28.10.1982
Sameinað þing: 9. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

24. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér liggur fyrir um viðræðunefnd við Alusuisse flutt af 10 þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu, vekur eðlilega athygli og sætir talsverðum tíðindum. Með flutningi hennar undirstrikar þessi hluti Sjálfstfl. þau viðhorf, sem verið hafa undirtónninn í málflutningi stjórnarandstöðuliðs flokksins og Morgunblaðsins alveg sérstaklega, að gera deilur um málsmeðferð hér innanlands og árásir á mig sem iðnrh. og um leið á ríkisstj. að aðalatriði, en draga úr og vefengja réttmætar kröfur íslenskra stjórnvalda gagnvart hinum erlenda auðhring Alusuisse. Fyrir þessu má finna svo fjölmörg dæmi í málflutningi forustumanna Sjálfstfl. undanfarin ár að æra mundi óstöðugan að tíunda þau öll. Greinargerðin með þessari þáltill. talar þar skýru máli og málflutningur hv. 1. flm. þáltill. hér áðan. Ég mun síðar benda á nokkur atriði til viðbótar til að lýsa ögn inn í þann furðulega hugarheim sem býr að baki hjá hluta af forustuliði Sjálfstfl. þegar Alusuisse á í hlut.

Með því að leggja fram þessa till. hér á hv. Alþingi ganga flm. hennar þó stóru skrefi lengra en áður hefur fram komið og opinbera þann ásetning sinn að sundra fylkingum hér innanlands á sama tíma og brýna nauðsyn ber til að menn þjappi sér sem fastast saman um íslenska hagsmuni og þau markmið sem allgóð samstaða virðist hafa tekist um, a.m.k. í orði. Ég bið menn að hafa vel í huga, að með efni þessarar till. ásamt grg. og fylgigögnum, svo og umr. stuðningsmanna hennar hér á hv. Alþingi, er vel fylgst úti í höfuðstöðvum Alusuisse í Zürich. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hvílíkur hvalreki þessi sending verður talin á þeim vettvangi. Því verður best lýst með einu orði úr gömlu og góðu íslensku máli, sem er óvinafagnaður.

Mun beinskeyttara og hreinskiptnara hefði verið hjá þessum hv. þm. Sjálfstfl. að fylgja eftir málflutningi og kröfum ritstjórnar Morgunblaðsins með því að flytja tillögu um vantraust á mig sem ráðh. vegna þessa máls. Slíkar hugmyndir og hótanir um vantraust hafa vissulega heyrst áður út af öðrum málum, sem nú eru til lykta leidd í bærilegri eindrægni, en þá var látið sitja við orðin tóm. Ég væri vissulega reiðubúinn að standa frammi fyrir slíkri vantrauststillögu nú út af meðferð minni á þessu máli og mér þætti vænt um að heyra það frá hv. 1. flm. þessarar till. hvort hann sé reiðubúinn að standa að slíkri málafylgju í stað þess að halda hér uppi dylgjum og nöldri um að ég hafi ekki gætt þjóðarhagsmuna í þessu máli.

Ég mun hér víkja að efnisatriðum þessarar till., en gera síðan grein fyrir gangi og stöðu mála, er varða samskipti við Alusuisse og ÍSAL, samþykktir íslenskra stjórnvalda og samningaumleitanir, stöðu og störf álviðræðunefndar í því samhengi, endurskoðun á yfirverði á aðföngum til ÍSALs 1975–1979 og endurskoðun ársreikninga ÍSALs 1980 og 1981. Síðast en ekki síst mun ég fjalla um nauðsyn þess að ná fram leiðréttingu á samningum um álverið í Straumsvík, alveg sérstaklega að því er varðar raforkuverð.

Vegna þeirra ásakana, sem hér eru fram bornar opinberlega í minn garð á hv. Alþingi, kemst ég ekki hjá því að minna flm. þessarar till. á fyrri afstöðu þeirra til þessara mála, þótt ég telji að annað væri þarfara og brýnna en menn væru að vegast hér á innbyrðis, kjörnir fulltrúar á þjóðþinginu, um þau brýnu hagsmunamál er varða samskiptin við Alusuisse. — Ég kem þá að efnisatriðum þáltill.

Lagt er til að Alþingi kjósi 7 manna nefnd til viðræðna við Alusuisse um tiltekin atriði. Þetta er gert á sama tíma og starfandi er stjórnskipuð nefnd, m.a. skipuð fulltrúum eftir tilnefningu allra þingflokka hér á hv. Alþingi, frá stjórnaraðilum og stjórnarandstöðu, og undir forustu manns sem fáir væna um pólitíska hlutdrægni, þar sem er dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins. Þessi nefnd hefur frá því að hún var skipuð í lok júlí 1981, m.a. eftir samráð við forustumenn stjórnmálaflokkanna, unnið mikið og gagnlegt starf. Hún hefur haldið 54 bókaða fundi til þessa og farið yfir alla efnisþætti málsins. Þannig hefur nefndin verið afar mikilvægur, faglegur og pólitískur samráðsvettvangur og rn. hefur látið henni í té öll þau gögn og trúnaðarupplýsingar er máli skipta og sem varða verksvið nefndarinnar, auk þess sem nefndin hefur beitt sér fyrir gagnasöfnun á eign vegum. Inn á vettvang nefndarinnar hafa komið margir sérfræðingar, m.a. erlendir, sem unnið hafa að einstökum þáttum þessara mála og málum er tengjast athugunum á orkufrekum iðnaði hérlendis fyrir iðnrn.

Samkv. skipunarbréfi er verkefni nefndarinnar „að eiga viðræður við Alusuisse um skoðanaágreining fyrirtækisins og ríkisstj. vegna samninga aðilanna um álbræðslu í Straumsvík og endurskoðun á þeim samningum.“

Einnig segir í skipunarbréfi nefndarinnar:

„Með vísun í ríkisstjórnarsamþykki 16. júlí 1981 er lögð áhersla á eftirfarandi meginatriði: a) Greiðslur á vangoldnum sköttum, framleiðslugjaldi, vegna of hárrar verðlagningar á aðföngum til ÍSALs á tímabilinu 1975–1979. b) Endurskoðun á gildandi samningsákvæðum um framleiðslugjald í því skyni að tryggja öruggar skatttekjur frá ÍSAL. c) Endurskoðun á samningi um raforkusölu til ÍSALs í því skyni að fá verulega hækkun á raforkuverði. d) Eignaraðild Íslendinga að fyrirtækinu með meirihlutaeign í áföngum að markmiði. e) Byggingu verksmiðju hérlendis, er framleiði rafskaut (anóður) sem fullnægi þörfum álversins, eða öflun rafskauta á annan hagkvæman hátt. f) Breytingu á samningum um ýmis önnur atriði, þar á meðal endurskoðunarákvæði. Auk þess að eiga viðræður við Alusuisse er nefndinni ætlað að vera iðnrn. til ráðgjafar um aðgerðir í málinu. Nefndinni ber að hafa samráð við Landsvirkjun og Hafnarfjarðarkaupstað um efnisatriði, er lúta að raforkuverði og málefnum Straumsvíkurhafnar, eftir því sem þörf gerist í viðræðunum“.

Það er ekki við álviðræðunefnd eða íslensk stjórnvöld að sakast þó að Alusuisse hafi neitað að ganga til viðræðna um hækkun raforkuverðs og endurskoðun á samningum um ÍSAL, þrátt fyrir ítrekaðar óskir ríkisstj., sem fyrst voru fram bornar 9. des. 1980. Hins vegar hefur það komið fram leynt og ljóst frá því að álviðræðunefndin var skipuð, að hún hefur verið forráðamönnum Alusuisse og ÍSALs sérstakur þyrnir í augum og Alusuisse hefur lagt allt kapp á að brjóta þennan sameiginlega vettvang allra stjórnmálaflokka í landinu niður til að tefja málsmeðferð og í von um að fá sér þóknanlegri viðræðuaðila.

Á meðan Alusuisse hefur neitað samningaviðræðum í reynd, aflýst þátttöku í boðuðum fundum, borið fyrir sig formsatriði og reynt að reka fleyga inn í samstöðu hér innanlands, því miður með nokkrum árangri, hefur álviðræðunefndin m.a. fjallað um ágreiningsefni er varða liðinn tíma, þ.e. verðlagningu á aðföngum ÍSALs og bókhald fyrirtækisins, en þau mál snerta náið rök okkar fyrir því að ÍSAL hafi bolmagn til að greiða hærra raforkuverð, auk þess að skila sköttum til íslenska ríkisins, eins og samningar kveða á um. Einnig þennan þátt í vinnu nefndarinnar hefur Alusuisse leitast við að tefja með því að neita nefndinni og réttum endurskoðendum um aðgang að nauðsynlegum upplýsingum af bókhaldsgögnum. Að því mun ég koma síðar.

