04.11.1982
Sameinað þing: 13. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

1. mál, fjárlög 1983

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það var sannarlega uppbyggjandi að hlusta á þjálfunarræðu formanns þingflokks Alþfl. hér fyrir landsþingið. Hana væri hægt að leggja út eitthvað á þessa leið: Burt með landbúnað, burt með sjávarútveg úr íslensku efnahagslífi. Það verður boðskapur þingflokksformannsins á flokksþingi krata um næstu helgi. (Gripið fram í.) Það er lausnin fyrir íslenska þjóð.

Herra forseti. Einkenni fjárlagafrv. fyrir árið 1983, sem hér er til 1. umr., eru fyrst og fremst þeir miklu efnahagsörðugleikar sem við er að fást í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Það jaðrar við kreppuástand meðal flestra nálægra þjóða, sem gerir vart við sig með vaxandi þunga hér á landi vegna verðfalls og sölutregðu á helstu útflutningsvörum þjóðarinnar. Við þetta bætist atvarlegur aflabrestur, stöðvun loðnuveiða og minnkandi þorskafli.

Það er öllum landsmönnum ljóst að hér er alvara á ferðum. Þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur hafa þegar dregist saman og mun svo augljóslega verða á næsta ári. Það er því augljóst mál að allar forsendur í efnahagsmálum hafa gerbreyst á síðustu mánuðum. Þessar aðstæður, þessa miklu erfiðleika er við blasa, verður að skoða og meta við afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1983. Fer ekki á milli mála að minna verður til skiptanna úr sameiginlegum sjóði landsmanna en áður hefur verið.

Eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. byggir ríkisstj. fjárlagafrv. á ákveðnum forsendum um þróun launa, verðlags og gengis milli áranna 1982 og 1983, sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við frv., og þeirri stefnu ríkisstj. að tryggja hallalausan rekstur ríkissjóðs. Fjárfestingar ríkisstofnana og framlög til sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga munu minnka verulega að magni til. Hins vegar er reynt að tryggja óskerta félagslega þjónustu.

Með setningu brbl. í ágústmánuði s.l. um efnahagsráðstafanir gerir ríkisstj. nauðsynlegar ráðstafanir til að gera þessa fjárlagagerð marktæka. Án þeirra ráðstafana sem í brbl. felast og öðrum aðgerðum sem þeim eiga að fylgja, svo sem varðandi nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o.fl., er nær útilokað að fjárlög samkv. frv. verði marktæk, þar sem þær ráðstafanir eiga að hamla gegn hraða verðbólgunnar og byggja upp vörn gegn atvinnuleysi.

Mikill meiri hluti þjóðarinnar gerir sér fulla grein fyrir efnahagsvandanum og styður því viðnámsaðgerðir ríkisstj. sem felast í brbl. og eru lífsnauðsyn í þessari stöðu. Þjóðin fordæmir stjórnarandstöðuna hér á Alþingi fyrir óábyrga afstöðu. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar eru sorglegt dæmi um hvernig stjórnmálamenn skella skollaeyrum við þjóðarheill ef þeir telja að þeir geti þannig komið höggi á andstæðing sinn. Ég tala nú ekki um hv. þm., sem þáði mikilvæg embætti fyrir að styðja þessa ríkisstj., en hleypur svo undan merkjum þegar á móti blæs. Mikil er ábyrgðartilfinning slíkra manna! En þjóðin gleymir ekki svona ábyrgðarlausum vinnubrögðum. Íslenska þjóðin krefst þess nú að stjórnmálamenn, ríkisstj. og alþm. svo og forustumenn hagsmunaaðila í landinu taki höndum saman um farsæla lausn þjóðmála, þar sem við blasa að öðrum kosti alvarleg efnahagsáföll sem gætu leitt til samdráttar og atvinnuleysis. Hver vill verða valdur að slíku? Samþykkt brbl. og þeirra fylgifrv. sem þeim munu fylgja og skynsamleg meðferð fjárlagafrv. er nærtækasta verkefnið.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langt mál um fjárlagafrv. þar sem ég á sæti í fjvn. og tek þátt í umfjöllun um alla þætti þess. Sú vinna hófst raunar 1. okt. s.l. Við framsóknarmenn munum beita okkur fyrir góðri samvinnu í fjvn. og á Alþingi svo að fjárlög fyrir árið 1983 geti orðið marktæk við ríkjandi aðstæður. Þetta verður vandasamt og ekki vinsælt verk, þar sem við blasir að ekki verður hægt að auka framlög, heldur er nú þvert á móti mesta nauðsyn að draga úr ríkisútgjöldum. Ég tel að athuga verði vandlega hvort hægt er að fresta rekstri nýrrar starfsemi eða aukningu á ýmsum sviðum sem áformað er að hefja samkv. lögum. Jafnframt að hægja á eða fresta ýmsum opinberum framkvæmdum sem ekki hefur þegar verið samið um að hefja. Og e.t.v. að fara sér hægar í virkjanaframkvæmdum um sinn og fresta frekari framkvæmdum við Kröflu.

