03.02.1983
Sameinað þing: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

268. mál, fjarskiptasamband við skip á Breiðafjarðarmiðum

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka svar hæstv. sjútvrh. og fagna því að sú lausn verður á þessum málum sem hann upplýsti að stefnt væri að. Ég vil þó láta í ljós að ég geri ráð fyrir að þarna sé um að ræða að upp verði sett fjarstýrð stöð, þ. e. stöð sem ekki hefur þjónustu á staðnum, það verði ekki starfslið við stöðina, heldur verði henni stjórnað frá stöðinni hér í Gufunesi. Vandamálið í sambandi við það er að álagið á símanum vestur á Snæfellsnes er það mikið að búast má við því að þjónusta frá slíkri strandstöð til viðskiptaaðila í landi vestra komi að mjög litlu gagni við þær aðstæður sem eru í dag. En aftur á móti er þetta væntanlega fullnægjandi gagnvart hinum þættinum, þ. e. að inna af hendi tilkynningarskylduna.

En ég endurtek að ég þakka það svar sem hér hefur komið fram og fagna því að sá áfangi hefur þó verið ákveðinn sem ráðh. gat um.