14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit nú satt að segja ekki, eftir að þetta mál er búið að velkjast hér dögum, vikum og mánuðum saman, hversu ítarlega á undir lok umr. að fara að rifja upp, kanna ágreining og það sem beint hefur verið sérstaklega til mín sem forustumanns í verkalýðsfélögum. Ég hafði hugsað mér að flytja hér ræðu sem jafnaðist að lengd á við ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals, tala í einn til tvo klukkutíma, en ég skal draga þetta saman í örstutt mál.

Því er beint allharkalega að mér t. d. að ég hafi barist á móti — réttilega — lögum frá 1978 um skerðingu vísitölu. Ég veit ekki hvað ég á að fara ítarlega í þetta. Ég hef einhvers staðar svarað því, en það er rétt að það komi fram í örstuttu máli.

Ég held að þarna sé ekki alveg saman að jafna. Í þessum lögum eru að vísu vísitölubætur skertar um helming eitt vísitölutímabil. En þeir musterisriddarar sem berjast harðast á móti þessum lögum og vilja telja þessi lög hliðstæð lögunum frá 1978 láta þess ekki getið að í núverandi lögum er talað um eitt verðbótatímabil, frá 1. des. til 1. mars. Í lögunum 1978 segir: Hinn 1. mars 1978, 1. júní 1978, 1. sept. 1978, 1. des. 1978 skulu verðbætur á laun hverju sinni hækka sem svarar helmingi þeirrar hækkunar á verðbótavísitölu o. s. frv. — Þarna er annars vegar um fjögur bótatímabil að ræða, en hins vegar er gert ráð fyrir einu. (HBl: Hvað var það mikið í hvert sinn 1978?) Það má nú deila um það, hv. þm. Halldór Blöndal, ætli það liggi ekki einhvers staðar milli 13 og 19!° yfir árið, og er þá áætlað varlega. (Gripið fram í.) (Forseti: Ekki samtal á fundinum.) Endilega leyfa þm. að grípa fram í. (Forseti: Nei, alls ekki.) Jæja.

Þá hefur verið gagnrýnt hér allharkalega að láglaunabætur hafi misheppnast og séu fráleitar. Jú, það urðu viss mistök og margt sem mætti betur fara. En í reglugerð um verðbótaviðauka frá 1978, og skal ég ekki fara ítarlega í söguna, en hann samþykktu jafnvel þeir sem gagnrýna þetta hvað harðast, — það gildir nú reyndar ekki um Alþfl., hann stóð ekki að þeim lögum, — þá kemur verðbótaviðauki, sem er nokkurs konar láglaunabætur, þannig út, að á stærsta vinnusvæði Dagsbrúnar í Reykjavík, sem á störfuðu 500 verkamenn, og þá var greitt út í gömlum krónum á viku 18 til 20 millj. nam verðbótaviðaukinn eða láglaunabæturnar 12 til 14 þús. gkr. eða 120 til 140 nýkr. á viku til 500 manna. Ja, það er von að menn berjist hér heilagri baráttu fyrir láglaunabótum. Ég segi ekki meira um það.

Síðan er hlaupið frá þessum lögum. Það koma út ný lög. Það er slakað á hvað snertir lægstu laun, af þrem lægstu töxtum Verkamannasambandsins er minna tekið, en það er skert yfirvinna, það er skert næturvinna, það er skertur bónus. Milli 30 og 40% af tekjum almenns verkafólks voru á þessum árum og hafa verið til skamms tíma fyrir yfirvinnu, fyrir eftirvinnu, fyrir næturvinnu, fyrir hvers konar bónusa, vaktavinnu o. s. frv. Þetta er allt skert á þessum tíma.

Af því að menn eru svo vandlætingarfullir út af þessu, þá kemur hér reglugerð frá 1978 um verðbótaviðauka. Fyrri reglugerðin er upp á einar sex til átta síður, töludálka, og í þeim kansellístíl, eins og reyndar hin síðari líka, að það er ekki fyrir nokkurn mann að skilja. Þá kemur síðari reglugerðin um verðbótaviðauka. Og ekki nóg með það. Það er það flókið og snúið plagg að kauplagsnefnd er fengin til að gefa út leiðbeiningar um útreikning launa frá 1. júní 1978. (HBl: Skilur kauplagsnefnd láglaunabæturnar núna og af hverju þær eru svona?) Ég held að kauplagsnefnd hafi ekki verið falið að skilgreina það. En þetta var þvílíkt vandamál, hv. þm., að heilu fyrirtækin stóðu á blístri, gátu ekki borgað út nema með fyrirvara, og það varð að skipa nefnd sérfræðinga til að semja tvenn leiðbeiningarplögg. (HBl: Hvað segir Dagsbrún núna?) Dagsbrún er hress, skal ég segja þér.