Þegar ég les fjárlagafrv. og heyri forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana útskýra fjárlagabeiðnir verð ég að játa að ég tel sjálfvirkni í fjárlagatillögum ýmissa stofnana allt of ríkjandi aðferð. Verðlagsforsendum er bætt við fjárlagatölur gildandi árs og þar með er málið afgreitt. Allt of lítið virðist gert til að athuga í alvöru hvort ekki er hægt að spara eða draga saman rekstur t.d. með nýrri tæknivæðingu, sem þó virðist oftast stórauka kostnað hér í rekstri opinberra stofnana, en það er óeðlilegt að mínu mati, því að aukin tækni ætti að auka hagkvæmni í rekstri.

Þá er vissulega umhugsunarefni í sambandi við fjárlagafrv. hversu almennt virðist vera samkv. upplýsingum, sem þegar hafa komið fram, að nýir sérkjarasamningar, sem ríkið hefur gert við ýmsar starfsstéttir ríkisstofnana, hafi þegar valdið miklum hækkunum í rekstri stofnananna, launahækkunum langt umfram verðbótavísitölu, jafnvel yfir 20% t.d. hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins, læknum og hjúkrunarstéttum við sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Mikil yfirvinna virðist víða vera talin sjálfsagður hlutur í opinberum rekstri. Hér þarf að koma til sterkara aðhald. Við framsóknarmenn höfum haldið því fram í umræðum um fjárlagagerð að fjvn. ætti að koma meira inn í undirbúning fjárlagagerðar, fá aðstöðu til þess jafnframt því að taka ýmsar opinberar stofnanir til meðferðar. Að mínu mati fel ég þetta vera grundvallaratriði við fjármálastjórn ríkisins.

Við undirbúning fjárlaga fyrir yfirstandandi ár vann undirnefnd fjvn. mikilvægt starf við sérstaka athugun á rekstri og uppbyggingu rannsóknastofnana atvinnuveganna sem eru afar þýðingarmiklar fyrir atvinnuvegina og raunar þjóðarbúið í heild. Þessi vinna nefndarinnar gerði mikið gagn, það vil ég fullyrða, enda viðurkennt af viðkomandi stofnunum. Því miður hefur dregið úr þessu starfi nefndarinnar. Er augljóst mál að fjvn. þarf að starfa reglulega allt árið í umboði Alþingis. Ég nefni þetta hér og nú vegna þess að ég tel að þörfin fyrir meira starf Alþingis á þessu sviði sé mjög mikil. Alþingi á að hafa aðstöðu til að fylgjast með gerð fjárlaga og í öðru lagi, sem er e.t.v. mikilvægast, að fylgjast með því hvernig fjárveitingum í fjárlögum er varið. Kemur þar inn í myndina ákvörðun um aukafjárveitingar sem oft virðast tilviljanakenndar.

Í efnahagslögum nr. 13, svokölluðum Ólafslögum, stendur í 12. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisendurskoðun skal fylgjast með framkvæmd fjárlaga í umboði Alþingis.“ Í sömu gildandi efnahagslögum er, eins og hv. alþm. er kunnugt, kveðið á um hvernig unnið skuli að fjárlagagerðinni. Þar með eru stjórnvöld skyldug til að leggja lánsfjáráætlun fram með fjárlögum. Jafnframt er skilgreint hlutverk hagsýslustofnunar og Ríkisendurskoðunar. Með þessu ákvæði er stefnt að meiri og nákvæmari vinnu við fjárlagagerðina. M.a. á hlutverk Ríkisendurskoðunar að vera mjög afgerandi.

