15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

125. mál, breytt gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um breytt gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar. Hv. flm. eru auk mín þeir Jón Helgason, Jóhann Einvarðsson, Guðmundur Bjarnason, Páll Pétursson, Stefán Valgeirsson, Ingólfur Guðnason, Alexander Stefánsson, Sigurgeir Bóasson og Stefán Guðmundsson.

Tillgr. hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að gjaldskrársvæði símans verði stækkuð þannig að í meginatriðum gildi sami gjaldflokkur innan sérhvers athafna- og viðskipta- eða greinistöðvarsvæðis“.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hversu þýðingarmikið hlutverk símans er í okkar strjálbýlalandi. Að sumu leyti er síminn verulega mikilvægari í dreifbýli en í þéttbýli og sannleikurinn er sá, að gott símasamband vegur allverulega upp á móti lélegu vegakerfi — vel á minnst: það er nýrædd vegáætlun hér í þingsölum — og gott símakerfi sparar iðulega kostnaðarsöm ferðalög.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér sögu símans, en saga sjálfvirka símans er orðin allgömul, 50 ára, eða frá 1. des. 1932. Síðan þá, og raunar miklu fyrr, hefur margt verið ritað og rætt um símamál, en ýmislegt hefur verið gert vel í þeim efnum, sem betur fer.

Um símamálin hefur iðulega verið deilt á hinu háa Alþingi, en til marks um samstöðu í þeim málum vil ég ekki síst minnast á lög um lagningu sjálfvirks síma, sem samþykkt voru 18. maí 1981 og urðu fagnaðarefni dreifbýlisfólki.

Í lok liðins árs, eftir því sem fram hefur komið, bjuggu 1834 notendur enn við handvirkt símasamband, en í upphafi þeirrar áætlunar, sem ég gat um og löggjöf var samþykkt um vorið 1981, voru 3 600 notendur að handvirku símasambandi. Þessar framkvæmdir hafa sem sagt gengið vonum fremur, og ég hygg að það sé fagnaðarefni okkar allra.

till., sem hér er til umfjöllunar, þ. e. till. um breytt gjaldskrársvæði símans, felur það í sér fyrst og fremst, eins og raunar er skýrt í tillgr., að í meginatriðum verði komið á sama gjaldflokki innan viðkomandi greinistöðvarsvæðis og/eða athafna- og viðskiptasvæðis. Svo að ég taki dæmi í þessu sambandi er rétt að fara í huganum aðeins upp fyrir Hvalfjörð.

Í Lambhaga hefur nýverið verið sett upp endastöð með um það bil 100 númerum. Innan þessa endastöðvarsvæðis gildir gjaldflokkur 0, en ef notendur þurfa að hringja niður á Akranes, sem er þeirra viðskiptastaður, er hringt á gjaldflokki 1. Það er því verulega dýrara að hringja niður á Akranes en innan viðkomandi svæðis. Till. fjallar, svo að þetta dæmi sé tekið, um það, að innan alls greinistöðvarsvæðisins, Akranesstöðvarinnar, gildi einn gjaldflokkur.

Nú er ekki óeðlilegt að menn spyrji sem svo, hvort sú ráðstöfun sem þessi till. gerir ráð fyrir leiði ekki af sér allverulegan kostnað. Ég hef átt viðræður við forsvarsmenn Póst- og símamálastofnunar um þessi mál og þeir telja að það sé góður möguleiki á að hrinda þessu í framkvæmd á grundvelli 11. gr. laga um póst- og símamál, en 11. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðh. ákveður í gjaldskrá gjöld þau, sem greiða ber póst- og símamálastofnun fyrir þjónustu þá, sem hún veitir, þar á meðal fyrir póstgíró og uppsetningu, leigu og viðhald hvers konar fjarskiptatækja“.

Síðan segir: „Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð, að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, og skal ákveðið í reglugerð, hvenær framkvæmd þessa ákvæðis kemst á.

Ráðh. er heimilt að ákveða, að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir ríkisins í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu“.

Að því er varðar þessar málsgr. tvær vil ég taka fram að reglugerðir hafa aldrei verið gefnar út í því tilefni. Varðandi það ákvæði og þá stefnumörkun að sama gjald gildi innan hvers svæðisnúmers eins og um það er rætt í 11. gr. virðist svo sem á því séu bæði fjármunalegir og e. t. v. ekki síður tæknilegir örðugleikar, þannig að það eigi alllangt í land þótt ekki sé meira sagt.

Ég vitna í 11. gr. með tilliti til þess, að sú ráðstöfun, sem felst í till. til þál. sem ég þykist nú vera að gera grein fyrir, þarf ekki að leiða af sér allverulegan kostnað. En í síðustu málsgr. 11. gr. laga um póst- og símamál stendur að að því skuli stefnt að tekjur samkv. gjaldskrá nægi til að rekstrarjöfnuður náist, miðað við að rekstur og fjárfestingar fari eftir meginstefnu 1. málsgr. 3. gr. og fyllsta aðhalds sé gætt.

Auðvitað hlýtur Póst- og símamálastofnun eða yfirmenn hennar að líta til þessarar málsgr. þegar um er að ræða ákvarðanir um gjaldskrá hjá Pósti og síma, þ. e. þegar skal taka gjald fyrir þá þjónustu sem Póstur og sími veitir.

Ég vildi aðeins geta um þetta. Það kann einhver að spyrja sem svo: Af hverju er þetta skref ekki stigið nú þegar, þ. e. að sama gjald gildi innan hvers svæðisnúmers? En ég þykist hafa tekið fram hvað er því til fyrirstöðu. Það mundi fela í sér svo gífurlegan kostnað ásamt því að tæknilegir örðugleikar eru þar á. Þess vegna leggjum við flm. þessarar till. til að þarna verði farinn meðalvegur. Við stígum það skref að þessu sinni að í meginatriðum gildi sami gjaldflokkur innan hvers greinistöðvarsvæðis og/eða viðskiptasvæðis. Í sumum tilfellum kann að vera að þetta falli ekki saman, en það verður þá til athugunar.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til að þessari till. verði vísað til atvmn. að loknum þessum hluta umr.