Ég gæti farið allítarlega í þessi mál, gert ítarlegan samanburð á þessum lögum og lögunum 1978. Ég veit ekki hvort það hefur mikið upp á sig á síðasta stigi. Ég vil hins vegar segja og láta mína skoðun koma fram í því og alveg afdráttarlausa, að margar hliðar á þessu frv. má segja að hafi verið þjóðhagslega nauðsynlegar til að koma í veg fyrir stöðvun á atvinnurekstri, útflutningsframleiðslu sér í lagi. Vissulega var þar mikill vandi á höndum, eins og sagt hefur verið þúsund sinnum hér í umr. og blaðaskrifum, verðfali, stöðvun markaða o. s. frv. En vandinn sem við stöndum frammi fyrir í þessum málum er sá, að þó að þetta geti verið þjóðhagslega nauðsynlegt er það félagslega óþolandi vegna þess að almenn laun, ég tala nú ekki um lægstu dagvinnulaun, eru það lág og kaupmáttur þeirra það lítill að þau má ekki skerða. Það er gert með þessum lögum og það er ákaflega slæmt.

Einhver mun segja að við höfum staðið frammi fyrir atvinnuleysi og öðrum erfiðleikum. Víst er það. Sannleikurinn er bara sá, að ef sá sem lægst launin hefur í þessu þjóðfélagi fær einhverja hækkun er það gegnumgangandi regla að þeir sem eru hærra launaðir fái eins mikla kauphækkun og þeir sem eru á lægstu launum. Verði 4% hækkun t. d. skulu 4% ganga upp úr. Aldrei er þolað að lægstu laun séu bætt sérstaklega öðruvísi en bæði ríkisvald og hærra launaðar stéttir krefjist sömu prósentutölu. Nú er hér að vísu um að ræða frumsmíð og hefur verið gert of mikið úr þeim göllum sem á þessum láglaunabótum eru, en vandinn sem við stöndum frammi fyrir er svo mikill að fólk á þessum almennu lágu launum verður að hafa forgang. Þarna er ekki eingöngu hægt að stilla einhverri ríkisstj. upp, heldur þjóðfélaginu í heild. Það er að verða það ófélagslegt. Prósentan blífur, hvort sem um er að ræða menn í hæstlaunuðu stöðum þjóðfélagsins eða menn sem praktísera á hæstu töxtum í þjóðfélaginu. Fái verkafólk 5% hækkun skulu 5% í gegnum allt þjóðfélagið. Það er þetta sem gerir m. a. svo erfitt að grípa inn í þessi mál og þess vegna kemur út úr þessu ýmislegt þjóðfélagslegt ranglæti, sem er því miður fylgikvilli þessara laga.

Ég held að ég fari ekki nánar út í þessar láglaunabætur, en er tilbúinn í það ef því er að skipta. Ef einhver hv. þm. vill umr. um það er það sjálfsagt. Ég held að það sé nú rétt að fara að ljúka umr. En ég vil aðeins minna á: Orlof hefur verið samræmt hjá verkafólki og ýmsum öðrum stéttum sem höfðu meira orlof. Láglaunabætur, sem voru of lágar, hafa þó komið og voru mun hærri en 1978. En fyrstur skal ég taka undir að það má margt þar bæta. Jafnframt hef ég trú á að fjh.- og viðskn. Nd. takist að fá í gegn nál. um frv. Jóhönnu Sigurðardóttur o. fl., annaðhvort óbreytt eða eitthvað breytt, um að komið verði á móti því unga fólki sem er að sligast undan byggingarkostnaði og háum vöxtum. Það er einhvern veginn svo, að það er eins og ekkert sé hættulegt nema vísitala og kaup. Nú er lánskjaravísitala hærri en kaupgjaldsvísitala. Vitanlega verður að samræma þetta með einhverju móti því að þetta verður að koma á móti þessu fólki.

Ég nefni hér þrjú atriði, tvö sem komin eru í gegn, orlofið, láglaunabætur, sem að vísu eru til endurskoðunar, og trú mína á að okkur takist að koma í gegn lagfæringu og aðstoð sem sér í lagi snertir það unga fólk sem er í erfiðleikum og við stöndum frammi fyrir að er jafnvel að missa eignir sínar og hefur ekki möguleika á húsnæði.

Ég tel nú ekki bætandi á þær skerðingar sem þarna hafa orðið og held að þó að ríkisstj. hafi sjálfsagt ætlað sér vel með þessum lögum hafi gengislækkanir verið býsna tíðar og verðbólga þar af leiðandi meiri en reiknað var með.

Ég skal ljúka máli mínu, sem hefur staðið í um 10 mínútur og ekki er upp á tvo klukkutíma. Í sambandi við „ertu ánægður með láglaunabæturnar?“ er spurt: Samþykkirðu láglaunabæturnar? Finnst þér þetta sæmandi? Ég vil aðeins segja: Ég held áfram baráttu minni gegn því að lág laun séu í landinu. Og lægstu laun almenns verkafólks eru háskalega lág. Það er það sem okkur ber að varast.