11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

Um þingsköp

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég á nú ekki langa þingsögu að baki, en mér kemur í hug atvik sem ég varð einu sinni vitni að sem ungur maður og þá áheyrandi og áhorfandi á þingpöllum. Það var árið 1956 þegar Sovétríkin réðust inn í Ungverjaland. Þá var forustumaður Alþb., Einar Olgeirsson í forsetastóli. Þáverandi formaður Sjálfstfl., Ólafur Thors, kvaddi sér þá hljóðs utan dagskrár til þess að ræða það mikilvæga mál sem þá var að gerast. Einar Olgeirsson meinaði honum orðið og þetta vakti mikla athygli. Það þinglega ofbeldi sem þá var verið að fremja vakti mikla athygli. Nú er þessi hæstv. forseti, 1. þm. Vesturl., að feta í fótspor Einars Olgeirssonar frá 1956 og fremja hér þinglegt ofbeldi. Það er ekkert mál mikilvægara til umræðu á Alþingi í dag en þetta mál. Það eru engin rök í þessu máli að þessar umr. um brbl. megi ekki rjúfa. Hæstv. ríkisstj. hefur gert það hvað eftir annað. Umr. um brbl. hefur staðið, ég vil segja, vikum saman og hæstv. ríkisstj. hefur sjálf tekið inn á milli ýmis mál sem hún hefur óskað eftir að tekin yrðu fyrir og ættu að hafa forgang. En það vekur sérstaka athygli í þessu máli að hæstv. iðnrh. kemur hér upp — og það er staðfest af hæstv. forseta þessarar deildar — og segir að hann sé ekki tilbúinn til að taka þátt í efnislegri umræðu um þetta mál. Efnislegri umræðu um mál sem hann hélt blaðamannafund um í dag. Um mál sem hann sá ástæðu til þess að kalla á blaðamannafund út af og skýra þar frá ákvörðunum sínum og hæstv. fjmrh. og hugsanlega hæstv. ríkisstj., guð veit hvað, það fæst ekki upplýst hér. Hann kemur svo hingað í ræðustól í Alþingi og segir: Ég er ekki reiðubúinn til þess að taka efnislegan þátt í umr. á Alþingi um þetta mál. Ég er ekki reiðubúinn að skýra hv. Alþingi frá því sem ég skýrði blaðamönnum frá í dag. Þetta er með ólíkindum, þessi framkoma þessa hæstv. ráðh. í garð Alþingis. Ég efast satt að segja um að hægt sé að finna dæmi um slíkt virðingarleysi ráðherra gagnvart Alþingi úr þingsögunni.

Sú ósk okkar, þingflokks sjálfstæðismanna, um að þetta mál verði hér tekið til umræðu stendur og ég vil enn á ný biðja forseta um að skoða hug sinn og endurskoða afstöðu sína. Það er enginn afsökun þó hæstv. ráðh. komi hér og segist ekki vilja skýra Alþingi frá efnisþáttum máls. Hæstv. ráðh. ber að gera það ef alþingismenn óska eftir því og hæstv. forseti á ekki að ljá máls á slíkum málflutningi og ljá máls á slíkum heigulsskap sem hæstv. iðnrh. sýnir í þessu máli gagnvart Alþingi.