03.03.1983
Sameinað þing: 60. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

32. mál, hafsbotnsréttindi Íslands í suðri

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála þeirri þáltill. sem hér er til umr. og vil skýra frá því, að það hefur verið unnið að því máli sem þar er rætt um.

Það hafa farið formlegar könnunarviðræður fram við Breta og Dani fyrir hönd Færeyinga. Við Íra hafa farið fram óformlegar viðræður, af því að þeir hafa ekki enn fengist til þess að taka upp formlegar viðræður um þetta efni. En það verður haldið áfram á þessari braut og unnið að málinu. Ég tel að sá undirbúningur. sem hefur farið fram í þessum undirbúningsviðræðum. hafi verið nauðsynlegur og eðlilegur fyrir framhald málsins.

Í þessari þáltill. er vísað til hafréttarsáttmálans, en vitaskuld verður að taka fram í því sambandi að hafréttarsáttmálinn er ekki kominn í gildi. Hafréttarsáttmálinn gengur ekki í gildi fyrr en tilteknum tíma eftir að ákveðinn fjöldi þjóða hefur fullgilt hann. Þar fyrir utan eru vissir erfiðleikar í þessu sambandi að því leyti til, að Bretar hafa ekki undirritað hafréttarsáttmálann ennþá og það er með öllu óvíst um hvort þeir verða aðilar að honum. Þess vegna verður sjálfsagt erfitt um málflutning við þá út af fyrir sig á grundvelli hafréttarsáttmálans. En málið þarf auðvitað að flytja með þeim rökum sem tiltæk eru, og það verður auðvitað gert án þess að það sé nú tímabært, að mínum dómi, að fara út í einhvern prósentureikning um það, hvað tilheyri hverjum í þessu sambandi. Að sjálfsögðu hafa hinn pólitíski utanrrh. á hverjum tíma og utanrmn. forustu í þessum málum.

Viðvíkjandi því efni, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hreyfði hér, um laxveiðar Færeyinga, þá er það svo, að laxveiðar þeirra hafa verið Íslendingum mikið áhyggjuefni. Það er alþekkt hér, sem þarf ekki að fara mörgum orðum um, að veiðar Færeyinga á laxi fóru stórkostlega vaxandi. þó aðeins hafi nú verið dregið úr þeim, og á sama tíma hefur það gerst að veiði í íslenskum laxám hefur minnkað mjög verulega. Það er enginn vafi á að þetta er eitt aðalvandamálið eins og stendur í samskiptum Íslands og Færeyja.

Það er grundvallarsjónarmið í hafréttarsáttmálanum. sem að vísu er enn ekki kominn í gildi eins og ég gat um, að það sé eðlilegt að það ríki, sem einstakur laxastofn á uppruna sinn í, beri ábyrgð á stjórn veiða á stofninum. Þó verður það að segjast um þessi ákvæði hafréttarsáttmálans. sem eru í 66. gr., að þau eru nú byggð á ýmiss konar málamiðlun. En þar er þó skýrt, að þar eru viðurkenndir hagsmunir upprunalandsins að því er varðar stjórnun laxveiða. Það er líka rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að veiðar utan efnahagslögsögu skuli að öllu jöfnu ekki fara fram. Þó er gert ráð fyrir því í vissum undantekningartilfellum. Og ennfremur er það, að þegar um er að ræða veiðar innan efnahagslögsögu er gert ráð fyrir að viðkomandi strandríki eigi samráð við ríki það sem laxinn er upprunninn í.

Ríki við Norður-Atlantshafið hafa ákveðið að haga samstarfi á þessu sviði á grundvelli Reykjavíkursamningsins um verndun lax í Norður-Atlantshafi, sem undirritaður var í mars s. l., með því að banna laxveiðar utan 12 mílna alls staðar í Norður-Atlantshafi nema innan lögsögu Færeyja og við Vestur-Grænland. Þess vegna gengur þessi Reykjavíkursamningur lengra í því að takmarka veiðar en hafréttarsáttmálinn.

En hér er einnig sá hængur á, að þessi samningur hefur ekki enn tekið gildi. Það hafa ekki nægilega mörg ríki ennþá gengið frá fullgildingu hans. Fjórir aðilar hafa þegar fullgilt hann og það er vonast til þess að þessi samningur geti tekið gildi næstkomandi haust, þá muni Kanada fullgilda, en þá er runninn út samningur Kanada varðandi laxveiðar við Grænland.

