08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

Um þingsköp

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil ekki sem þm. sitja undir þeim ásökunum frá hv. 4. þm. Reykv. að ég eða aðrir hv. þm. séu einhverjir sakamenn, þótt Alþingi hafi um tugi ára, lengur en elstu menn á Alþingi muna geri ég ráð fyrir, haldið árshátíð sína, að það sé saknæmt. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli jafnframt því, sem kom fram í orðum hans, að Alþingi væri að halda fleiri en eina veislu á hverju ári fyrir þm. Þetta er ekki rétt. Það er haldin ein árshátíð. Það sem mér hefur skilist á þeirri umr. sem hér hefur verið í frammi höfð frá þessum hv. þm. og reyndar á dagblöðum líka, er að þm. sendir flokksmönnum í sínum nýja flokki 5 000 bréf. Ég fæ ekki séð annað en lauslega áætlað nemi kostnaður þessarar sendingar á að giska launum tveggja verkamanna í heilan mánuð. Ef allir þm. notfærðu sér þetta og tekin væri viðmiðun af kostnaði, sem hann bar hér upp að væri við hverja þingveislu, þá gætum við haldið fimm þingveislur fyrir þá upphæð sem það kostaði ef allir þm. notuðu sér þessi vildarkjör hins nýja flokks.