Meginatriðið er hins vegar í þessu samhengi, að frá því á miðju sumri í fyrra hefur verið til staðar stjórnskipuð nefnd, þar sem er álviðræðunefndin skipuð fulltrúum allra þingflokka til að fjalla um samskipti við Alusuisse og vera til taks ef og þegar auðhringurinn féllist á að taka í alvöru upp samningaviðræður á grundvelli framkominna óska og samþykkta ríkisstj. Þingflokkarnir tilnefndu fulltrúa í nefndina í þessu skyni og þeim er og hefur verið frjálst að skipta um menn í nefndinni eftir því sem þeir teldu sér henta, t.d. með hliðsjón af breyttum áherslum í starfi hennar.

Það getur vel verið að flm. þessarar þáltill. telji að Alþingi eigi í vaxandi mæli að ganga inn á vettvang framkvæmdavaldsins og taka á sig ábyrgð og umsýslu, sem lögð er undir ráðuneyti lögum samkvæmt. Slíkar tillögur hafa mér virst eftirlæti stjórnarandstöðuliðs Sjálfstfl. og sumpart raunar Alþfl. einnig á undanförnum þingum, sérstaklega í sambandi við orkufrekan iðnað. Ég hef varað við þessari stefnu og þeim glundroða og óvissu sem hún mundi leiða til í samskiptum löggjafar- og framkvæmdavalds og einnig af þeim sökum er ég andsnúinn meginefni þessarar till.

Ég tel það raunar aðkallandi verkefni að draga skýrari mörk en verið hefur milli löggjafar- og framkvæmdavalds og gera báða aðila færari en nú er til að sinna sínum skyldum og verkefnum. Alusuisse mun engu fúsari að ræða við þingkjörna nefnd en álviðræðunefnd á vegum ráðuneytis, nema þá af þeirri ástæðu einni að fyrirtækið telji líklegt að koma ár sinni betur fyrir borð gagnvart slíkum aðila. Fyrir nefndarkjöri af þessu tagi munu fá fordæmi, eins og bent hefur verið á, og ég minni á að stóriðjunefnd, sem starfaði á sjöunda áratugnum, og viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, sem starfaði á árunum 1971–1978, voru báðar stjórnskipaðar, en ekki kosnar af Alþingi. Hins vegar er ekki óalgengt, að framkvæmdavaldið leiti tengsla við þingflokka og nefndir þingsins um undirbúning og meðferð ýmissa mála. Það var gert með skipun álviðræðunefndar í fyrra og sá vettvangur verður þingflokkunum opinn á meðan þeir kjósa að nýta hann og tryggja með því samhengi og leita samstöðu í þessu afdrifaríka máli.

Það er vissulega fáheyrt, hvernig ýmsir talsmenn Sjálfstfl. og málgagn þeirra Morgunblaðið hafa kosið að haga málflutningi sínum lengst af frá því upplýst var í des. 1980 að Alusuisse sýndi allt annað og hærra innflutningsverð á súráli til ÍSALs en útflutningsverð frá súrálsverksmiðju sinni í Ástralíu. Þar munaði rúmum 47 millj. Bandaríkjadala á fob-verði á tímabilinu 1974 til júlí 1980 eða á fimm og hálfu ári sem athuguð voru. Þessar niðurstöður voru fengnar á grundvelli staðfestra gagna, m.a. frá hagstofu Ástralíu og ríkisendurskoðun hérlendis, og þessum niðurstöðum hefur ekki verið hnekkt.

Reynt hefur verið að gera athuganir iðnrn. tortryggilegar~og bera um leið blak af gagnaðilanum. Þau orð heyrðum við einnig hér áðan. Þannig segir í ályktun þingflokks sjálfstæðismanna frá 20. júlí 1981, með leyfi hæstv. forseta: „Ber þetta allt frekar vott um áróðursherferð gegn stóriðju heldur en eðlilega gæslu íslenskra hagsmuna“.

Í grg. með þessari þáltill. er spjótunum ekki beint að Alusuisse, ekki í eitt einasta skipti, heldur þrástagast á gagnrýni á innlend stjórnvöld og mig alveg sérstaklega. Það segir m.a. í grg.: „Ástæða er til að gagnrýna harðlega iðnrh. fyrir meðferð á þessu máli... Iðnrh. kaus þá málsmeðferð að hefja á opinberum vettvangi stórfelldar ásakanir um sviksamlegt athæfi Alusuisse þegar í des. 1980. Ráðh. hefur síðan neyðst til að draga í land, en heldur þó uppteknum hætti á opinberum vettvangi. Þessi klaufalega samningaaðferð hefur tafið alla samninga og spillt fyrir möguleikum okkar að fá fram úrslit í þeim málum, sem okkur eru mikilvægust, einkum hækkað raforkuverð. Virðist reyndar sem ráðh. hafi alveg gefist upp við að ná fram samningum um hækkað raforkuverð“.

Hér sem oftar er því blákalt haldið fram, að ég hafi tafið alla samninga, spillt fyrir möguleikum að fá fram úrslit og þar fram eftir götunum. Þessu er haldið fram þótt þeir sjálfstæðismenn hafi með aðild að álviðræðunefnd haft alla möguleika til að fylgjast með framvindu mála og ættu ekki að þurfa að velkjast í vafa um hver hefur tafið endurskoðun á reikningsfærslu fyrri ára hjá ÍSAL og hverjir hafa neitað öllum sanngirniskröfum íslenskra stjórnvalda um endurskoðun samninga og hækkað raforkuverð.

Til að rifja upp staðreyndir málsins er nauðsynlegt að rekja hér nokkuð fyrir hv. þingdeild hvernig samningaumleitanir við Alusuisse hafa gengið frá því tókst að fá fulltrúa fyrirtækisins fyrst til viðræðna í ágúst 1981. Það kemur kannske fram dálítið önnur mynd en hv. 1. flm. þessarar till. var að draga hér fram með sínum skýringum.

Eins og fyrr segir samþykkti ríkisstjórn Íslands á fundi sínum 9. des. 1980 að óska eftir skýringum Alusuisse á yfirverði súráls og jafnframt var óskað eftir samningaviðræðum um endurskoðun gildandi samninga, einkum með hækkun raforkuverðs í huga. Alusuisse lagði fram 11. og 12. febr. 1981 tvær skýrslur, sem áttu að vera skýringar á hækkun í hafi sem svo er kölluð, en voru alls ófullnægjandi. Iðnrn. fól Coopers & Lybrand, breska endurskoðunarfyrirtækinu, rannsókn málsins og leitaði jafnframt til annarra erlendra aðila. Coopers & Lybrand lauk þessari rannsókn sinni með skýrslu um súrálsverð og hækkun í hafi í júlí 1981, þar sem staðfest er stórfellt yfirverð á súráli til ÍSALs á tímabilinu 1975 til miðs árs 1980.

Eftir framlagningu þessarar skýrslu um súrálsverðið og ítrekaðar óskir ríkisstj. um samningaviðræður, gerðar á fundi hennar 16. júlí 1981, samþykkti Alusuisse að koma til fundar hér í Reykjavík í byrjun ágúst 1981. Var það fyrsti viðræðufundur aðila, en þá hafði álviðræðunefndin verið skipuð undir forsæti dr. Vilhjálms Lúðvíkssonar. Á þessum fundi skiptust menn á skoðunum, en formaður sendinefndar Alusuisse, dr. Weibel, lýsti því þar yfir af hálfu Alusuisse, að fyrirtækið væri ekki reiðubúið til að ræða raforkuverðshækkun eða aðra hluti fyrr en fallið hefði verið frá ásökun um yfirverð á súráli. Ákveðið var að hittast aftur í Reykjavík 4. og 5. nóv. 198L Fyrir lá á þessum fyrsta viðræðufundi, að iðnrn. hafði óskað eftir endurskoðun ársreiknings ÍSALs fyrir árið 1980 með heimild í aðalsamningi og falið endurskoðendunum Coopers & Lybrand það verk. Þar var um að ræða almenna endurskoðun allra þátta ársreikningsins, en ekki aðeins yfirverð á súráli.

Á fundinum 4. ágúst var þess krafist af Alusuisse, að Coopers & Lybrand lykju þessari endurskoðun samkv. tímamörkum aðalsamnings, eða eigi síðar en 1. sept. 1981, og var það samþykkt.

Endurskoðendur Coopers & Lybrand gerðu eins og fyrir þá var lagt og skiluðu endurskoðunarskýrslu sinni 1. sept. 1980. Í þessari skýrslu staðhæfa þeir stórfellt yfirverð súráls og einnig rafskauta, auk þess að nauðsynlegt hafi verið að leiðrétta ársreikninginn í mörgum öðrum greinum. Heildarleiðrétting endurskoðendanna nam 8.6 millj. dollara og hækkuðu þeir hagnað ÍSALs þetta árið, 1980, úr 5.5 millj. dollara í 14.2 millj. dollara. Þessi hækkun nam hvorki meira né minna en öllu greiddu raforkuverði á þessu ári eða nálægt því.

