16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í umr. um formsatriði þessa máls. Í raun og veru skipta þau sáralitlu máli. Það er aðalatriðið hvernig móttökur og meðferð þetta fær hér á Alþingi og hver verður niðurstaða málsins. Ef nægilega margir þm. telja málið jákvætt og til nytsemdar er hægur vandi að koma því í gegnum þingið. Til þess er nægur tími. Ég er ekki þeirrar skoðunar, eins og hér hefur komið fram í umr. um málið, að með því að leggja það fram sé um að ræða brot á stjórnarsáttmálanum. Þvert á móti álít ég að þetta mál sé einmitt liður í því að framkvæma eitt þeirra ákvæða í stjórnarsáttmálanum sem voru í raun og veru meginákvæði og áttu að vera kjarni þessa stjórnarsamstarfs, þ. e. að gera ráðstafanir til þess að hefta verðbólgu og færa hana niður, og það er ekkert smáræði eins og kunnugt er. Hins vegar álít ég að það að Alþb. hefur skorist úr leik í þessu máli sé brot á stjórnarsamningnum, það sé brot á því samkomulagi sem gert var og lýst yfir fyrir þjóðinni 21. ágúst s. l. Sannleikurinn er sá, að það hefur reynst erfitt að fá Alþb. til að fallast á grundvallaraðgerðir til lækkunar verðbólgu. Ég skal ekki, vegna þess að ég vil ekki tala of lengi um málið, fara að rifja upp þá sögu.

Með ráðstöfunum sem gerðar voru um áramótin 1980/1981 var lagður grundvöllur að því starfi. Þá var stigið fyrsta skynsamlegt skref í þá átt að lækka verðbólgu. Þær aðgerðir höfðu mjög jákvæð áhrif, kannske jákvæðari áhrif en maður hefði getað haldið í fljótu bragði. Skilyrðin voru hagstæð því að verðbólga var komin niður í 40% í ágústmánuði 1981. Um það var ekki deilt af neinum þá. Ástandið í peningamálum hafði gerbreyst til batnaðar. Það var miklu meira ráðstöfunarfé handbært hjá lánastofnunum í landinu en verið hafði um langa hríð, gjaldeyrisstaðan hafði stórlega batnað og það var yfir höfuð bati í efnahagskerfinu. Það sem gerðist þá, því miður, var að ekki tókst samkomulag um að fylgja þessum ráðstöfunum eftir. Síðan hefur sigið á ógæfuhlið í efnahagsmálum. Til viðbótar hafa svo komið mjög óhagstæð ytri skilyrði. Skal ég ekki rifja þá sögu upp hér nú. Um hana hefur verið rætt og ritað af ýmsum og við ýmis tækifæri.

Sú skoðun á áreiðanlega vaxandi fylgi að fagna með þjóðinni að verðbólgan náist aldrei niður á viðunandi stig nema með því að gerbreyta því vísitölukerfi sem við búum við, gera róttækar breytingar á kerfinu, vegna þess að ef ekkert er gert af því tagi verður auðvitað engin breyting á framvindu efnahagsmála. Það er kannske mergurinn málsins. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á þá rökleysu að laun allra Íslendinga eigi að hækka ef sykur, kaffi eða olía hækkar í verði á heimsmarkaði. Eða ef öll þjóðin vill gera átak til uppbyggingar og lagðir eru á óbeinir skattar til að gera það mögulegt, þá skuli öll laun í landinu hækka. Ef nauðsynlegt reynist að hækka gjaldskrá hitaveitna, rafmagnsveitna og ríkisútvarps, svo dæmi séu tekin, hækki laun allra landsmanna. Því skyldu laun hækka ef þessi almenningsfyrirtæki verða að fá viðbótartekjur til að geta starfað eðlilega og veitt betri þjónustu? Auðvitað greiða menn meira til að tryggja nauðsynlega og bætta þjónustu. Svo má nefna ótal dæmi um það hve fráleitt núverandi vísitölukerfi er að mörgu leyti og hve mikil nauðsyn er að gera breytingar á því. En höfuðgalli vísitölukerfisins er fólginn í því hversu verðbólguhvetjandi það er. Það viðheldur víxlgangi kaupgjalds og verðlags og eykur á verðbólgu.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé unnt að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar svo í lagi sé að óbreyttu vísitölukerfinu. Og þá verða að koma til auk breytinga á verðbótum launa breytingar á verðbótum skatta og verðbótum fjármagns. Verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar verður einnig að endurskoða. M. ö. o., það verður að gera róttæka breytingu á okkar efnahagskerfi til að við getum vænst þess að breyting verði á þróun efnahagsmála.

