04.03.1983
Neðri deild: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2554 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

230. mál, almannatryggingar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er ekki lengra síðan en í gær að við vorum að fjalla um mál sem er skylt þessu. Það var auðvitað fellt hér, enda slæmt mál. Ég fagna því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur orðið sömu skoðunar og ég var hér í gær, þegar ég mælti á móti hennar frv., og flutti langa ræðu hér áðan, a. m. k. mörg orð á stuttum tíma, svo stuttum að það þarf alveg sérstakan móttakara til að ná slíkum ræðum. því að þarna hefði maður giskað á að ræða hefði verið flutt á svona 100 km hraða. (Gripið fram í.) Miðað við klukkustund. Já, ég hef nú ekki tekið eftir því hingað til að hv. þm. Guðrún Helgadóttir gæti ekki farið með býsna mikilli ferð, þegar sá gállinn er á henni, svo að ég tek þetta nú ekki til mín. (Gripið fram í.) Oft farið hátt upp og komið illa niður. En ef menn vilja fara að tala svona hér, eyða dýrmætum tíma rándýrrar stofnunar í að vera að kalla hér á mig og trufla mig á meðan ég er að flytja hér merka ræðu, þá þeir um það. Ég er í ágætu skapi og treysti mér til að svara hér hverjum sem er um þetta mál.

En það merkilega hefur skeð, að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir svona tannviðgerðamáli í gær og var alveg hneyksluð yfir því að ég hafði sitthvað við það að athuga. — Svo kemur það í ljós núna í þessari ræðu, sem maður náði svona einum og einum punkti úr og m. a. nokkrum af því tagi, að hún var farin að tala á móti málinu sem hún talaði fyrir í gær. Svona geta Alþfl.-menn sveiflast til á stuttum tíma. Er ekki furða þó að landslýður sé orðinn býsna þreyttur á slíkum vingulshætti.

Þetta frv. er auðvitað flutt af einskærri sýndarmennsku, til þess að geta þakkað sér framgang þess að fólk fái endurgreiddan hluta kostnaðar við tannviðgerðir, og engu öðru, því að hæstv. ráðh. er búinn að lýsa því yfir hér úr þessum ræðustóli að tryggingarnar greiði 20% af tannviðgerðarkostnaði. Málið, sem rætt var hérna í gær, var auðvitað allt annars eðlis. Það var þess eðlis, að ef fólk þyrfti að leggja út einhverja umtalsverða fjármuni til tannviðgerða, þá væri heimilt að draga það frá skatti. Umhyggja Alþfl. í þessu máli í gær var fólgin í því að styrkja þá efnuðu, sem borguðu skatta, til þess að greiða sínar tannviðgerðir. En þeir sem höfðu svo lágar tekjur að þeir fengu ekki skatt máttu borga þetta sjálfir án þess að fá nokkra aðstoð til þess. Þannig er nú komið fyrir Alþfl. á Íslandi. Að vísu er Alþfl. minnsti flokkurinn í þessu landi og heldur áfram að vera það sjálfsagt, jafnvel þó að einhverjir frambjóðendur skjótist inn með einn og einn aukaflokk nú um næstu og væntanlegar kosningar.