Ég vil skjóta því hér að, þm. til glöggvunar, að eftir leiðréttingu Coopers & Lybrand 1980 varð hagnaður álversins svipaður og hjá álbræðslu í Noregi við Husnes, sem er áþekk að stærð, en verksmiðjan er að meiri hl. eða 75% eign Alusuisse, en 25% er norskt hlutafé, mest í eigu Norsk Hydro. Jafnframt vil ég enn einu sinni ítreka, að hér er um að ræða leiðréttingartölur, sem koma frá óháðum virtum alþjóðlegum endurskoðendum, en ekki frá iðnrn. Það hefur verið uppáhaldsiðja Morgunblaðsins og fleiri, sem hafa borið blak af Alusuisse hérlendis, að reyna að telja almenningi og hv. þm. trú um að ég sjálfur, af persónulegri óvild eða pólitísku ofstæki, væri að bera rangar sakargiftir á blásaklausa menn. Annað blasir við hverjum þeim sem sjá vilja. Hér er um að ræða tölur frá Coopers & Lybrand, sem þeir eru reiðubúnir til að standa við fyrir hvaða dómstóli sem er.

Sú staðreynd liggur einnig hér ljós fyrir, að allan þennan tíma hefur Alusuisse neitað að veita Coopers & Lybrand aðgang að ýmsum frumgögnum, m.a. varðandi kostnað við framleiðslu rafskauta, og gaf raunar jafnframt rangar og villandi upplýsingar til að tefja málið. Allt til þessa dags hafa umbeðnar upplýsingar um rafskautin ekki komið frá Alusuisse og fyrir liggur yfirlýsing Coopers & Lybrand um synjun Alusuisse á beiðni þeirra um þessar upplýsingar. Hefur ráðuneytið skrifað Alusuisse bréf, þar sem þessu framferði er sérstaklega mótmælt.

Á fundinum í desember 1981 tókst ekki að leysa úr skoðanaágreiningi aðilanna, eins og það var orðað í sameiginlegri fréttatilkynningu um fundinn. Í lok þeirrar fréttatilkynningar segir svo: „Aðilarnir hafa orðið ásáttir um að leggja þennan skoðanaágreining til hliðar í bili og kanna leiðir til áframhaldandi samstarfs. Í því sambandi hafa fulltrúar ríkisstj. áréttað ályktun ríkisstj. frá 16. júlí 1981 varðandi endurskoðun aðalsamningsins og fylgisamninganna. Óskuðu fulltrúarnir eftir svörum Alusuisse við þessari ályktun ekki síðan en hinn 15. jan. 1982 og hefur Alusuisse fallist á þau tilmæli. Verði svör Alusuisse jákvæð munu aðilarnir koma saman til fundar innan þriggja vikna frá þeim tíma.“

Við þessa niðurstöðu voru bundnar nokkrar vonir, en þær vonir áttu eftir að renna út í sandinn.

Hinn 1. febr. 1982 fréttist af því, að dr. Müller, formaður framkvæmdastjórnar Alusuisse, væri staddur á Íslandi. Hann hafði ekki hug á að tala við iðnrn., sem stjórnskipulega séð er æðsta stjórnvald í málefnum Alusuisse og íslenska ríkisins. Hann hafði pantað viðtal við formenn stjórnarandstöðunnar, Geir Hallgrímsson og Kjartan Jóhannsson, og fékk fundi með þeim báðum. Hann hafði meðferðis í ferð sinni hingað bréf á íslensku og ensku, stílað til ríkisstjórnar Íslands, þar sem hann lýsir því yfir fyrir hönd Alusuisse, þvert ofan í sameiginlegu fréttatilkynninguna frá desembermánuði, sem ég vitnaði til áðan, að Alusuisse sé ekki reiðubúið til raunhæfra viðræðna um breytingar á samningum aðila fyrr en deilumálin vegna viðskipta Alusuisse við ÍSA1. á undanförnum árum hafi verið leyst. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að minna á að nánast nákvæmlega sama viðhorf kemur fram í ályktun þingflokks Sjálfstfl. frá 20. júlí 1981, þar sem hann áréttar einmitt sama sjónarmið og dr. Müller í þessu bréfi sínu, að fyrst þurfi að leiða þessi mál til lykta og síðan að ræða um endurskoðun samninga.

Dr. Müller óskaði einnig eftir fundi með Gunnari Thoroddsen, hæstv. forsrh., til að afhenda honum bréfið, en hæstv. forsrh. neitaði að veita honum viðtal og viðtöku bréfsins nema það hefði áður verið afhent í iðnrn. Þess vegna fékk ég bréfið fyrir hádegi 1. febr. 1982, en ekki var óskað eftir neinu viðtali við ráðuneytið. Dr. Müller óskaði raunar einnig eftir viðtali við Steingrím Hermannsson sjútvrh. og fékk það.

Eftir desemberfundinn tekur Alusuisse sem sagt það til bragðs að senda oddvita sinn til þess að tala við öll stjórnmálaöfl í landinu önnur en Alþýðubandalagið. Hér var uppi fáheyrð tilraun til að tvístra þjóðinni í mikilvægu máli — tilraun sem fer í bága við venjur siðaðra manna.

Fundahöld hófust víða í bænum, borginni Reykjavík, án þess að nokkrar viðræður færu fram milli Alusuisse og álviðræðunefndar eða við ráðuneyti iðnaðarmála. Hinn 8. febr. 1982 náðist þó samkomulag milli formanns álviðræðunefndar, dr. Vilhjálms Lúðvíkssonar, og dr. Weibel, sem var í för með dr. Müller, um að efnt yrði til 3. viðræðufundar aðilanna í Kaupmannahöfn 3. og 4. mars 1982. Iðnrn. hóf þegar undirbúning þessa fundar, en þegar sá undirbúningur stóð sem hæst kom skeyti dagsett 24. febr. 1982 frá dr. Weibel, þar sem Kaupmannahafnarfundinum var aflýst af hálfu Alusuisse. Þessi framkoma sýndi svo ekki varð um villst að Alusuisse var að tefja málið með þeim ásetningi að kljúfa samstöðu Íslendinga með því að spila á hugsanlegar flokkspólitískar væringar.

Ég taldi þeim mun brýnna að leggja mig fram um að halda samstöðunni í málinu, þótt það reyndi á þolrifin og tæki tíma. Tveimur dögum eftir aflýsingu Kaupmannahafnarfundarins, 26. febr. 1982, náðist fullt samkomulag í nefnd þriggja ráðh., sem falið var fullt umboð af hálfu ríkisstj. til að ganga frá stefnu hennar í málinu, þ.e. bæði varðandi markmið og leiðir í deilunni við Alusuisse.

Strax daginn eftir eða 27. febr. 1982 sendi ég síðan dr. Müller, formanni framkvæmdastjórnar Alusuisse, skeyti þar sem ég tjáði honum að hinar síendurteknu kröfur um frestun funda og tregðu Alusuisse til að koma að samningaborði væru að eyðileggja alla möguleika á friðsamlegri lausn deilumálanna. Með hliðsjón af því bað ég hann að hitta mig að máli til þess að freista þess að ná samkomulagi um meðferð deilumálanna. Þetta varð til þess, að við héldum fund, ég ásamt dr. Müller og aðstoðarmönnum okkar, í Reykjavík dagana 25. og 26. mars 1982. Í hópi aðstoðarmanna ráðuneytisins var Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður álviðræðunefndar.

Á fundinum með dr. Müller þessa daga fóru fram ítarlegar umr. um ágreiningsmál íslenskra stjórnvalda og Alusuisse og rædd var þörf endurskoðunar á gildandi samningum. Í upphafi fundanna kynnti ég ríkisstjórnarsamþykktina frá 26. febr. 1982 um meðferð ágreiningsmála. Enn fremur var lögð fram og kynnt grg. um brostnar forsendur rammasamningsins við ÍSAL með rökstuðningi fyrir hækkun raforkuverðsins í 15–20 mills a.m.k. Rakið var í því minnisblaði, að þetta væri eðlilegt rafmagnsverð, miðað við þær forsendur sem byggt var á við undirbúning samninganna 1966 og eins og málin voru þá lögð fyrir Alþingi. Á fyrri fundardegi, 25. mars. lagði Alusuisse fram drög að samkomulagi milli ríkisstj. og Alusuisse. Síðari fundardaginn eða 26. mars voru lögð fram af minni hálfu drög að samkomulagi. Voru bæði drögin rædd. Við lok viðræðnanna 26. mars var ákveðið að hittast aftur um mánaðamótin aprílmaí. Var næsti fundur síðan ákveðinn í Kaupmannahöfn 5. og 6. maí 1982 og fundarstaður þá valinn samkv. eindreginni ósk Alusuisse um Kaupmannahöfn, en síðan var fundarstaðnum breytt og ákveðið að fundurinn yrði haldinn í Reykjavík.

