16.02.1983
Neðri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

193. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 331 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni og Sighvati Björgvinssyni að flytja frv. til l. um smíði eða kaup og rekstur sérstaks Vestfjarðaskips. Þetta er tiltölulega stutt og einfalt mál, aðeins fjórar greinar.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að ríkisstj. sé heimilað að hefja undirbúning að smíði eða kaupum á sérstöku Vestfjarðaskipi og að það skip skuli bæði byggt fyrir fólks- og vöruflutninga.

2. gr. gerir ráð fyrir á hvaða leið þetta skip skuli vera rekið, þ. e. Vestfjarðahafnir — Reykjavík, og að heimahöfn skipsins skuli vera Ísafjörður.

3. gr. gerir ráð fyrir að til framkvæmdar þessarar sé ríkisstj. heimilt að taka lán, svo sem þurfa þykir, til að tryggja framgang málsins.

Það þarf ekki ýkjamörgum orðum um þetta mál að fara. Efnislega er hér um að ræða mál sem hefur áður komið upp hér á hv. Alþingi. Það mun a. m. k. þrívegis áður hafa verið flutt frv. til l. um slíkt skip og a. m. k. ein þáltill. mun hafa verið flutt efnislega um svipað og hér er gert ráð fyrir.

Að því er varðar Vestfirði og samgöngur þarf engum getum að því að leiða að það er sá landshluti sem er langsamlega einangraðastur samgöngulega séð af öllum landshlutum hér á landi, hvort sem litið er til samgangna á sjó, í lofti eða á landi. Enda þótt það hafi breyst nokkuð og til hins betra að því er varðar samgöngur á landi er eigi að síður staðreyndin sú, að Vestfirðir eru einangraðir frá öðrum landshlutum í samgöngum á landi a. m. k. 5, 6 eða 7 mánuði á hverju ári.

Öllum er ljóst hversu miklum annmörkum flugsamgöngur við Vestfirði eru háðar og þá ekki hvað síst við norðurhluta Vestfjarða. Það kemur æðioft fyrir að í blíðskaparveðri, sumarveðri, og þó að blakti varla hár á höfði er ófært á Ísafjarðarflugvelli t. d., og er auðvitað augljóst af slíku að lítil samgönguleg trygging felst í flugsamgöngunum þarna.

Sjósamgöngur, og það skal viðurkennt, hafa batnað frá því sem var á tímabili, en eigi að síður er brýn nauðsyn á því að þessi þáttur samgangna, bæði innan Vestfjarðasvæðisins sjálfs og einnig að því og frá, sé tryggður.

Ég hygg að öllum muni hafa verið það ljóst, að ekki síst eftir það ástand sem ríkt hefur á þessu svæði á yfirstandandi vetri, að við svo búið má ekki standa lengur. Það hefur gerst núna allt frá áramótum, að Vestfirðir hafa verið einangraðir bæði frá öðrum landshlutum og innan héraðs svo vikum skiptir vegna óveðurs. Slíkt er auðvitað ekki bjóðandi fólki nú til dags. Þetta frv., sem hér er lagt fram, er þáttur í því að hreyfa þessu máli a. m. k., vekja menn til umhugsunar um nauðsyn þess að hér sé ráðin bót á og undinn bráður bugur að því að þessum einangraða landshluta sé sinnt meira en verið hefur að því er varðar samgöngur til og frá svæðinu og innan þess.

Það hefur margoft verið á það bent af Vestfirðingum, bæði sveitarstjórnum, fjórðungssambandi Vestfirðinga, o. fl., hversu nauðsynlegt það er að tryggja svo sem verða má samgöngur á sjó að og frá þessu svæði og innan þess, og það er í ljósi þeirrar brýnu nauðsynjar, sem hér er um að ræða og sem hefur sannast hvað best á yfirstandandi vetri, sem þetta mál er nú flutt hér aftur og í trausti þess að augu meiri hluta þingmanna hafi opnast, það vel að þeir sjái til þess ástæðu að veita þessu máli brautargengi. Það er í ljósi þessara brýnu hagsmuna, nauðsynjar á úrbótum í samgöngum, sem við leyfum okkur hér að flytja þetta mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa um þetta öllu fleiri orð. Málið er ljóst, nauðsynin er brýn og krafan er sú að það nái sem allra fyrst fram að ganga.

Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn.