01.03.1983
Sameinað þing: 59. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tek undir þau orð formanns Alþfl., sem hér voru mælt áðan, að auðvitað var það og hefur verið skoðun þingflokksins, að það væri fyrst og fremst ákvörðun viðkomandi einstaklings eða þm., í þessu tilfelli Vilmundar Gylfasonar, hvort hann segði af sér þeim trúnaðarstörfum sem þingflokkurinn fól honum í upphafi þessa þings.

Það hefur ekkert farið milli mála að hv. þm. Vilmundur Gylfason hefur ekkert dregið úr árásum bæði á Alþfl. og annað flokkakerfi hér í landinu og talið það rotið, siðspillt og einvörðungu varðhunda valdsins, eins og hann hefur kosið að orða það. Í þessu máli held ég að sú staðreynd, að Vilmundur Gylfason hefur kosið að sitja sem fulltrúi Alþfl. áfram í þessum tveimur tilteknu þingnefndum, segi miklu meira en margt ef ekki allt annað um það, að honum er ekki eins leitt og hann lætur að sitja í skjóli þessa flokkavalds, í þeirri aðstöðu sem það fól honum á s. l. hausti, eins og það hefur gert áður. Og þó að hann nú hafi lýst yfir að hann segi sig úr þessum nefndum vegna þessarar umr., þá held ég að staðreyndin sýni það svo að ekki verður um villst að hann hefur kosið í nokkuð langan tíma að sitja sem fulltrúi þessara varðhunda valdsins, sem hann hefur talið Alþfl. vera ásamt öðrum flokkum hér, sem eiga fulltrúa á Alþingi. Honum hefur líkað sú seta ágæta vel allt þangað til í dag, að hann hefur tilkynnt hér úr ræðustól að hann segi sig úr þessum nefndum. Þetta segir miklu meira en mörg önnur orð um það hver afstaða og hugur hv. þm. Vilmundar Gylfasonar er til þess flokksræðis og flokkskerfis sem hann hefur verið að útata hér auri í þingsölum um nokkuð langan tíma.