Eins og ég tók fram lagði Alusuisse fram drög að samkomulagi af sinni hálfu á fundinum þann 25. mars s.l., en síðan var því svarað daginn eftir með minnisblaði af hálfu Íslands með grundvelli að samkomulagi. Með hliðsjón af þeim gögnum og umr. um þau bjóst ég við að dr. Müller hefði, þegar hann kom til fundar við mig tæpum 6 vikum síðar, hinn 5. maí, rannsakað framlögð gögn og ekki síst gagntilboð okkar að samningsgrundvelli, lögð fram 26. mars 1982. Ég bjóst að sjálfsögðu við að hann legði þar fram ef ekki nú drög að sáttagrundvelli af sinni hálfu, þá a.m.k. munnleg viðbrögð við framlögðum gögnum síðasta fundar og drögum okkar að samkomulagi. Mér til mikilla vonbrigða komu slík viðbrögð hins vegar engin fram. Var og ekki um nein ákveðin viðbrögð að ræða við þeim kröfum sem settar voru fram á fyrri fundinum af Íslands hálfu og settar höfðu verið fram ítrekað gagnvart Alusuisse þá 16 mánuði sem þá voru liðnir frá því ríkisstj. samþykkti í des. 1980 að krefjast viðræðna við Alusuisse.

Þann 6. maí s.l. var sett fram af minni hálfu sáttatilboð. Var þar sett á oddinn krafan um hækkun raforkuverðsins, a.m.k. í framleiðslukostnaðarverð, og miðað við að saman gengi fyrir 1. nóv. 1982 um þá kröfu. Jafnframt var í þessu sáttatilboði ákvæði til bráðabirgða, þar sem tekið yrði tillit til hins bága ástands sem nú er ríkjandi á álmörkuðum. Sáttatilboð þetta var sett saman á grundvelli þeirra tveggja samkomulagsdraga, sem lögð voru fram af aðilum á fundunum 25. og 26. mars, og voru ekki í því nein ný efnisatriði eða nýjar kröfur settar fram af Íslands hálfu. Var sáttatilboð þetta þannig innan ramma samþykktar ríkisstj. frá 26. febr. 1982. Það er ástæða til að geta þessa hér vegna þess að fyrir nokkrum vikum sá Morgunblaðið ástæðu til að hefja sérstakar árásir á mig fyrir að ég hafi gengið of skammt á þessum fundi í kröfum um raforkuverðshækkun. Hv. 1. flm. þessarar till., Birgir Ísl. Gunnarsson, endurtók þessa tuggu hér áðan væntanlega til að reyna að troða því inn í höfuðið á þjóðinni og reyna að koma því fram gagnvart hv. alþm. að þarna hafi verið lagt fram tilboð af Íslands hálfu um raforkuverð 9.5 mills eða 12.8 mills sem okkar meginkröfu. Þetta er slík fjarstæða, þetta eru slík fáheyrð vinnubrögð af hálfu manna sem vilja láta taka sig alvarlega að ég hlýt að vekja á þeim alveg sérstaka athygli. (Gripið fram í: Hvers vegna skýrði ráðh. Alþingi ekki frá þessu tilboði 6. maí?) Ég stóð í þessum ræðustól þann 6. maí þegar að loknum viðræðufundi við dr. Müller. Ég sagði efnislega frá því sem þar hafði gerst og lyktum þess fundar. Ég greindi frá því þar, að ég mundi ekki rekja á þeim fundi einstök efnisatriði, sem fram hefðu komið í þessum viðræðum, en mundi gera forustumönnum stjórnmálaflokkanna grein fyrir þeim við fyrstu hentugleika. Það gerði ég og afhenti þeim öll þessi gögn, sem þarna voru lögð fram af Íslands hálfu.

Þetta sáttatilboð, sem hér er til umr., kynnti ég ítarlega á fundi með dr. Müller að morgni 6. maí. Eftir um klukkutíma umhugsunartíma neitaði hann tilboði mínu og vildi ekki þiggja frest um svo sem viku tíma til að kynna sáttagrundvöllinn stjórn Alusuisse. Það skal alveg sérstaklega áréttað vegna villandi frásagna á opinberum vettvangi og m.a. staðhæfinga af hálfu Alusuisse í fréttatilkynningu eftir þennan fund, að dr. Müller var ekki krafinn svara þá þar á staðnum. Honum var þvert á móti boðinn rýmilegur frestur til að bera sáttagrundvöll þennan undir stjórn Alusuisse. Þann frest þáði hann ekki.

Á fundinum var rædd ítarlega krafa Íslands um hækkað raforkuverð. Niðurstaða ítarlegra umr. um þetta mál á fundinum var sú, að dr. Müller hafnaði, eins og ég hef greint hér frá, alfarið að nokkur grundvöllur væri til hækkunar raforkuverðsins nú. Í fundarlok hlaut ég því að lýsa því yfir, að fyrst Alusuisse gæti ekki eftir rúmlega 16 mánaða samningaumleitanir gefið nein ákveðin svör né komið nokkuð til móts við ítrekaðar og sanngjarnar kröfur íslenskra stjórnvalda, m.a. um hækkað raforkuverð, þyrfti að taka samskiptamálin við félagið til rækilegrar skoðunar og áskildi ég íslenskum stjórnvöldum allan rétt í því sambandi. Jafnframt tók ég allar framkomnar tillögur og sáttahugmyndir, sem fram höfðu verið lagðar af Íslands hálfu á fundunum í mars og maí 1982, út af borðinu.

Ég kynnti síðar álviðræðunefndinni það sem fram hafði farið á fundunum nokkrum dögum áður og lagði ég fram í nefndinni gögn þau sem rædd höfðu verið á þeim fundum. Ég ítrekaði þá við nefndina, að viðræðurnar við dr. Müller hefðu þann tilgang að koma samningaviðræðum aftur af stað. Ég lýsti þeirri von, að nefndin í heild kæmi inn í viðræðurnar strax og réttar aðstæður hefðu skapast. Á sama hátt gerði ég álviðræðunefndinni grein fyrir niðurstöðum af fundi mínum með dr. Müller 5. og 6. maí.

Álviðræðunefnd hefur í sumar haldið áfram störfum og verið vettvangur samráðs milli stjórnmálaflokkanna. Starf nefndarinnar hefur, auk almennrar umræðu um málið, einkum beinst að athugun á lagalegum og efnislegum forsendum þess að framkvæma endurálagningu framleiðslugjaldsins vegna áranna 1975–1979. Hefur nefndin m.a. aflað sér lögfræðiálits um þetta efni. Að tillögu nefndarinnar hafa ÍSAL. nú verið framsendar lokaniðurstöður Coopers & Lybrand á yfirverði hráefna og endurskoðun á ársreikningum ÍSALs og hefur ÍSA1., jafnframt verið tilkynnt að rannsóknum á verðlagningu súráls og rafskauta á umræddu tímabili sé lokið.

Eins og hér hefur verið rakið hefur Alusuisse gert allt til að torvelda skoðun á verðlagningu á aðföngum til ÍSALs og meinað alþjóðlegu endurskoðendunum Coopers & Lybrand, sem falin var endurskoðun ársreikninga ÍSALs 1980 og 1981 samkv. ákvæðum í samningi, um aðgang að nauðsynlegum bókhaldsgögnum. Þetta hefur ekki aðeins orðið til að tefja fyrir eðlilegum hraða í vinnu að þessum málum, heldur hefur iðnrn. þurft að leggja í mun meiri kostnað og fyrirhöfn en ella hefði orðið til að afla gagna og upplýsinga um fjölmörg atriði varðandi álverið, meðal annars um verðlagningu á aðföngum, söluverð á áli og fjármagnskostnað fyrirtækisins, sem er einn sá þáttur sem er langtum hærri en gerist hjá hliðstæðum fyrirtækjum. Ráðuneytið hefur í þessu skyni leitað til færustu innlendra og erlendra sérfræðinga auk endurskoðendanna Coopers & Lybrand og greitt fyrir það verulegar fjárhæðir.

Á árinu 1981 nam kostnaður vegna alls eftirlits með ÍSAL samkv. ríkisreikningi 2.8 millj. kr., en það eru um 15% af þeirri hækkun á framleiðslugjaldi sem endurskoðun ársreikninga á árinu 1980 einu saman leiddi til þegar miðað er við meðalgengi ársins 1981. Í ár verður þessi kostnaður af eftirliti með ÍSAL eflaust ekki minni. Það skiptir því ekki litlu máli að þetta fé og fyrirhöfn skili sér til baka með beinum og óbeinum hætti, þ.e. í leiðréttum skatttekjum samkv. endurmati á framleiðslugjaldi liðinna ára og í rauninni í aukinni innsýn og þekkingu á afkomu álversins í heild og þar með getu þess til að standa undir hækkun raforkuverðs miðað við eðlilegar rekstrarforsendur og afkomu hliðstæðra fyrirtækja í öðrum löndum. Þetta síðar talda atriði skiptir miklu meira máli en menn almennt gera sér ljóst, þ.e. sú þekking á rekstri þessa fyrirtækis sem hefur margfaldast við athuganir síðustu ára og um leið forsendur réttra stjórnvalda til að veita virkt aðhald og sækja á um eðlilega arðgjöf af álverinu inn í íslenskan þjóðarbúskap.

