02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

218. mál, vegalög

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. um breytingu á vegalögum er eins og fram kemur í grg. byggt á tillögum frá fulltrúum Vegagerðar og fulltrúum þingflokka sem unnu að langtímaáætlun í vegagerð. Ég átti sæti í þessari nefnd f. h. þingflokks Framsfl. og er þess vegna málinu nokkuð kunnugur. En ég vil aðeins vekja athygli á því í sambandi við skilgreininguna á þéttbýli, að það getur auðvitað orðið einhver togstreita um hvernig beri að skilgreina það, þar sem hreppurinn, sveitarfélagið getur verið annað og stærra en bara þéttbýlið. Þetta á reyndar við um tvo staði í Norðurl. e., þar sem ég er kunnugastur. Það er annars vegar þegar rætt er um Litla-Árskógssand, en í þeim hreppi er annað þéttbýli, Hauganes, sem hefur ekki 400 íbúa en er í sama sveitarfélagi. Hitt þéttbýlið er Grenivík, þar sem þéttbýlið sem slíkt nær ekki 400 íbúum, en íbúar í þeim hreppi öllum, Grýtubakkahreppi, eru yfir 400. Hér gæti komið upp mál sem þyrfti að skoða nánar eða taka á sérstaklega. Ég vildi vekja á því athygli hér í umr. að mér sýnist e. t. v. ekki liggja alveg nákvæmlega fyrir hvað átt sé við með þéttbýli, þar sem það getur verið innan hrepps eða sveitarfélags, sem er stærra og fjölmennara, og þá kemur sjálfsagt upp spurningin hvar á að draga mörkin þarna á milli. Ég skýt þessu hér inn í umr. og beini því til þeirrar nefndar sem fjallar um málið að gaumgæfa þetta.