04.03.1983
Neðri deild: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2527 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

22. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra þá miklu samúð sem sumarbústaðaeigendur allt í einu njóta meðal þm., sem hafa legið á þessu máli frá því að það var flutt hér á fyrstu þingdögum. Ég veit ekki hvar frv., sem ríkisstj. hafði lofað verkalýðshreyfingunni að fylgja fram á þessu þingi, stendur í meðferð þingsins í dag. Ég veit ekki hvort það er komið frá nefnd eða hvort það liggur enn í nefnd. En nú er boðið upp á það af þeim mönnum sem eru andstæðir þessu frv. okkar fjórmenninganna að rífa það áfram, vegna þess að það sé sanngjarnara og leggi meiri kvaðir á sumarbústaðaeigendur heldur en það sem við nú ræðum.

Ég vil undirstrika það, að ég beitti mér fyrir flutningi þessa frv. vegna þess að það er réttlætismál. Það er ekkert réttlæti í því að Alþingi Íslendinga mismuni þegnunum á þann hátt sem hér er gert, að íbúar í einu sveitarfélagi eigi að njóta miklu meiri réttinda, minni skattlagningar heldur en þeir sem hafa komið sér upp sumarbústað í sama héraði og dvelja þar kannske 2–3 mánuði á hverju ári. Ég er mikill stuðningsmaður þess að bændur efli sínar aukabúgreinar, en að gera okkur þéttbýlisbúa að aukabúgrein því er ég algerlega á móti.

Ég bendi á það að í íslenskum lögum, samþykktum hér á Alþingi, segir að þeir sem búa, hafa atvinnu af sínu búi, reka atvinnurekstur í sínu sveitarfélagi, borgi af fasteignamati íbúðarhúsa 1/2%. En af öðrum fasteignum, þ. á m. sumarhúsum, eiga utanhéraðseigendur, sem þar dvelja kannske einn, tvo eða í mesta lagi þrjá mánuði á ári, að borga 1% . Mér finnst réttlætismál að þetta verði 1/4% miðað við ársbúsetu þeirra sem borga 1/2% . Ég mun því halda mig við þessa till. og verða á móti þeirri brtt. sem hér hefur verið fram borin af hv. þm. Magnúsi H. Magnússyni.

Ég tek undir það með þeim sem hér hafa talað um sýsluvegasjóðsgjaldið, að það er auðvitað alveg jafnóréttlátt og óeðlilegt og ranglátt, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson komst að orði. Ég vænti þess því að þessir tveir hv. stuðningsmenn ríkisstj., sem hafa talað þannig um frv. sem ríkisstj, hefur lagt fram, kalli þá sem skjótast eftir að það verði samþykkt á þessu þingi, og ég skal verða með fyrstu mönnum til þess að rétta höndina upp með samþykkt þess. En að halda því fram að sveitarfélög, þar sem mikill fjöldi sumarhúsa þéttbýlisfólks er, hafi mikinn kostnað af þjónustu vegna þeirra, því mótmæli ég harðlega. Sú þjónusta er í algeru lágmarki þar sem ég þekki til. Að ég tali nú ekki um sýsluvegasjóðsgjaldið. Í fyrsta lagi hafa viðkomandi sýslur ekki lagt þessa vegi. Þeir eru lagðir af þeim aðilum sem eiga sumarhúsin, jafnvel á einkajörðum þeirra þar sem sumarhúsin eru, en samt sem áður er tekinn skattur af þeim í þennan svokallaða sýsluvegasjóð. Og það er ekki einu sinni hægt að fá viðkomandi aðila til að renna yfir vegina að vorlagi eða sumarlagi. Það fæst ekki ofaníburður ofan í vegina úr þessum sýsluvegasjóði, hvað þá meira, þannig að þetta er auðvitað alveg sama óréttlætið eins og hitt.

Ég hef heyrt talað um nokkrar af þeim röksemdum sem hafa komið fram m. a. frá hreppsnefnd Kjósarhrepps. Það væri vissulega verðugt að taka hverja og eina þeirra röksemda fyrir og ræða ítarlega. Ég veit ekki til þess að landbúnaður hafi stöðvast vegna sumarbústaða eða gott gróðurlendi hafi verið tekið undir sumarhús. Hins vegar er mér kunnugt um að tekin hafa verið örreytisholt og hraunbreiður undir þessi hús og slíkt land hafi verið ræktað upp af viðkomandi þéttbýlisfólki. En að það hafi sett einhvern hemil á búrekstur á jörðunum. ég mótmæli þeim fullyrðingum. Ég treysti á þá réttlætiskennd, sem virðist nú uppi meðal alþm. í sambandi við þá sem búa víðs vegar um landið, að þetta réttlæti verði líka látið ná til þeirra þéttbýlisbúa, sem koma sér upp sumarhúsum af litlum efnum og eiga lítið jarðnæði þar í kring og rækta það upp á þann veg að sómi er að, og að þetta frv. verði samþykkt óbreytt. Það er flutt af þm. úr öllum flokkum Alþingis. Þegar það var flutt var Bandalag jafnaðarmanna ekki komið á koppinn.