27.10.1982
Neðri deild: 5. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

28. mál, málefni aldraðra

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram svo tímanlega að það ætti a.m.k. að vera möguleiki á að samþykkja það fyrir jól, ef vilji er fyrir hendi. En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs er fyrst og fremst sú umr. sem hefur farið fram hér í sambandi við hvernig var staðið að að úthluta fjármagni úr þessum sjóði. Það kann að vera að hv. síðasti ræðumaður hafi töluvert til síns máls þegar hann les 9. gr. og skýrir hana. En ég stend í þeirri trú, að neyðin sé mest í sambandi við það gamla fólk sem þarf á hjúkrun að halda. Ef skýringin er rétt hjá síðasta hv. ræðumanni þá á að breyta stefnunni að mínum dómi. Ég efast heldur ekkert um að það sé mikil neyð hér í sambandi við þessi mál, en það er bara víðar.

Fyrst farið er út í þessar umr. á annað borð verð ég að skýra frá því, að t.d. á Akureyri var verið að reyna að breyta gömlu húsnæði í langlegudeild og það var ætlun okkar fyrir norðan að reyna að safna fjármagni að miklu leyti til þess að þetta væri framkvæmanlegt og því var heitið. En þegar þessi nefskattur var allt í einu tvöfaldaður úr 100 kr. í 200 bentu menn á það þar fyrir norðan að þarna væri verið að safna fjármagni og væri engin ástæða til þess að vera að flytja það burtu úr héraðinu. Þar kom fram á eftir tregða við að láta í þessa söfnun. Það var líka ætlun manna að setja upp langlegudeild í sjúkrahúsinu, sem er verið að byggja, og var reiknað með að fá fjármagn einmitt til þess einnig. Það var úthlutað 1 millj., ef ég man rétt, í sambandi við Systrasel, en það var engan veginn nægilegt fjármagn.

Eins og fram hefur komið er það auðvitað laukrétt, að með því að byggja upp annars staðar einnig verður minni pressan hingað. Það eru margir sem verða að leita þangað sem möguleikarnir eru, ef þeir eru ekki heima fyrir, til þess að fá einhverja aðhlynningu. Ég held að það verði engin ánægja víða um land með að borga þetta gjald nema fjármagninu sé að einhverju leyti réttlátlega skipt að þessu leyti. Ég er ekki að tala um að hvert byggðarlag haldi sínu fjármagni, vegna þess að þörfin er misjöfn og aðstæðurnar, en t.d. á Akureyri er áreiðanlega ekkert minna vandamál, ekkert minni þörf, og fjármagnið mundi nýtast engu siður þar en hér. Þar af leiðandi vil ég láta endurskoða þessar reglur. Ég er ekki tilbúinn á þessari stundu að koma með tillögur um hvernig á að gera það, en ég held að það sé óhjákvæmilegt ef þjóðin á að verða samtaka til þess að gera það átak sem þarf að gera í þessu efni. Þörfin er svo brýn að við verðum að standa þannig að málum að allur almenningur taki þátt í því að leiða þau til lykta. En það verður ekki gert öðruvísi en fullkomið réttlæti sé í þessum málum og fullkomin tillitssemi gagnvart öðrum byggðum, þó að ég viðurkenni að þörfin sé brýn hér.