07.03.1983
Efri deild: 58. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2570 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

227. mál, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og komið er óbreytt frá hv. Nd., er flutt að beiðni stjórnar sjómannadagsráðs og happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og er efni þess að framlengja heimild þessara aðila til rekstrar happdrættis um 10 ár eða til ársloka 1994.

Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna var komið á fót með lögum á árinu 1954. Gilti sú heimild í 10 ár, en hefur tvívegis verið framlengd um 10 ár í senn, síðast til ársloka 1984. Vegna framtíðaráætlana er nú sótt um framlengingu um 10 ár þótt enn sé rúmt ár eftir af heimildinni.

Ágóði af happdrættinu rennur lögum samkv. í Byggingarsjóð aldraðs fólks. 60% ágóðans skal varið til byggingar Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Heimilt er stjórn Dvalarheimilis aldraðra sjómanna þó að veita styrk eða lán til annarra dvalarheimila aldraðs fólks.

Ég tel eigi þörf á að rekja hér framkvæmdir þær sem unnið hefur verið að fyrir fé happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Hv, alþm. eru þær kunnar, byggingarnar að Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði. Að Hrafnistu í Reykjavík dvelja nú 380 manns á vistdeild, hjúkrunardeild, sjúkradeild og hjónagörðum. Á Hrafnistu í Hafnarfirði eru 188 manns í almennri deild og í hjúkrunardeild. Á báðum stöðum er fjöldi manna á biðlistum. Enn er ólokið ýmsum framkvæmdum við Hrafnistu í Hafnarfirði, svo sem við aðstöðu til endurhæfingar, sundlaug, lóð o. fl. Þar eru og fyrirhugaðar byggingar smáhúsa með litlum íbúðum sem byggðar verða í samvinnu við ýmsa aðila, verkalýðsfélög, góðgerðarfélög og sveitarfélög. Einnig er þar fyrirhuguð þriðja stóra byggingin, ætluð fyrir almenna vist og aldraða með geðræn vandamál.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja hér frekar fyrirætlanir sjómannadagsráðs. Allar eru þessar fyrirætlanir byggðar á því að samtökin njóti áfram þess stuðnings sem leiðir af rekstri happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Vegna undirbúnings framkvæmda og fjárskuldbindinga er stjórn dvalarheimilisins brýnt að fá afgreiðslu á þessu erindi og vænti ég þess að unnt verði að afgreiða frv. þetta nú á þinginu þótt liðið•sé mjög á þingtímann.

Ég tek fram að stjórnendur sjómannadagsráðs og happdrættisins hafa látið rn. í té nokkru gleggri grg. en ég hef hér rakið. Er hún að sjálfsögðu til reiðu fyrir þá n. sem fær málið til meðferðar. Þá er sjómannadagsráð án efa reiðubúið að láta í té allar nauðsynlegar upplýsingar.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.