Krafan um hækkun raforkuverðs hefur verið borin fram oft og ítrekað og hún verður áfram á dagskrá af vaxandi þunga, eins og ég mun víkja að hér á eftir. Hins vegar er endurskoðun vegna yfirverðs á aðföngum til álversins á árabilinu 1975–1979 nú að fullu lokið svo og endurskoðun ársreikninga ÍSALs 1980 og 1981 að mati álviðræðunefndar og iðnrn. Endurskoðunarfyrirtækið Coopers & Lybrand skilaði eftir mikið starf fyrirvaralausum niðurstöðum um þessi efni til rn. með skýrslum, sem dagsettar eru þann 7. okt. s.l., og hafa þær verið athentar forráðamönnum Alusuisse og ÍSALs sem lokaniðurstöður þessara yfirgripsmiklu rannsókna og endurskoðunar af hálfu Coopers & Lybrand. Rétt er að vekja sérstaka athygli á að rannsóknir og endurskoðun þessa virta alþjóðlega fyrirtækis, Coopers & Lybrand, eru allt annars eðlis og unnar með öðrum hætti en álitsgerðir annarra sérfræðinga á vegum iðnrn., svo ekki sé minnst á þá aðila sem Alusuisse hefur kvatt til á sínum vegum. Coopers & Lybrand hafa vegið og metið sjónarmið beggja aðila og ekki síður hlustað á framburð Alusuisse og tekið mið af honum en þeim álitsgerðum sem rn. hefur aflað og eru traustar að okkar dómi. Coopers & Lybrand eru að okkar mati afar varfærnir í sínum niðurstöðum, enda fylgir með af þeirra hálfu að þeir séu reiðubúnir til að standa við þær fyrir hvaða dómi sem er.

En hverjar eru þá þessar niðurstöður Coopers & Lybrand og annarra sérfræðinga, sem lagt hafa mat á yfirverð Alusuisse gagnvart ÍSAL? Ég tel skylt að greina frá því á þessum vettvangi fyrst þessi mál eru komin hér til umræðu, enda varða þau efni þessarar þáltill., þ.e. skoðanaágreining Alusuisse og íslenska ríkisins, sem er eitt af þeim efnisatriðum sem sérstaklega er vikið að sem verkefni fyrir þá nefnd sem þáltill. gerir ráð fyrir að kosin verði.

Að mati Coopers & Lybrand er yfirverð á aðföngum ÍSALs á tímabilinu 1975 til 1981 samtals um 315 millj. Bandaríkjadala eða um 470 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Þar af er yfirverð á súráli 17 millj. 605 þús. dollarar og á rafskautum 13 millj. 834 þús. dollarar eða í heild 31 millj. 439 þús. dollarar. Við endurskoðun á ársreikningum fyrir árið 1980 og 1981 voru reikningar ÍSALs enn fremur leiðréttir vegna afskrifta um samtals 44 millj. Bandaríkjadala eða um 66 millj. ísl. króna. Samtals hefur hagnaður ÍSALs að mati Coopers & Lybrand því verið um 35 8 millj. Bandaríkjadala meiri en bókhaldið hefur gefið til kynna, sem jafngildir á gengi 15. okt. s.l. 536 millj. ísl. króna. Ef sex ára tímabilið 1975 til 1980 er skoðað sérstaklega kemur í ljós að vantalinn hagnaður á því tímabili hjá ÍSAL nemur því sem næst sömu upphæð og allar raforkugreiðslur ÍSALs til Landsvirkjunar á sama tímabili eða 32 2 millj. Bandaríkjadala í raforkugreiðslur á móti 32 9 millj. dala í vantalinn hagnað. M.ö.o.: Íslenska álfélagið hf. hefði getað greitt helmingi hærra raforkuverð, tvöfalt hærra raforkuverð, án þess að sú hækkun hefði þurft að hafa áhrif á bókhaldslega afkomu fyrirtækisins.

Ef litið er til áranna 1975–1979 sérstaklega nam yfirverð á því tímabili samtals að mati Coopers & Lybrand 24 millj. 478 þús. Bandaríkjadölum, þ.e. fyrir súrál um 145 millj. dala og fyrir rafskaut um 10 millj. dala. Nokkur óvissa hefur verið talin ríkja um hvort við gætum sótt rétt okkar vegna yfirverðs á hráefnum á þessu árabili, þar eð ekki fór þá fram sérstök endurskoðun ársreikninga með alþjóðlegri endurskoðun svo sem heimilt er samkvæmt aðalsamningi og framkvæmt var fyrir næstu tvö ár á eftir, þ.e. árið 1980 og 1981. Nú liggja hins vegar fyrir traust lögfræðiálit, sem taka af tvímæli um að endurákvarða megi framleiðslugjald á Íslenska álfélagið hf. samkvæmt almennum grundvallarreglum íslenskra skattalaga, enda sýni stjórnvöld fram á að þau gögn sem ÍSAL lagði fram og upphaflega var byggt á hafi ekki verið í samræmi við ákvæði aðalsamnings, þ. á m. um að við útreikning nettóhagnaðar skuli beitt hlutlægum mælikvarða á viðskiptaháttum milli óskyldra aðila að því er varðar verð á t.d. aðföngum og afurðum. Eðlilegt virðist að beita almennri takmörkun varðandi liðinn tíma, þ.e. að endurákvörðun nái til skatts vegna tekna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Þannig mundi samkv. þessu vera heimilt að endurákvarða framleiðslugjald vegna ársins 1976 og vegna síðari ára, enda fari endurákvörðun skattanna fram á þessu ári. Það álit sem hér er vitnað til er samið af Benedikt Sigurjónssyni fyrrv. hæstaréttardómara og Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni fyrir álviðræðunefnd.

Ég er þeirrar skoðunar, að nú þegar lokaniðurstöður um mat á yfirverði á aðföngum ÍSALs á þessu tímabili liggur fyrir og það lögfræðilega mat, sem ég vitnaði hér til, eigi að ljúka þessu máli af hálfu íslenskra stjórnvalda með því að réttur aðili endurákvarði fyrirtækinu framleiðslugjald frá og með árinu 1976 að telja eða sex ár til baka. Þessi mál eru nú til athugunar hjá álviðræðunefnd og þess er að vænta að hún skili fljótlega um þau umsögn til rn., en að mati nefndarinnar er rannsóknum vegna yfirverðs á aðföngum á þessu tímabili nú lokið.

Ég gat þess að niðurstöður Coopers & Lybrand þættu afar varfærnar, og víst er um það, að iðnrn. hefur undir höndum gild sérfræðiálit um langtum hærra yfirverð, bæði á súráli og rafskautum, en Coopers & Lybrand hafa viljað taka til greina. Alveg sérstaklega á þetta við um yfirverð á rafskautum, sem að mati fjögurra óháðra sérfræðinga er talið vera yfir tvöfalt hærra en Coopers & Lybrand hafa ákvarðað í sinni endurskoðun. Í stað um 10 millj. dollara á árunum 1975–1979 eru þannig aðrir, eins og hið reynda verkfræði-og ráðgjafarfyrirtæki F.M. Engineering í Sviss, sem reikna yfirverðið á rafskautum á um 26 millj. dala. Fari svo, sem ég tel líklegt, að við endurmat framleiðslugjaldsins verði hinar varfærnu niðurstöður Coopers & Lybrand lagðar til grundvallar á sama hátt og við endurskoðun ársreikninga ÍSALs 1980 verður samt um verulegar fjárhæðir í viðbótarskatti að ræða í formi hækkaðs framleiðslugjalds. Samkvæmt lauslegu mati gætu þær upphæðir numið um 6 millj. dollara eða nálægt 90 millj. ísl. kr. fyrir árin 1976 til 1980. Eru þá ekki meðtaldir vextir eða bætur vegna vangoldinna skatta liðinna ára. Til samanburðar má geta þess að framleiðslugjaldstekjur á öllu þessu tímabili námu 9 millj. dollara, þannig að hér er samkvæmt ofansögðu um hvorki meira né minna en um 65% hækkun á framleiðslugjaldinu að ræða.

Alusuisse hefur nú um tvennt að velja, eftir að rannsóknum og endurskoðun vegna þessa tímabils er lokið: að sætta sig við hinar velgrunduðu niðurstöður íslenskra stjórnvalda eða fara í málsókn af sinni hálfu fyrir íslenskum eða erlendum dómstóli. Tækju íslensk stjórnvöld á annað borð ákvörðun um að mæta fyrir slíkum dómstóli, sem ég skal ekkert um fullyrða á þessu stigi mála, munu ekki hinar varfærnu niðurstöður Coopers & Lybrand verða lagðar til grundvallar af okkar hálfu, heldur ýtrustu kröfur. Þar er af ýmsu að taka, eins og ég hef þegar getið um, ekki aðeins varðandi yfirverð á aðföngum heldur einnig varðandi aðra kostnaðarþætti, svo sem afskriftir og fleira svo og verðlagningu á hrááli á síðustu árum. Þótt litið sé á yfirverð rafskautanna einvörðungu mundi það samkv. hækkuðu mati nægja til að nær tvöfalda vangoldið framleiðslugjald, úr um 6 millj. dollara í nær 12 millj. dollara, fyrir þetta tímabil. Sá skoðanaágreiningur Alusuisse og íslenska ríkisins vegna samninganna um álbræðsluna í Straumsvík sem fyrstur er talinn í verkefnaskrá í þáltill. þeirra sjálfstæðismanna er því nánast til lykta leiddur af Íslands hálfu. Það atriði sem þingflokkur sjálfstæðismanna ályktaði um 20. júlí 1981 og taldi þá fyrsta skrefið, þ.e. að ljúka alhliða athugunum málsins þannig að í ljós komi hvort Íslendingar hafi orðið fyrir tjóni á skattgreiðslum eða með öðrum hætti, eins og það heitir í þessari ályktun, liggur nú einnig fyrir með ótvíræðum hætti. Það var jafnframt krafa þingflokks Sjálfstæðisflokksins að samningar um álverið yrðu haldnir í hvívetna þannig að ekki er að efa stuðning þeirra sjálfstæðismanna nú er niðurstöður liggja fyrir.

