti. Örfá orð varðandi álverið og orkuverð til þess. Því miður er tími minn senn á þrotum.

Ég er alveg sammála iðnrh. í því, að við þurfum að fá orkuverð til álversins hækkað og það sem allra fyrst. Ég er þeirrar skoðunar, að Alusuisse eða álverið í Straumsvík græði um það bil 1 millj. dollara á mánuði meðan iðnrh. heldur þessu máli í þeirri sjálfheldu sem það nú er meðan ekki er unnt að koma á samningaviðræðum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé hægt að koma samningaviðræðum á. Það er einfalt að vitna til þeirra bréfa sem hinn svissneski álhringur hefur ritað íslensku ríkisstjórninni til að sjá að það er hægt að koma slíkum samningaviðræðum á. Þeir hafa einfaldlega boðið upp á að leggja eldri deilumálin í gerð. Það er vel aðgengilegt fyrir Íslendinga — og raunar getum við ekki neitað því ef þeir fara fram á það. Þeir hafa síðan boðist til að ræða hækkun orkuverðsins á grundvelli þess sem nú gerist um álverð í Evrópu og Norður-Ameríku. Það er enginn vandi fyrir okkur að ræða hækkun orkuverðsins á þeim grundvelli.

Vegna þess hversu tími er afmarkaður nú get ég ekki farið nánar út í þetta mál. En ég er næstum viss um að það væri líka hægt að fá álverið til að hækka orkuverðið eitthvað áður en slíkar samningaviðræður hæfust. Nú skal ég ekki fullyrða um hvað út úr slíkum samningaviðræðum kæmi, en það væri þó alltaf tilraun að hefja þær. Það hefur iðnrh. ekki tekist, að mínu viti, vegna þvergirðingsháttar og stífni. Ég er alveg sannfærður um að það er hægt að koma slíkum samningaviðræðum á. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að þær muni leiða til þeirrar niðurstöðu sem við helst vildum fá. Það verður að koma í ljós. En ég vil sérstaklega benda mönnum á að einhliða aðgerðir í þessu máli, sem ég hef aldrei útilokað og getur vel verið að við verðum á endanum að grípa til, eru alvarlegt skref. Þær eru mjög alvarlegt skref fyrir báða aðila. Og hækki menn orkuverðið einhliða hljóta menn að sjá að inngrip í samninginn einhliða á einum þætti geta þýtt að aðrir þættir renna úr gildi.

Þarna eru mjög viðkvæm atriði, sem við þurfum að skoða. Við þurfum líka að skoða þetta mál í ljósi þess, að við ætlum að nýta okkar orku í framtíðinni til hagsbóta fyrir íslenska þjóð. Við eigum mikla orku hér. Við verðum að nýta hana að talsverðu leyti í samvinnu við erlenda aðila. Við getum ekki gert Ísland að einhvers konar þjóðlegu fjósi þar sem enginn geisli erlendrar þekkingar eða samskipta kemst inn. Þess vegna eru þetta mál sem verður að taka á með mikilli varfærni. Áður en menn ráðast í slíkar aðgerðir sem einhliða aðgerðir verður að reyna samningaviðræður til þrautar. Það hefur ekki verið gert, því miður. [Fundarhlé.]