Þó að samningurinn hafi ekki öðlast gildi hefur tíminn verið notaður til að undirbúa starfsemi alþjóðastofnunar, sem sett verður á laggirnar samkvæmt samningum, og það er ætlast til að stofnunin taki til starfa strax eftir gildistöku samningsins og verði raunhæfur vettvangur til verndunar laxastofna á svæðinu. Nýlega var einmitt haldinn fundur í Edinborg með þeim aðilum sem skrifuðu undir samninginn. Eftir því sem ég veit best er fullgilding í undirbúningi hjá Noregi og Svíþjóð.

Eins og ég sagði eru laxveiðar Færeyinga mjög mikið alvörumál og áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga. Samkv. þeirri ákvörðun, sem tekin hefur verið af Efnahagsbandalaginu um laxveiðar Færeyinga, hefur kvóti þeirra verið minnkaður mjög frá því sem þeir veiddu þegar þeir veiddu mest, þannig að nú er gert ráð fyrir því, eins og var s. l. ár, að þeir veiði 625 tonn. Það er að sjálfsögðu allt of mikið að mati okkar Íslendinga.

Á nýlegum fundi Norðurlandaráðs hitti ég Pauli Ellefsen, lögmann Færeyja, og ræddi nokkuð þessi mál við hann. Þau mál hafa líka verið rædd við embættismenn í Færeyjum og auðvitað hafa þau verið rædd á fundum með Dönum, þeim sem haldnir hafa verið, þar sem þeir hafa komið fram fyrir hönd Færeyinga. Það verður einmitt eitt meginviðfangsefni þessarar stofnunar, sem setja á á stofn til verndar laxveiðistofnunum í Norður-Atlantshafi, að fá Færeyinga til að draga úr þessum veiðum eða helst láta af þeim með öllu.

Auðvitað verðum við að skilja að þetta er allþýðingarmikill þáttur í atvinnulífi Færeyinga eins og stendur. Ég hygg að þeir hafi nú skilning á því að þetta er okkur mikið áhyggjuefni. Þar fer fram sérstakt eftirlit núna með þessum veiðum á vegum vísindastofnunar og ennfremur er það, að Íslendingar hafa haft þarna eftirlitsmann. Þar er m. a. nú eftirlitsmaður, sem er um borð í laxveiðiskipi eða laxveiðiskipum. Því er náttúrlega haldið fram af Færeyingum að það hafi ekki verið sannað að sá lax sem þeir veiða sé héðan kominn, en vitaskuld er það hald manna hér almennt að eitthvað af þessum laxi, sem Færeyingar veiða, sé upprunnið í íslenskum ám. Það er þess vegna full ástæða til að fylgja þessu máli fast eftir og það verður reynt að gera.

Þessi fregn, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði að umtalsefni um laxveiðar skammt undan okkar efnahagslögsögu, hefur auðvitað vakið óhug með mönnum hér. Af því tilefni var reynt að hafa samband við þann embættismann í Færeyjum sem hefur nú sérstaklega haft með þessi mál að gera, en það náðist ekki í hann. Það var haft samband og hefur verið haft samband bæði við Dani og Norðmenn um þetta efni. en það er ekki hægt að segja að það hafi í þeim samtölum, sem við ráðherrar höfum átt símleiðis. komið verulega nýtt fram í málinu, en þeirra hugur er vitaskuld, sérstaklega Norðmannanna, sá sami og okkar, að það verði að gera allt sem hægt er til að sporna gegn.

Landhelgisgæslan lét fljúga yfir svæðið í dag. Það reyndist svo, að 5 færeysk skip voru að veiðum, og þau voru u. þ. b. 12 sjómílur utan íslenskrar efnahagslögsögu, en um 70 sjómílum utan við efnahagslögsögu Færeyinga.

Þessi mál eru til athugunar, en mótmæli hafa ekki verið borin fram enn. Meðan Reykjavíkursamningurinn er ekki genginn í gildi verður e. t. v. erfitt að finna lögmætan grundvöll fyrir mótmælum meðan þeir halda sig utan við íslenska efnahagslögsögu. Hins vegar væri full þörf á því að hafa meira eftirlit með þeim og gæta þess að þeir skjótist nú ekki inn í íslenska efnahagslögsögu. Það er auðvitað ekki nægilegt þó að flogið sé yfir svæðið og það kannað með nokkru millibili.

Ég mun sem sagt halda áfram að kanna þetta og hafa samband við Færeyinga út af þessu, en eins og ég sagði var beðið líka eftir upplýsingum, og þær komu rétt áðan, um það, hvar skip væru að veiðum. Þau eru, eftir þessum upplýsingum Landhelgisgæslunnar að dæma, utan við okkar efnahagslögsögu, en mjög skammt. Ég mun reyna að gera mér far um að fylgja þessu eftir eins og tök eru á.