Ég minnist einnig ummæla hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar í umr. utan dagskrár um þessi mál 17. des. 1980, þar sem hann sagði m.a. með leyfi hæstv. forseta:

„Um þetta mál má annars segja það, að ef þær upplýsingar, sem fram eru komnar af hálfu ráðuneytisins, reyndust réttar er það bæði ánægjulegt og sorglegt. Það er ánægjulegt ef svo reynist að stóriðjusamningarnir séu miklu betri en við höfum gert okkur grein fyrir, ef hagnaðurinn af álverksmiðjunni reynist miklu meiri en við höfum fram að þessu vitað“.

Þetta sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson þá og þetta var skynsamlega mælt af hv. þm., því að einmitt í þessu er fólgin mikilsverðasta vitneskjan og þýðingarmesta uppskeran úr þessari rannsókn, þ.e. að álverið í Straumsvík er langtum arðbærara fyrirtæki en Alusuisse hefur látið koma fram í bókhaldi sínu flest árin síðan verksmiðjan hóf rekstur og því vel í stakk búin að greiða miklu hærra raforkuverð en gert hefur verið. — Og í sömu ræðu sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson:

„Hitt er auðvitað hryggilegt, ef það skyldi reynast svo, að stórfyrirtæki eins og Alusuisse hefði brotið á okkur samninga. Þá er vissulega ástæða til þess, að Íslendingar sameinist um að taka hraustlega á móti. Ég lýsi því hér með yfir, að ekki skal standa á mér og ekki skal standa á neinum af þm. Sjálfstfl. að taka þátt í því, ef á daginn kemur að samningar hafi verið brotnir.“

Ég veit að ég þarf ekki að brýna þennan hv. þm., svo ódeigur sem hann er að mæla fyrir rétti okkar m.a. í hafréttarmálum, og sama á eflaust við um fleiri í þessu stóra hagsmunamáli, væntanlega um alla þm. Sjálfstfl. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem innleiddi þessa umr.

í Ed. 7. des. 1980, sagði við lok hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„En ég legg áherslu á, að að þessu máli verði unnið skynsamlega, og ég segi það og endurtek, að reynist hér vera um pretti að ræða verður auðvitað að taka á því sem slíku og af fyllstu hörku, en það væri líka mjög slæmt fyrir okkur ef þetta reyndist vindhögg.“

Í sama streng hefur þingflokkur Alþfl. tekið í ályktunum, m.a. í júlí 1980, og hann átti drjúgan þátt í, þingflokkur Alþfl., að skapa samstöðu um meðferð málsins milli stjórnar og stjórnarandstöðu á vettvangi álviðræðunefndar um það leyti sem hún var skipuð.

Ég sný mér þá frá þessum málefnum, er varða endurskoðun á bókhaldi ÍSALs, yfir að endurskoðun samninga milli íslenskra stjórnvalda og Alusuisse, þar sem hækkun raforkuverðs hefur verið í brennidepli af hálfu íslenskra stjórnvalda þótt margt fleira komi til. Um þetta vísa ég til samþykktar ríkisstj. frá 9. des. 1980, þar sem krafist var endurskoðunar samninga um álverið, ítrekunar á þeirri samþykkt 16. júlí 1981 með nánari útfærslu á henni svo og samþykktar ríkisstj. frá 26. febr. 1982 varðandi meðferð deilumála og endurskoðun samninga við Alusuisse vegna ÍSALs. Meginkrafa ríkisstj. varðandi hækkun raforkuverðs í öllum þessum samþykktum, sem borin hefur verið fram gagnvart Alusuisse bréflega og á viðræðufundum, er um hækkun raforkuverðs frá því sem nú er, a.m.k. upp að kostnaðarverði við nýja raforkuöflun, ásamt ákvæðum um óskerta verðtryggingu.

Gífurlegt starf hefur verið unnið á vegum iðnrn. og fleiri aðila, eins og Landsvirkjunar, til að renna stoðum undir kröfur okkar um stórhækkað raforkuverð hjá álverinu. Þannig skipaði ég starfshóp í byrjun 1981 „til að afla gagna og upplýsinga fyrir ráðuneytið um atriði, er varða raforkuverð til Ísl. álfélagsins hf., eins og það verð hefur þróast, og til að taka saman grg. fyrir ráðuneytið um gögn og röksemdir, sem einkum kemur að haldi í fyrirhuguðum samningaviðræðum við Alusuisse um hækkun raforkuverðsins til Íslenska álfélagsins hf.“ Starfshópnum var í þessu sambandi m.a. ætlað að hafa í huga þróun orkuverðs í heiminum almennt, framleiðslukostnað á raforku frá nýjum virkjunum hér á landi svo og raforkuverð í nýjum og endurskoðuðum samningum við álfyrirtæki annars staðar í heiminum. Í þennan starfshóp voru skipaðir Finnbogi Jónsson deildarstjóri í iðnrn., Gunnlaugur Jónsson deildarstjóri hjá Orkustofnun, Jóhann Már Maríusson yfirverkfræðingur hjá Landsvirkjun og Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins. Í júlí 1982 lá fyrir skýrsla frá þessum vösku mönnum með heitinu „Athugun á raforkuverði til Íslenska álfélagsins hf.“ og var hún nokkru síðar send öllum hv. alþm. ásamt hliðstæðri skýrslu um skattgreiðslur Íslenska álfélagsins hf. frá öðrum starfshóp, sem í áttu sæti Árni Kolbeinsson deildarstjóri í fjmrn., Halldór V. Sigurðsson ríkisendurskoðandi og Ragnar Árnason lektor. Báðar þessar álitsgerðir eru grundvallargögn hvor á sínu sviði. Ég geri þau hér ekki efnislega að umræðuefni, þótt freistandi væri, en vísa í meginniðurstöður starfshópsins um raforkuverð, þar sem segir:

„Að öllu samanlögðu telur starfshópurinn að gjörbreyttar forsendur frá því að raforkusamningurinn var gerður 1966 og eftir endurskoðun hans 1975 réttlæti kröfur um að raforkuverðið til ÍSALs hækki í 15–20 mill á kwst. miðað við verðlag 1982. Starfshópurinn telur jafnframt, að orkuverðið þurfi að vera að fullu verðtryggt á samningstímanum og kæmi til greina að miða verðtrygginguna að hálfu við verðþróun á áli og að hálfu við gjaldskrá Landsvirkjunar.“

Um samkeppnisstöðu Íslands í álframleiðslu er niðurstaða starfshópsins þessi:

„Samkeppnisstaða Íslands í álframleiðslu er góð með hliðsjón af legu landsins og mörkuðum austanhafs og vestan. Telja má, að samkeppnisfært raforkuverð til áliðnaðar hér á landi sé um 20 mill á kwst.“

Þetta var tilvitnun í nokkrar meginniðurstöður þessa starfshóps um raforkuverð.

Þá hefur þessi athugun að geyma heildarúttekt á álsamningnum með tilliti til raforkuverðs og yfirlit um orkusölu og verðþróun hjá álverum um nær allan heim. Þar kemur m.a. fram, að vegið meðalverð til álvera í Vestur-Evrópu er nú 20.3 mill og er verðið til ÍSALs, sem er 6.5 mill, þar langlægst.

Í Bandaríkjunum er meðalraforkuverð til áliðnaðar enn hærra eða 22 mill og til álvera í heiminum að meðaltali í heild 22.3 mill og er áætlað að það verð hækki í 24 mill nálægt 1990 reiknað á sama verðlagi. Ekki vekur síður athygli, að meðalorkuverð í þeim 13 álverksmiðjum sem Alusuisse á hlutdeild í er 20 mill á kwst. og lægst hjá ÍSAL 6.5 mill, en hæst í Þýskalandi og Bandaríkjunum, þ.e. um og yfir 30 mill.

Þessi grg. starfshóps ráðuneytisins er slíkt grundvallargagn í þessu máli og sýnir svo ljóslega og ótvírætt réttmæti íslensks málstaðar varðandi kröfuna um allt að þreföldun raforkuverðs til ÍSALs að enginn sem kynnir sér hana getur verið í neinum vafa um málstað okkar. Viðbrögð við niðurstóðum skýrslunnar voru líka mjög á eina lund í fjölmiðlum sem um hana fjölluðu. „Orkuverðið er aðalmálið,“ sagði DV, Dagblaðið og Vísir, réttilega í yfirskrift leiðara 7. sept. s.l. „Orkuverðið verður að hækka,“ skrifaði ritstjóri Tímans sem fyrirsögn yfir ritstjórnargrein. Meira að segja Morgunblaðið sá sitt óvænna og kúventi myndarlega í ritstjórnargrein undir fyrirsögninni „Óhæfur iðnrh.“, en þar sagði m.a.: „Eins og raforkuverðsskýrslan, sem ráðh. lagði fram í vikunni, sýnir eru öll rök því til stuðnings að orkuverðið sé hækkað í 15–20 mill.“ Ja, öðruvísi mér áður brá.