Ég er ekki einn um þá skoðun að þetta þurfi að gera. Margir vísir menn hafa verið sama sinnis. Ég get t. d. vitnað til ummæla Lúðvíks Jósepssonar fyrrv. ráðh. Hann sagði um þetta í þingræðu sumarið 1974 — (Gripið fram í: Það er oft búið að vitna í hann.) Það er oft búið að vitna í hann, en það er sjálfsagt að gera það þegar þessi mál eru rædd. Hann sagði þetta orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Sá vísitölugrundvöllur sem við búum við í dag er í eðli sínu ósanngjarn og hann er auk þess stórhættulegur efnahagskerfinu.“ Þetta sagði Lúðvík Jósepsson 1974 og það er nákvæmlega sama kerfi sem er við lýði í dag eins og var þá. Og hann sagði fleira. Hann sagði ennfremur orðrétt, með leyfi forseta: „Ég tel að það sé launþegasamtökunum í landinu nauðsynlegt og einnig gagnlegt fyrir vinnumarkaðinn almennt séð að hafa vissa vísitölutryggingu á launum, en það þarf að miða þá tryggingu við allt annað en vísitalan er miðuð við í dag.“ Þarna er hann að ræða um þetta kerfi og gera grein fyrir því hversu gallað það sé. Hann flutti um þetta langa ræðu og mætti að sjálfsögðu vitna í hana miklu meira en þetta, en ég gríp þarna niður í ummæli sem hann hafði um málið í þeim umræðum sem þá fóru fram.

Ég skal ekki endurtaka margt af því sem kom fram hjá hæstv. forsrh. og sjútvrh. um þetta mál í gær. Það var gerð glögg grein fyrir málinu og engin ástæða til að endurtaka í hverju það er fólgið. En ég vildi koma nokkuð inn á það hvaða kaupmáttaráhrif þetta frv. er líklegt að hafa. Álitið er að ef þetta frv. verður að lögum muni verðbólga lækka þess vegna á þessu ári um a. m. k. 5–6%. Það er kannske ekki mikið, en það er eigi að síður viðnám gegn því verðbólguflóði sem við búum við. (Gripið fram í: Hvað er þá reiknað með að rafmagnsverðið hækki?) Lækkun verðbólgu er hiklaust kjarabót fyrir alla og styrkir atvinnulífið í landinu og treystir atvinnuöryggi, sem er nú kannske hvað þýðingarmest. Í þeirri miklu verðbólgu sem hér ríkir nú óttast fólk í vaxandi mæli um atvinnuöryggi sitt. Ég álít að þetta frv., þó að það sé í sjálfu sér ekki sá áfangi sem ég hefði kosið eða minn flokkur, sé skref í þá átt að styrkja atvinnulífið, treysta atvinnuöryggið. En þýðing þess að halda atvinnu verður ekki metin í fáeinum prósentum, það er miklu meira í húfi.

Eins og kunnugt er eiga fjölmargir í miklum erfiðleikum með að greiða vexti og verðbætur af lánum sínum í þessari miklu verðbólgu. Lækkun verðbólgu leiðir til lækkunar vaxta og þar með lægri greiðslna af lánum en ella hefði orðið að óbreyttu kerfi. Húsbyggjendur og þeir sem skulda munu hagnast á þeirri lækkun verðbólgu sem leiðir af lögfestingu frv. Talið er að rýrnun kaupmáttar sem leiðir af þessu frv. muni nema um 1/2–1 %. (Gripið fram í: Heldur þú að við fáum það skriflegt?) Ég geri ráð fyrir því. Þetta er talið, hv. þm., og ég sé enga ástæðu til að rengja það. Það er náttúrlega ekkert atriði fyrir fólk þó það fái fleiri krónur í sitt launaumslag ef það getur ekki keypt meira fyrir þá fúlgu en hina, sem væri lægri ef verðbólgan yrði minni.

Þetta frv. er liður í ráðstöfunum sem hafa verið gerðar í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. frá 21. ágúst á s. l. sumri um aðgerðir í efnahagsmálum. Helstu ráðstafanir samkv. þessari yfirlýsingu voru í fyrsta lagi brbl. ríkisstj., sem verið er að samþykkja hér á hv. Alþingi og hafa fengið sögulegri meðferð á þingi en flestöll mál sem mig rekur minni til, kannske jafnvel í þingsögunni, a. m. k. seinni ára. (Gripið fram í: Sammála.) Mjög sögulega meðferð. Það voru brbl. sem var verið að samþykkja í Nd. í gær. Í öðru lagi láglaunabætur, sem eiga að koma láglaunamönnum til góða, þótt missmíði í lagasetningunni hafi því miður haft önnur áhrif í sumum tilvikum. Í þriðja lagi lenging orlofs sem þegar hefur verið lögfest. Í fjórða lagi ráðstafanir í húshitunarmálum sem eru einhver alvarlegustu mál sem nú er við að fást. Frekari ráðstafanir um jöfnun húshitunarkostnaðar þola enga bið, eins og ég veit að hv. alþm. er vel kunnugt um. Í fimmta lagi að hægja á fjárfestingu í landinu til að draga úr þenslu í efnahagskerfinu og draga úr erlendri skuldasöfnun.