Fram hefur komið að Ríkisendurskoðun á mjög erfitt með að ná til sumra ríkisstofnana í raunverulega endurskoðun. Hér þarf að verða á breyting. Ríkisendurskoðun á að heyra beint undir Alþingi, en samkv. gildandi lögum heyrir hún undir fjmrh. Þetta setur Ríkisendurskoðun þröngar skorður og torveldar í raun og veru vinnutilhögun við öflun þeirra upplýsinga sem Alþingi, í þessu tilfelli fjvn., ætti að láta Ríkisendurskoðun afla varðandi opinberar stofnanir eða fjárveitingu til þeirra og annarra opinberra framkvæmda. Það er að mínu mati nauðsynlegt að Ríkisendurskoðun starfi við hlið Hagsýslustofnunar. Þannig hlytu að fást miklu raunhæfari upplýsingar um ríkisfjármálin. Mitt mat er að mikið skorti á að Ríkisendurskoðun og Fjárlaga- og hagsýslustofnun vinni saman. Milli þessara mikilvægu stofnana ríkisfjármála eru mjög lausleg tengsl. Þessu þarf að breyta.

Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur vissulega unnið með vaxandi þunga að því að gera fjárlagagerðina marktækari með meiri kröfugerð á hendur stofnunum um nákvæmari upplýsingar um fjárbeiðnir. Samt sem áður er alveg ljóst að þetta dugir ekki til. Kemur það raunar daglega í ljós í viðtölum í fjvn. Því er aðkallandi að ýmsar opinberar stofnanir eða ríkisfyrirtæki séu tekin til sérstakrar úttektar. Þar á Ríkisendurskoðun að taka til hendi.

Við rekum okkur á að verkefni ýmissa ríkisstofnana rekast á. Aðilar eru í raun að vinna að sama verkefninu. Það er allt of mikil sjálfvirkni í útþenslu á mörgum opinberum stofnunum og sumar eru raunar óþarfar. Hér er verk að vinna sem Alþingi með stuðningi Ríkisendurskoðunar þarf að taka föstum tökum. Ég gæti nefnt margar stofnanir því til sönnunar, en geymi það þar til síðar í umr. um fjárlögin. Margar ríkisstofnanir eru til fyrirmyndar um endurbætta stjórnun, sem hefur leitt til hagræðingar, betri þjónustu og sparnaðar í útgjöldum. Ríkisútvarpið er hér til fyrirmyndar, Vegagerð ríkisins, Póstur og sími og jafnvel fleiri slíkar stofnanir.

Við fjárlagaafgreiðslu fyrir yfirstandandi ár gerði ég að umtalsefni skerðingu framlaga í fjárlögum til stofnlána- og fjárfestingarsjóða sem ríkissjóður er skyldur til að leggja fé til samkv. gildandi lögum. Ég gerði grein fyrir áliti stjórnskipaðrar nefndar, sem skipuð var þremur fyrrv. fjármálaráðherrum auk Helga Seljans alþm., sinn frá hverjum stjórnmálaflokki. Þótt ég sé ekki að mæla með niðurstöðu þessarar nefndar, sem var samhljóða, vil ég enn á ný benda á nauðsyn þess að Alþingi taki afstöðu til þessa máls. Ákvörðun gæti í sumum tilfellum gert fjárlagagerðina raunhæfari, jafnframt því að sérstaða ákveðinna sjóða með markaða tekjustofna yrði viðurkennd og staða þeirra gerð sterkari.