Þessar viðtökur voru hins vegar allar hinar ánægjulegustu því að þær sýndu svart á hvítu mikla eindrægni að baki kröfunni um stórhækkað raforkuverð með allt að þreföldun að markmiði, eins og fram hafði verið sett í samþykkt ríkisstj. m.a. í febrúar 1982 og ítrekað af mér á viðræðufundi með dr. Müller, formanni framkvæmdastjórnar Alusuisse, í mars og maí á þessu ári.

Iðnrn. sendi raforkuverðsskýrsluna með bréfi til Landsvirkjunar 3 1. ágúst s.l. og óskaði eftir umsögn um meginniðurstöður skýrslunnar og mat á áhrifum af umræddum hækkunum á fjárhagsafkomu Landsvirkjunar. Í umsögn stjórnar Landsvirkjunar, sem barst ráðuneytinu í bréfi dagsettu 30. sept. s.l., segir m.a.:

„Með samningsendurskoðuninni árið 1975 var brautin því rudd til þess að jafnan megi taka samningana við Alusuisse og ÍSAL til endurskoðunar, ef samningsforsendur breytast, og að áliti stjórnarinnar eru slíkar aðstæður nú fyrir hendi. Stjórn Landsvirkjunar er því sammála þeirri niðurstöðu skýrslunnar, að breyttar forsendur nú gefi tilefni til endurskoðunar samningsins með raforkuverðshækkun fyrir augum.“

Í sérstakri grg. um rafmagnsverð til stóriðju, sem fylgdi umsögninni frá Landsvirkjun, kemur fram sú meginniðurstaða „að þegar á allt er litið virðist raunhæft að fara fram á tvö — til þreföldun á núverandi orkuverði til ÍSALs“. Stjórn Landsvirkjunar leggur áherslu á ýmis fleiri atriði, sem gefa þurfi gaum, svo sem kaupskuldbindingar á orku í núverandi samningi, en hækkun raforkuverðs megi ekki verða til að veikja það ákvæði um of. Þá er bent á samkeppnisstöðu ÍSALs einnig með tilliti til núverandi kreppu í áliðnaði, og samhengi rafmagnsverðs við skatta og afhendingarskilmála rafmagns. Fram kemur það mat, að hækkun orkuverðs hjá ÍSAL hafi afgerandi áhrif á afkomu Landsvirkjunar, t.d. hækki arðgjöf fyrirtækisins úr 6–7% miðað við núverandi raforkuverð í 11–12% við hækkun raforkuverðsins í nálægt 18 mill á kwst.

Í grg. með þeirri þáltill., sem hér er til umr., segir í framhaldi af því að þar segir „Ástæða er til að gagnrýna harðlega iðnrh. fyrir meðferð á þessu máli“: „Á árinu 1980“ takið eftir hv. alþm. „var mjög gott tækifæri til að ná fram hækkun rafmagnsverðs. Bæði hafði orkuverð í heiminum hækkað mjög og verð á áli var mjög gott eða 2 þús. Bandaríkjadollarar á tonn og bjartsýni ríkjandi um framtíðarþróun álmarkaðarins. Þetta góða tækifæri hefur ráðh. látið sér úr greipum ganga, en álverð hefur nú lækkað niður fyrir 1 þús. Bandaríkjadollara á tonn. Líkurnar fyrir góðum árangri eru því minni en áður. Þrátt fyrir það er nauðsynlegt að halda áfram af meiri alvöru en gert hefur verið að ná fram verulegri hækkun rafmagnsverðs.“

Áður, eða í ályktun þingflokks sjálfstæðismanna frá 20. júlí 1982, var vægar til orða tekið og aðeins um það talað að síðan, þ.e. eftir athugun á hvort Íslendingar hafa orðið fyrir tjóni á skattgreiðslum vegna yfirverðs, verði teknar upp viðræður við Alusuisse m.a. um hækkun raforkuverðs. Í bréfi Sjálfstfl. frá 5. maí s.l. er talað almennt um endurskoðun raforkuverðs og stefnumörkun sem gera þurfi um það í samvinnu við alla þingflokka. Hér eru menn þó þrátt fyrir allt á réttri leið. Síðasta áróðursklisja Morgunblaðsins í minn garð er raunar um að ég hafi hampað allt of lágu raforkuverði framan í dr. Müller í maí s.l., og þó hreyfði Alusuisse sig hvergi.

En lítum ögn til baka, nánar tiltekið til ársins 1980, en þá var mjög gott tækifæri til að ná fram hækkun raforkuverðs, segir í grg. með þáltill. nú. Hvar voru þá brýningar Sjálfstfl. í þessu máli? Voru talsmenn Geirsliðsins og höfuðpaurinn sjálfur, hv. 1. þm. Reykv., þá ekki með heitingar í minn garð um að sæk ja nú fast að Alusuisse til að fá fram myndarlega hækkun á raforkuverði? Maður skyldi halda það, eins og nú er talað. Það vill svo til, að einmitt á fyrri hluta þingsins, haustið 1980 frá október til desember, bar málefni álversins í Straumsvík og verðlagningu á raforku til stóriðju oft á góma hér á hv. Alþingi, m.a. í umr. um tvær þáltill. um stóriðjumál, aðra flutta af þingflokki Alþfl. og hina borna fram af Geirsliðinu samanlögðu. Þarna hljóta talsmenn stjórnarandstöðu sjálfstæðismanna að hafa vakið athygli á nauðsyn þess að hækka raforkuverðið, skyldum við ætla í ljósi þess sem nú er sagt tveimur árum síðar. Ég hef farið yfir þessar umr., þar sem ég vék ítrekað að raforkuverðinu til ÍSALs þannig að fréttnæmt þótti, og eitthvað var hv. 1. flm. þessarar till. að vitna til þeirra umr. hér áðan, og lét þar ákveðið þá skoðun í ljós að fyrr en seinna yrði að reyna á sanngirnissjónarmið í þessu máli m.a. með tilliti til gífurlegra breytinga á orkuverði í heiminum. Hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, brást við þessum sjónarmiðum m.a. í framsöguræðu fyrir stóriðjutillögu þeirra sjálfstæðismanna með svofelldum orðum 4. des. 1980, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er álsamningurinn við Swiss-Aluminium sem var forsenda þess að unnt var að ráðast í stórvirkjun í Þjórsá. Við höfum heyrt þann samning gagnrýndan vegna of lágs orkuverðs. Við skulum hafa í huga að um þetta orkuverð var samið áður en til orkukreppunnar kom og olíuverðshækkana. En þótt svo hafi verið, þá hefur þessi samningur gert okkur það gagn, að við höfum allar götur síðan búið við langtum ódýrara rafmagn til eigin nota, Íslendingar, heldur en ef þessi samningur hefði ekki verið gerður. Og við höfum þar að auki notið góðs af rekstri álverksmiðjunnar og eftirfarandi iðnaðarrekstri.“

Í sömu ræðu vitnaði formaður Sjálfstfl. stoltur í stefnuyfirlýsingu sjálfstæðismanna umorkumál fyrir síðustu kosningar, eins og það var orðað, þ.e. vetrarkosningarnar í des. 1979. Ekki er að finna í þeirri tilvitnun í ályktun Sjálfstæðisflokksins, stefnuyfirlýsingu sjálfstæðismanna um orkumál fyrir þær kosningar, orðið orkuverð, hvað þá hækkun orkuverðs til stóriðju. Þau orð er þar ekki að finna. Og svo fór fleirum hv. stjórnarandstæðingum í umr. á þeim vetri og jafnvel allt árið 1981, að hækkun orkuverðs til ÍSALs var þeim siður en svo ofarlega í huga. Það er ekki fyrr en 9. mars á þessu ári, 1982, sem hv. 1. þm. Reykv. er ögn tekinn að ranka við sér, þegar hann mælti fyrir till. svipaðri stóriðjutillögu þeirra sjálfstæðismanna haustið 1980. Þar segir hann:

„Þótt stóriðjufyrirtæki greiði nú lægra orkuverð en skyldi vegna stórhækkaðs orkuverðs á heimsmarkaði, þá er staðreynd að tekjur af orkusölu til ÍSALs borga alla Búrfellsvirkjun, miðlunarframkvæmdir í Þórisvatni, línur til borgarinnar og varastóð í Straumsvík á 20 árum. Án álversins hefði ekki verið unnt að ráðast í Búrfellsvirkjun og almenningur þurft að sæta hærra orkuverði.“

„Lægra en skyldi“ eru sterkustu orð formanns Sjálfstfl. um raforkuverðið til ÍSA1.s, og var komið fram á góu 1982 er þessi orð voru töluð. Og svo kórónaði hann málflutninginn nokkuð svipað og hv. 1. flm. þessarar þáltill. hér áðan með því að staðhæfa eina umferðina enn að almenningur hefði þurft að greiða hærra orkuverð ef álverið hefði ekki komið til. Kannske trúir hann þessu, hv. þm., þótt verðmunur á orkuverði til ÍSALs annars vegar og til almenningsveitna hins vegar hafi vaxið úr 80% í yfir 400% á þeim 13 árum sem álverið hefur verið starfrækt. Og vita ekki hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. flm. þessarar till. að kostnaður við næstu virkjun á eftir Búrfelli, Sigölduvirkjun, var á föstu verðlagi tvisvar sinnum hærri, tvöfalt hærri en kostnaður við Búrfellsvirkjun miðað við orkueiningu? Svo eru þessir hv. þm. að staðhæfa það hér, að vegna samningsins um álverið við Straumsvík greiði almenningur á Íslandi lægra raforkuverð en ella hefði verið. Ja, fyrr má nú vera forherðingin. Hvar eru reiknimeistarar þessara hv. þm.? Ætli það væri ekki rétt að þeir færu að draga fram tölvur á nýjan leik?