Að lokum vil ég svo nefna það að reynt hefur verið að framkvæma aðhaldsstefnu í peningamálum og fjármálum ríkisins og gengismálum, að svo miklu leyti sem atvinnulífið framast þolir. Við hinn mikla lánsfjárskort og takmarkað ráðstöfunarfé þarf að beina fjármagni til undirstöðuatvinnuveganna. Það hefur verið framkvæmd stórfelldari lenging lána í sjávarútvegi en dæmi eru til, sem væntanlega kemur að nokkrum notum. Fleiri atriði mætti nefna í þessu sambandi. Þetta mál er einn liður í ráðstöfnunum sem ríkisstj. lýsti yfir á s. l. sumri að hún mundi framkvæma. Það er búið að framkvæma flest af þeim málum sem þar eru upp talin, a. m. k. þýðingarmestu málum, svo að það er sannarlega kominn tími til að þetta mál fylgi með. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég hefði aldrei samþykkt sumt af því sem þar er á blaði nema í þeirri trú að það yrði allt framkvæmt sem þar var sett á blað. Ég trúði því þá að samkomulag væri um þessi mál. Ég trúði því og þess vegna hefur það valdið mér miklum vonbrigðum og auðvitað mörgum fleiri hve mikill dráttur hefur orðið á að framkvæma þennan þátt þess samkomulags og þeirrar yfirlýsingar.

Það er auðvitað erfitt að ræða þetta mál án þess að huga jafnframt að ástandi efnahagsmála. Því er spáð að verðbólga verði á árinu rúm 60% frá upphafi til loka ársins. Þjóðhagsstofnun spáir því í sinni spá frá 14. jan. s. l. Verðbólga hefur verið á bilinu 26–60% í heilan áratug eða allt frá því að fyrri olíukreppan skall á. Þetta er auðvitað stórhættulegt atvinnulífinu í landinu og veldur því að segja má að rekstur margra undirstöðuatvinnufyrirtækja, sem eru undirstaða atvinnu í heilum héruðum, hangi á bláþræði. Verðbólgan á sinn þátt í þessu þó að fleira komi til, eins og t. d. aflabrestur og erfiðleikar í efnahagsmálum. Ég álít að brbl. sem verið er að samþykkja hér og þetta frv. ásamt samdrætti og aðhaldi á mörgum sviðum efnahagsmála veiti viðnám gegn verðbólgu og það sé þess vegna ábyrgðarleysi að fella þetta mál. Sjálfstæðismenn hafa sagt og líklega Alþfl.-menn líka, ég hef ekki tekið eftir því, að það skipti eiginlega engu máli hvort verðbólga er rúmlega 60% frá upphafi til loka árs eða 70 eða hvað það nú er. Ég held að það skipti allt máli í þessu efni, og ég er sannfærður um að ef brbl. hefðu ekki verið sett og ef þessi ráðstöfun og fleiri væru ekki samþykktar væri verðbólgan miklu meiri en hún er. (Gripið fram í: Hún verður miklu meiri ef stjórnin situr áfram.) Ég skal ekkert um það segja. Það fer m. a. eftir því hvort þetta mál verður samþykkt eða ekki, vegna þess að þetta mál veitir viðnám gegn verðbólgu og ég vonast til þess að það sé kannske fyrsti áfangi af miklu fleiri, sem þurfa að koma til til þess að ná verðbólgunni niður á stig sem hægt er að segja að sé viðunandi.

Það er auðvitað mjög margt í þessum málum öllum sem ástæða væri til að gera að umræðuefni. Ég skal þó ekki lengja mál mitt vegna þess að ég hef mikinn áhuga á því að þetta mál fari í gegnum þingið og hef þá skoðun að það muni hjálpa til. Ég viðurkenni að sjálfsögðu að hér er ekki um að ræða stóran áfanga, en það er um nokkurn áfanga að ræða, áfanga sem veitir viðnám gegn verðbólgu og stuðlar að því að treysta undirstöðuatvinnuvegina. Það sem okkur er langháskasamlegast að mínu mati nú, sem ég vil endurtaka, er ef atvinnuöryggið brestur. Ég óttast mjög að svo geti farið ef svo fer fram sem verið hefur að við stöndum frammi fyrir því að rekstur býsna margra fyrirtækja, sem eru undirstaða atvinnu víða um landið, dragist saman og jafnvel í sumum tilfellum hætti um sinn ef ekki verður veitt viðnám. Það álít ég að sé mergurinn málsins og miklu, miklu stærra mál en að þrátta um kaupmátt sem er á bilinu 1% til eða frá.

Ég vonast til þess, þó að Alþb. hafi því miður snúist gegn málinu, að það muni ekki feta í fótspor sjálfstæðismanna, sem þeir gerðu lengi í sambandi við brbl., að fara að beita málþófi hér á Alþingi til að koma í veg fyrir að málið verði afgreitt, ef — ég segi ef þingmeirihluti er fyrir því. Ég skal ekkert um það fullyrða hvort þingmeirihluti er fyrir því, ég veit ekkert um það. Það hafa ekki komið fram neinar yfirlýsingar þar að lútandi, en ég hef tekið eftir því að m. Sjálfstfl. og Alþfl. hafa talað varlega í þessu máli. Ég vona að það boði það að þeir muni ekki vilja setja fótinn fyrir málið. Og eins og ég sagði áður, ef nægilega margir þm. eru þeirrar skoðunar að þetta mál sé jákvætt, þá er nægur tími til þess að afgreiða það gegnum þingið.