08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1779 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

114. mál, veðurfregnir

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þessa fsp. í tengslum við fsp. sem hæstv. samgrh. svaraði fyrr í vetur varðandi þjónustu Landssímans við fiskibátana. Ég tel að hann hafi þá eins og nú svarað samkv. bestu vitund, en þá varð hann einnig að láta við það sitja að vitna í hv. þm. Magnús H. Magnússon upp á það að ég hefði rangt fyrir mér í því sem ég sagði um þjónustu Landssímans við bátana í Vestmannaeyjum í tvennum skilningi.

Í fyrsta lagi, og það snertir mjög þessa spurningu um þjónustu á metrabylgju og miðbylgju, er það, að ég hef hér fyrir mér bréf frá fulltrúa Landssímans í Vestmannaeyjum, þar sem hann segir að 30–40 bátar í Vestmannaeyjum hafi ekki miðbylgjustöðvar, heldur metrabylgjustöðvar eða VHF. Í öðru lagi er þjónustan við metrabylgjubátana á Klifi í Vestmannaeyjum, ekki Sæfelli, og stöðin á Klifi ekki búin vararaforku eða rafhlöðum. Það var nefnilega ekki einkennileg tilviljun að radíósamband við „Heimaey“ slitnaði á úrslitastundu þegar skipið var að reka í land á sandinum forðum með net í skrúfunni, heldur stöfuðu þessi sambandsslit af því að „Heimaey“ var með metrabylgjutæki, og eins og segir í dagbókarútdrætti, sem gerður var að tilmælum bæjarfógetans í Vestmannáeyjum vegna aðdraganda strands m/b Heimaeyjar 16. febr. 1981: „Þá rofnaði samband við bátinn kl. 00:45 og varð alveg sambandslaust við hann í fjórar mínútur vegna rafmagnsbilunar.“

Það er síður en svo að ég vilji gefa það í skyn að Landssíminn sé sljór fyrir öryggismálum sjómanna: Það geri ég ekki og enn þá síður tel ég að hæstv. samgrh. og sjútvrh. sé sljór fyrir slíkum málum. Ég veit að svo er ekki. En það er ákaflega þýðingarmikið, að þegar okkur eru birtar upplýsingar hér í hv. Alþingi, sem varða öryggisþjónustu Landssímans, séu þær réttar, sé lagður tími í það af yfirstjórn Pósts og síma að ígrunda nú hvað rétt sé í þessum málum.

Og svo umfram alla muni þetta: Það var ekki til þess stofnað til Landssímans á Íslandi að hann stæði undir sér. Það var nú síður en svo. Til hans var stofnað til þess að hann mætti láta í té besta hugsanlega þjónustu fyrir lægsta hugsanlegt gjald, og togstreita um hver borgi þessa þjónustu þegar um er að ræða öryggismál flotans á sannarlega ekki að koma í veg fyrir að kappkosta að þessi þjónusta sé sem best.