Hv. 1. flm. þessarar þáltill., Birgir Ísl. Gunnarsson, hefur verið næstötulasti verjandi álsamningsins hér á hv. Alþingi undanfarin ár. Hækkun raforkuverðs til ÍSALs var ekki á dagskrá hjá þessum stjórnarmanni í Landsvirkjun á árinu 1980 og ég held varla heldur á árinu 1981. Mér er ekki kunnugt um að hann hafi minnst á það einu orði á þessu tímabili. Kannske vill hann vitna til þeirra. Það er ekki fyrr en kom fram á þetta ár að hann steig yfir þröskuldinn og tók loks undir kröfur ríkisstj. um nauðsynina á hækkun á orkuverði til ÍSALs. En í grg. með till. sinni leyfir hann sér samt að segja, eins og hér hefur oft verið vitnað.til: „Á árinu 1980 var mjög gott tækifæri til að ná fram hækkun rafmagnsverðs.“ Margt mega menn aumlegt sjá hér á hv. Alþingi -já, og heyra.

En þeir eiga að njóta sannmælis sem það eiga skilið. Í þagnarkór stjórnarandstöðunnar um orkuverð til ÍSALs á árinu 1980 skar sig úr sem rödd. Það var Árni Gunnarsson, hv. 6. þm. Norðurl. e., sem sagði í umr. um stóriðjutill. þeirra Alþfl.-manna 30. okt. 1980:

„En ég skal taka undir það og undirstrika hvar og hvenær sem er, að það er þjóðinni til háborinnar skammar hvernig háttað er raforkusölu til álverksmiðjunnar.“

Síðar hafa ýmsir hv. þm. Alþfl. og þingflokkur þeirra í heild tekið rösklega undir kröfur um hækkun raforkuverðs til ÍSALs.

Herra forseti. Nú er þjóðin sameinuð að baki kröfunni um stórhækkað raforkuverð til Íslenska álfélagsins. Það eru mikil og góð umskipti og þau hafa fyrst og fremst orðið á þessu ári, á síðustu tveimur mánuðum liggur mér við að segja, hjá hv. þm. í stjórnarandstöðuliði Sjálfstfl. Ég fagna þessum sinnaskiptum. Þessa kröfu hefur ríkisstj. hins vegar borið fram gagnvart Alusuisse um nær tveggja ára skeið, en án jákvæðra viðbragða af hálfu Alusuisse.. Á síðasta viðræðufundi mínum með formanni framkvæmdastjórnar Alusuisse, dr. Müller, þann 6. maí s.l., var látið á það reyna til hins ítrasta hvort Alusuisse væri fáanlegt til að sýna jákvæð viðbrögð gagnvart sanngirniskröfum íslenskra stjórnvalda um hækkun raforkuverðs til álversins. En við það var ekki komandi og ekki var léð einu sinni máls á hækkun raforkuverðs af hálfu fulltrúa Alusuisse á neinn hátt, eins og ég greindi hv. Alþingi frá að fundinum loknum samdægurs 6. maí.

Við höfum sýnt mikið langlundargeð í þessu máli, Íslendingar, gagnvart stífni og neitun við sanngirniskröfum okkar af hálfu Alusuisse. Þegar það lá fyrir skýrt og ótvírætt í maí s.l. vor, að Alusuisse væri ófáanlegt til að fallast á hækkun raforkuverðs og að taka upp viðræður um endurskoðun samninga að öðru leyti lýsti ég því yfir að allar tillögur íslenskra stjórnvalda til að leita lausnar á þessari deilu væru dregnar til baka og að tilgangslaust væri að halda slíkum viðræðum áfram nema breyting yrði á afstöðu gagnaðilans, þ.e. Alusuisse. Ég kvaðst mundu gera ríkisstj. og forustumönnum stjórnarandstöðunnar grein fyrir þessari stöðu mála og íslensk stjórnvöld hlytu að taka öll samskiptamál sín við Alusuisse til gagngerðrar endurskoðunar.

Frá þessum tíma hefur ekkert komið fram frá hálfu Alusuisse, er gefi til kynna breytta afstöðu af þeirra hálfu, og þeir hafa aldrei haft samband við iðnrn. um þessi mál frá fundinum í maí að telja. Af hálfu iðnrn. hefur hins vegar mikið verið unnið til að undirbúa næstu skref. Endurskoðun vegna reikningsskila og yfirverðs hjá ÍSAL á undanförnum árum er lokið og staða okkar með tilliti til að sækja rétt okkar gagnvart Alusuisse varðandi hækkun raforkuverðs með einhliða aðgerðum, ef þeir ekki fást til sanngjarnra samninga, hefur verið til gaumgæfilegrar athugunar, m.a. lögfræðilegrar og þá út frá íslenskri löggjöf og þróun í alþjóðarétti. Þessi athugun er sjálfsögð eins og málinu er háttað og hún byggir á samþykkt ríkisstj. frá 26. febr. s.l., þar sem segir m.a., að ef ekki reynist unnt að fá samþykki Alusuisse til að hefja án tafar viðræður á þeim grundvelli sem ríkisstj. þá samþykkti áskilji íslenska ríkisstj. sér allan rétt til að fara eigin leiðir til þess að ná fram nauðsynlegum breytingum á gildandi samningi.

Varðandi raforkuverðið er það lágmarkskrafa okkar að fá greitt a.m.k. framleiðslukostnaðarverð frá þeim virkjunum sem ákveðið er að reisa á næstu árum. Það er um þreföldun á því verði sem ÍSAL nú greiðir. Við getum eflaust unað því að ná því marki í einhverjum áföngum á stuttum tíma og höfum verið reiðubúnir til að taka nokkurt tillit til þeirrar kreppu sem nú ríkir á álmörkuðum. Fullt framleiðslukostnaðarverð ásamt fullri og öruggri verðtryggingu er hins vegar skilyrði af okkar hálfu varðandi samninga til frambúðar og það verð hefur verið talið liggja á bilinu 18–22 mill á kwst. miðað við verðlag á miðju yfirstandandi ári. Um þetta erum við reiðubúnir að semja. En vilji Alusuisse ekki lúta slíku nú fremur en hingað til, heldur sýna okkur áfram hrútshornin, er okkur skylt að sækja rétt okkar eftir þeim leiðum sem fullvalda ríki eru tiltæk. Tíminn til samninga er að renna út. Einhliða aðgerðir hljóta að verða á dagskrá fyrr en varir.

Herra forseti. Um fyrirliggjandi þáltill. þarf ég fáu að bæta við það sem hér hefur komið fram. Hún er greinilega flutt af fljótfærni og pólitísku ofurkappi. Hún er til þess fallin að sundra í stað þess að sameina í hagsmunamáli sem öllu skiptir fyrir okkur að ná samstöðu um hér innanlands. Hún er að efni til, þessi þáltill., rétt eins og við værum að byrja góðlátlegar áþreifingar við Alusuisse og till. tekur ekkert tillit til þess sem á undan er gengið. Hún er til þess eins fallin að kæta málsvara auðhringsins. Með henni er boðið upp á útfærslu á starfsemi Alusuisse hérlendis á sama tíma og auðhringurinn hefur skellt skollaeyrum við sanngirniskröfum okkar. Hún gerir ráð fyrir að setja á fót nefnd á sama tíma og til staðar er vettvangur allra þingflokka þar sem fjallað hefur verið um samskiptamál okkar við Alusuisse í meira en ár.

Við hv. flm. þessarar till. vil ég segja að lokum: Gerum ekki þann óvinafagnað að auka innbyrðis sundurþykki hér á hv. Alþingi í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Ég er reiðubúinn til að hlýða á mál hv. stjórnarandstöðu nú sem fyrr með það í huga að halda samstöðu um málsmeðferð og lagfæra hnökra sem færð eru gild rök fyrir og sem unnt ætti að vera að slétta úr. Ábyrgðin hlýtur hins vegar eftir sem áður að vera hjá réttu stjórnvaldi í þessu máli sem öðrum, og það er engum til góðs að drepa henni á dreif.