04.03.1983
Efri deild: 56. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (2329)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það er mesti misskilningur hjá hv. 11. þm. Reykv. að menn séu að velta því fyrir sér hvar þessi nýja olíustöð eigi að vera. Það er búið að ákveða það fyrir löngu. Við erum að ræða um hér að Njarðvíkingar og Keflvíkingar óttast um vatnsból sín, óttast að þau verði menguð olíu og krefjast þess að olíutankarnir í hlíðinni fyrir ofan Njarðvík verði fjarlægðir. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að byggja nýja stöð í Helguvík, og það verður gert. Olíutankarnir verða ekki innan bæjarmarka Keflavíkur og verða ekki á íbúðasvæði, eins og hv. þm. fullyrti. Þeir verða ekki í Sandgerði, eins og hæstv. utanrrh. sagði, heldur í Gerðahreppi, sem á landið hvar tankarnir verða staðsettir.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hélt hér hjartnæma ræðu um varnarmálin og þær hættur sem stöfuðu af varnarliðinu. Álíka ræður er ástæða til að flytja undir öðrum dagskrárlið. Það er búið að afgreiða þetta mál. En styrinn stendur um það hvort ályktun Alþingis um að flýta beri framkvæmdum verði efnd eða ekki. Mér sýnist að svo hafi ekki verið og olli það vonbrigðum mínum er hæstv. utanrrh. sagði hér áðan að hann vissi ekki hvað því seinkaði mikið. Það var von þeirra sem verða að nota vatnsbólin í Keflavík/Njarðvík að þessu máli yrði flýtt og hægt yrði að forða þeim ósköpum sem það tankadrasl sem nú er þar getur valdið.

Þá er nú rétt að geta þess, að Alþb. var í upphafi alveg á móti því að gera nokkurn skapaðan hlut þarna, var bara á móti því að hreyfa við úrbótum í þessum efnum. Manni datt helst í hug, að Alþb. þætti sæmst að íbúarnir þarna drykkju olíumengað vatn. En þær skoðanir hafa sem betur fer breyst yfir í það að hirða upp lausn — eða tillögur vil ég orða það frekar — sem forstjóri Olíufélagsins hf. bar fram, en það er eini íslenski hagsmunaaðilinn í þessu máli. Þar mættust Alþb. og þessir íslensku hagsmunaaðilar, sem sameinast um það að framkvæma þetta verk á allt annan og verri hátt en íbúarnir í byggðarlögunum syðra hafa óskað eftir og allir dómbærir menn hafa mælt með og stofnanir.

Frá því að þessar tillögur komu frá Olíufélaginu hf. hefur Alþb. tekið þær upp á sína arma og verið að minnast á þær annað slagið, en ekki af neinni alvöru. Mig minnir að þeir hafi aldrei gert formlega tillögu um það, að sú leið yrði farin, heldur bent á að notast mætti við þær tillögur.

Ég vil og minna á það, að þrátt fyrir áhyggjur hv. þm. af styrjaldarhættu og eyðileggingu hafa í tíð Alþb. átt sér stað á Keflavíkurflugvelli stórfelldari framkvæmdir en oftast nær áður. Eru því þessi ummæli hugarórar alveg út í hött.