Þessir opinberu sjóðir hafa oft verið hér til umr., ekki síst við afgreiðslu fjárlaga. Þeir eru margir hverjir þýðingarmiklir sjóðir, sem við viljum gjarnan efla og vernda og teljum að hafi mikilvægu hlutverki að gegna fyrir þjóðfélagsuppbyggingu okkar. Ég nefni sem dæmi Byggðasjóð, Fiskveiðasjóð, Félagsheimilasjóð, Iðnrekstrarsjóð, stofnlánasjóði landbúnaðarins og Byggingarsjóð ríkisins. Skerðing þessara sjóða og margra annarra með markaða tekjustofna hefur á undanförnum árum verið mjög mikil. Ég er ekki með þessum orðum að segja að óeðlilegt sé að þessir sjóðir hafi verið skertir að einhverju leyti. Það sem mér finnst neikvætt í þessu máli er að Alþingi skuli láta dragast ár eftir ár að taka ákvörðun um hvort þessum lögum eigi að breyta, þar sem þau eru í reynd brotin árlega og staða sjóðanna því óljós.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er ljóst að framkvæmdaframlög dragast verulega saman samkv. frv. þar sem hækkun frá fjárlögum yfirstandandi árs er aðeins um 28–30%. Þetta er vissulega áhyggjuefni þar sem knýjandi þörf er á framkvæmdum í þjóðfélaginu, svo sem við hafnir, skólamannvirki og heilbrigðisstofnanir, víðs vegar um allt land.

Í frv. er gert ráð fyrir 200 millj. kr. framlagi til að mæta útgjöldum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. í ágústmánuði s.l. vegna brbl. Er gert ráð fyrir 125 millj. í láglaunabætur og tvöföldun að raungildi á framlagi til Byggingarsjóðs ríkisins. Þessa dagana er verið að ganga frá stjórnarfrv. um breytingar á húsnæðislöggjöf, sem felur í sér ýmsar verulegar umbætur fyrir húsbyggjendur, m.a. hækkun lána og að reglur um verðtryggingu afborgana og vaxta húsnæðislána verði lagfærðar og margt fleira.

Lögð er mikil áhersla á framlög til málefna þroskaheftra í þessu frv., bæði til vistunar og kennslu. Vistunarmál aldraðra fá aukið vægi, sem er brýnt verkefni á ári aldraðra.

Við framsóknarmenn leggjum þunga áherslu á að framkvæmdir í vegamálum verði í samræmi við þál. er Alþingi samþykkti svo til einróma og unnið var eftir á yfirstandandi ári. Framkvæmdir eiga að miðast við 2.2% af vergri þjóðarframleiðslu samkv. þál. Frv. miðar að 2.1%. Fjvn. mun leggja mikla vinnu í þetta mál og kanna tekjur og tekjustofna Vegasjóðs í nýju ljósi. Framkvæmdir í vegagerð eru forgangsverkefni sem þjóðin er sammála um og gerir kröfu til að verði fylgt eftir.

Framkvæmdir við lagningu sjálfvirks síma samkv. lögum hafa til þessa staðist áætlun samkv. skýrslu Landssíma Íslands. Er það ánægjuleg staðreynd. Verður að tryggja að svo verði áfram.

Herra forseti. Ljóst er að mörg og stór vandamál eru óleyst í þessu fjárlagafrv. Ég nefni sem dæmi málefni Háskóla Íslands, Námsgagnastofnunar, rekstur heilbrigðisstofnana, dreifikerfi rafmagns í sveitum og margt fleira. Allt eru þetta þó í raun smámál miðað við það sem skiptir mestu, að ná samstöðu um að hamla gegn verðbólgu og tryggja afkomu atvinnuveganna og um leið atvinnuöryggið í landinu. Við þurfum að auka sparnað og draga úr ríkisútgjöldum. Við þurfum að draga úr óþarfa innflutningi, auka kaup á innlendum vörum og framleiðslu. Við þurfum að vinna markvisst að því að auka og efla útflutningsframleiðslu okkar og þar með útflutningstekjur þjóðarinnar. Það fær engin þjóð staðist sem eykur innflutning um 6% á sama fíma og útflutningur dregst saman um 17%.

Þjóðin ætlast til þess að ríkisstj. og alþm. geri ráðstafanir sem tryggi lífskjörin í landinu. Þegar alvarleg efnahagskreppa kveður dyra eiga ráðamenn þjóðar að snúa bökum saman til lausnar vandanum. Þetta ættu forráðamenn stjórnarandstöðunnar á Íslandi að taka til alvarlegrar athugunar þessa daga.