Herra forseti. Ég nenni satt best að segja ekki að ræða þetta mál efnislega að nokkru ráði. Það er raunar óþarfi að flytja þetta mál því að lausn er fundin og er í sjónmáli. Hæstv. fjmrh. sagði nokkuð í gær — eða kannske í dag við fjölmiðla og það sem hann sagði var mjög ánægjulegt. Hann hafði nefnilega fundið afgang í ríkiskassanum. Þrátt fyrir böl og alheimsstríð er þar einhver lögg eftir, ef miðað er við orð hæstv. fjmrh. Það er svo sannarlega gleðiefni og ekki það vitlausasta sem gert er að raða þessum milljónum upp í landsmenn. En ég undrast hversu hraður gangur er á þessu máli. Þetta mál er tekið hér fyrir í dag. Það er ekki dagsett. Það er líklega lagt fram í gær. (Forseti: Þetta mál var hér á dagskrá í fyrra.) Það vill nú svo til, að þinginu hefur verið slitið á milli. Ef hæstv. deildarforseti hefur ekki tekið eftir því, þá er rétt að hann rifji það upp. Þetta er sem sagt afturganga líka og er það alveg í stíl. En það breytir því ekki að þetta er endurflutt frv. og það er skyndilega komið hér, mál nr. 230, til umr. umsvifalaust. Mér er alveg ómögulegt að skilja hvernig stendur á því að þetta mál fær svo góða fyrirgreiðslu, eins og tíska er að orða hlutina í dag, á sama tíma og jafn gagnmerk löggjöf og brbl. þurfti að vera hér í marga mánuði. (Gripið fram í.) Ég verð nú að segja það, að þegar verið er að fjalla um mál er varða almannatryggingar og þau eru tekin hér til 1. umr., þá fyndist mér, ef þetta frv. á þá ekki að fara í einhverja allt aðra nefnd. eins og frv. sem þessi hv. þm. var að tala fyrir hér í gær. (Forseti: Ég má til að trufla hv. ræðumann. Forseti hefur sem mest að vinna við að ná góðu samkomulagi við hv. þdm. Þetta mál er þess eðlis að það hefur verið rætt hér lengi þótt það hafi ekki verið í þessum búningi, sem var gert í fyrra. Ég lofaðist til þess í gær að málið fengi að koma hér til umr. á fundi, sem ég hugðist halda allar götur til kl. 7 en hef nú vegna þrábeiðni Alþb. og þingflokksformanns þess fallist á að stytta, en að sínu leyti liggur mér ekkert á. Ég get ekki séð að menn geti nú, þegar við erum í slíkri tímaþröng, verið að setja sérstaklega út á það, þótt þetta mál nái inn í nefnd. Þetta eru skýringar sem ég sé mig tilneyddan að gefa. En allar ástæðurnar eru þær, að ég er sem mest að reyna að sigla á milli skers og báru í þessu vandasama samkomulagi, sem ég verð að ná til þess að hafa einhvern skapnað á starfsemi þessarar deildar.)

Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er skerið eða báran í þessu dæmi, en skiptir engu. Það er bent á að þetta frv. hafi verið rætt hér í fyrra. Ég er búinn að vera í 12 ár í þessari virðulegu stofnun. Þar hefur t. d. verið talað um efnahagsmál á hverju ári og í hverjum mánuði allan þann tíma og engin lausn fundin enn. Það er því vissulega ástæða til að ræða mál þegar þau rísa upp úr gröf sinni svo skyndilega eins og raun ber vitni.

Ég skal ekki eyða of miklum tíma í að ræða þetta. Það er til lítils. Þetta frv. er óþarft og það er flutt í sýndarmennskuskyni, eins og vænta mátti. Ef þm. eru svo gráðugir í að flytja einhver frv. um eitthvað til þess að þykjast elska fólkið í landinu meira en hinir, þá má það fyrir mér. Ég geri það ekki. En ég undrast að menn skuli vera að ræða hér mál eins og þetta við 1. umr. þegar vantar hlutaðeigandi ráðh., meira að segja tvo, því að þetta er mál hæstv. trmrh. (Forseti: Hæstv. félmrh. bað mig að skila því til deildar að hann mundi ekki ansa því þótt um hann yrði beðið á fund hér í dag.) Og ég vil benda á það, að sá ráðh. sem á að borga þetta, hæstv. fjmrh., er hér ekki heldur, enda er mér líka auðvitað alveg sama.

Herra forseti. Ég held að það ætti að gefa fleiri þm. kost á að ræða þetta mál, jafnvel þó það sé flutt í þessu yfirborðsskyni, og legg til að umr. verði frestað en ekki lokið.