09.03.1983
Neðri deild: 57. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

230. mál, almannatryggingar

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er samdóma álit flestra alþm., að því er virðist, að rétt sé að opinberir aðilar taki meiri þátt í tannlæknakostnaði en gert er nú. Því var lýst yfir um daginn að rétt væri að þetta yrði gert í gegnum almannatryggingakerfið. Hins vegar er ekki alveg sama hvernig í þetta er farið. Það getur munað æðimörgum milljónatugum hvaða regla er þarna viðhöfð, hvenær hún kemur til framkvæmda og með hvaða hætti. Þarna getur komið fleiri en ein leið til greina. Ég tel að málið sé ófullburða í því formi sem hér er verið að greiða atkv. og um brtt. greiði ég ekki atkv.