21.02.1983
Efri deild: 46. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. til l. um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum. Við 1. umr. þessa máls gerði hæstv. samgrh. grein fyrir efni þess og tel ég því ekki ástæðu til að rekja það ítarlega, en í grg. kemur fram að megintilgangur þessara laga er að stuðla að sem bestum og hagkvæmustum fólksflutningum með fólksbifreiðum, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Á fund nefndarinnar komu Ólafur Steinar Valdimarsson skrifstofustjóri samgrn. og ennfremur fulltrúar sérleyfishafa og hópferðaleyfishafa. Gerðu þeir grein fyrir viðhorfum sínum og starfi í þeirri nefnd sem vann að undirbúningi að endurskoðun laganna. Í nefndinni hafði náðst samkomulag um hvernig með þessi mál skyldi farið og niðurstaðan kemur fram í þessu frv.

Samgn. var sammála um að mæla með samþykkt frv. óbreytts. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Lárus Jónsson og Stefán Jónsson.