02.03.1983
Efri deild: 53. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2403 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

30. mál, heilbrigðisþjónusta

Jón Helgason:

Herra forseti. Frsm. hefur gert grein fyrir þeim brtt. sem hér liggja fyrir og ég ætla ekki að fjalla um þær. En það eru tvö atriði sem ég minntist á í n. sem mig langaði að koma hér á framfæri. Eins og við vitum hefur samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu verið á síðustu árum byggð upp mjög bætt þjónusta úti um allt land. Sem betur fer hefur í kjölfar betri húsakynna einnig komið hæfara og fjölmennara starfslið til þessara stöðva. Þess vegna er nú orðið hægt að veita þar miklu meiri þjónustu en áður var, svo síður þarf að senda fólk langar leiðir á sjúkrahús og það getur lengur dvalist í heimahúsum. Einn liður í þessu er að koma fólki til heilsugæslustöðvanna. Jafnvel þó að það eigi erfitt með að fara þangað á annan hátt en í sjúkrabíl hefur það komið upp að slíkir sjúkraflutningar eru ekki greiddir af almannatryggingum, þar sem það er bundið við að flytja fólk á sjúkrahús, enda þótt þarna sé um sambærilega þjónustu að ræða og margfaldur sparnaður bæði fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild miðað við það að þurfa að senda fólk langar leiðir á sjúkrahús. Hér virðist því þurfa að gera breytingu á svo að heimilt sé að greiða hluta af sjúkraflutningum að heilsugæslustöðvum ef þar er veitt sambærileg þjónusta og á sjúkrahúsum.

Annað atriði þessu skylt vildi ég líka nefna. Það er greiðsla fyrir störf meinatækna. Samkv. reglum endurgreiða tryggingar lægra hlutfall af slíkum störfum ef þau eru unnin á heilsugæslustöð heldur en ef þau eru unnin á sjúkrahúsi. Þetta virðist einnig vera óeðlilegt. Það hlýtur að eiga að vera eðli þeirra starfa sem miða á greiðslur við, en ekki hvar sú þjónusta er af hendi leyst, því vitanlega er það bæði seinlegra og kostnaðarsamara að senda slík verkefni langar leiðir en að reyna að vinna þau heima fyrir þar sem að aðstaða leyfir. Þetta tvennt vildi ég leggja áherslu á að þyrfti að samræma á þann hátt sem ég hef gert grein fyrir.