08.03.1983
Neðri deild: 54. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

Um þingsköp

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika rækilega að ég hef aldrei notað orðbragð eins og „saknæmt athæfi“ eða nokkurn skapaðan hlut slíkan. Það eru ósannindi og rangindi hjá hv. síðasta ræðumanni að halda slíku fram. Hitt hef ég sagt, að hér er um að ræða kostnað af almannafé eins og hvern annan kostnað. Og ég er að bera hönd fyrir höfuð í þeim efnum, að það geti með nokkrum hætti verið athugavert að hv. alþm., hverjir sem þeir eru, kynni fólkinu í landinu þau störf sem hér fara fram með útsendingu gagna, en að því hefur verið fundið. Það er það sem er kjarni málsins.

Það stóryrðaglamur sem hv. síðasti ræðumaður notaði voru hans orð og ekki mín. Kjarni málsins er sá, að allar þær tölur sem hann nefnir eru rangar og út í hött. En um slíkt getum við fengið upplýsingar, að það hafa engar reglur verið um þessa hluti, það er mér er vitanlegt. En orð af þessu tagi, að um slíkt athæfi hafi verið að ræða, það voru ekki mín orð. En ef talið er, sem auðvitað er bæði satt og rétt, að allur almenningur eigi að fá allar slíkar upplýsingar, þá á hann líka að fá allar upplýsingar í smáu og stóru, og fyrir því er ég talsmaður, bæði um þær veislur sem hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur áhuga á og þá útsendingu gagna sem ég hef áhuga á.