09.11.1982
Sameinað þing: 15. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

17. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að hv. síðasti ræðumaður hafi undirstrikað mikið af því sem ég sagði áðan um hinn eiginlega tilgang og hugsunina á bak við að flytja þessa þáltill. um úttekt á verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll. Það er ekki úttekt á starfseminni sem slíkri. Það er úttekt á fyrirtækinu. Hann spyr hvort þingið þori að takast á við þetta fyrirtæki. Það undirstrikar að þessum hv. flm. er í huga að hér verði stefnt í átök. Það er einmitt það sem ég var að gagnrýna við þáltill.

Hann talar um stóra húsið við Ártúnshöfða. Hann gefur í skyn að þarna sé komið fjármagn sem farið hafi til Reykvíkinga og þessir hagsmunaaðilar noti svo aftur húsið til að hagnast á í samskiptum við ríkið, sem er 25% aðili af Íslenskum aðalverktökum ef ég man rétt. Hér er verið að gefa í skyn. Hér er látin uppi einhver öfund yfir því að einhver skyldi nú hafa mikið upp úr því að skipta við þessa erlendu aðila.

Málflutningurinn gefur hugmyndafluginu lausan taum: Hvar er fjármagnið sem hefur farið í gegnum þetta fyrirtæki? Það er spurning. Þetta kemur á eftir því hvort Alþingi þori að takast á við þetta fyrirtæki: Hvert hefur þetta fjármagn farið? Þetta er rannsókn. Það er verið að gefa í skyn að þarna sé eitthvað óheiðarlegt í gangi.

Ég hef ekki heyrt getið um að þetta fyrirtæki starfi öðruvísi en lög og reglugerðir gera ráð fyrir, en það getur vel verið að flm. viti eitthvað meira um starfsemina og viti þá að eitthvað óeðlilegt eigi sér stað þarna og ef einhverjir hérna eru gegn því séu þeir að reyna að hilma yfir eitthvað. Það er síður en svo hvað mig snertir. Það kæmi ekkert við mig persónulega eða aðra þm. hér, geri ég ráð fyrir, að eitthvað skyldi nú koma í ljós sem er ekki heiðarlegt. En það þarf að koma betur fram í málflutningi með till. en hingað til hefur komið fram að það sé einhver sérstök ástæða til að skipa þessa rannsóknarnefnd á þann hátt sem hér er talað um og þar sem á að kalla fyrir alla hlutaðeigandi og yfirheyra þá opinberlega og láta almenning fylgjast með framvindu mála frá degi til dags, eins og ég skil tilvitnun í þessa þáltill. Þar tel ég óheiðarlega að staðið gagnvart þessum mönnum. Ég hef ekki heyrt þá stimplaða sem einhverja vandræðamenn í þjóðfélaginu nema síður sé.

Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir hans ágætu ræðu. Hann var rólegur og yfirvegaður, enda talaði ég þannig til hans að ég var að vona að ég róaði hann niður. Hann talaði ekki hraðar en hann hugsar. En hvernig má annað vera en ég læri af prófessornum? Það er ætlast til þess að þjóðinni sé kennt af prófessorum. (Gripið fram í: Ætlarðu að læra meira?) Menn geta alltaf lært meira, jafnvel prófessorar og ekki síst þeir, það er alveg tvímælalaust rétt, þannig að ég tel það mér ekki til miska að ég skuli læra af mönnum sem hafa það að aðalstarfi að unga út menntamönnum þjóðarinnar og kannske beint inn í þann félagahóp sem Guðmundur J. Guðmundsson er nú kallaður í hér. — En ég tel það mjög mikið mér í hag og undirstrika það hér hvað ég lærði mikið af Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Hann var ekki bara minn skólastjóri í tvo vetur, heldur ævilangt vinur minn eftir það. Sem þingsveinn kynntist ég honum einnig lítillega hér og ég tel mig hafa lært af honum í hvert einasta skipti sem ég hitti hann. Það hefði kannske náð að betrumbæta okkar ágæta 11. þm. Reykv. hefði hann kynnst þeim ágæta manni eins vel og ég gerði. Það var á við háskólanám.

En ég er líka samþykkur þeirri hugsun hv. 11. þm. Reykv., að að sjálfsögðu beri að samræma lýðræðið milli hinna ýmsu ríkja Atlantshafsbandalagsins. Ég harma þegar ástand eins og í Tyrklandi kemur upp, hvar sem það kemur upp. En ég hef ekki úr þessum ræðustól, hvorki fyrr né nú, látið uppi í umr. neina skoðun á þeim málum. Málin hafa bara ekki verið á dagskrá og eru ekki á dagskrá. Það getur vel verið að ég taki til máls þegar þau koma á dagskrá, ef þau koma þá á dagskrá.

Það var ýmislegt skemmtilegt sem kom hér fram hjá ágætum 4. þm. Reykv., eins og yfirleitt þegar hann tekur til máls. Annaðhvort er hann að brjóta niður atvinnurekendur, brjóta niður verkalýðsforingja eða brjóta niður eitthvað í þjóðfélaginu. Þessi hv. þm. hefur mér vitanlega ekki komið nálægt neinum af þessum samtökum, hvorki verkalýðs né atvinnurekenda, nema þá sem stjórnmálamaður, og ég veit ekki til að á uppvaxtarárum hafi hann haft mikið saman við þessa þjóðfélagshópa að sælda. Eftir því sem ég best veit er hann alinn upp í aftursætinu í ráðherrabíl. En vegna þeirra ágætu upplýsinga, sem virðulegur þm. lét uppi um minn tillöguflutning um rannsókn á Sambandi ísl. samvinnufélaga, er þess að geta að till. var flutt — það er rétt hjá hv. þm. — vegna þess að einmitt á þeim dögum voru hér uppi tillögur um að rannsaka fyrirtæki sem eru hlutafélög og einkafyrirtæki, Flugleiðir og síðan Eimskipafélagið. Eftir þeim ummælum sem frá hv. þm. sjálfum höfðu fallið um m.a. landbúnaðinn og samvinnuhreyfinguna á sinum tíma var þessi till. flutt. Mér fannst vera kominn tími til að viðkomandi aðili fengi a.m.k. að verja sig, það kæmi þá fram það rétta í málum, ekki bara um Flugleiðir eða Eimskipafélagið, heldur líka um samvinnuhreyfinguna. Ég vona að þetta svari þeim aðdróttunum sem hann var með í sambandi við þá till. sem ég flutti.

Hitt er annað mál, og ég veit ekki um einn einasta mann, það getur þó verið að hann sé til, sem mótmælir því orðspori sem hv. 4. þm. Reykv. sjálfur skapaði sér með því að kalla sig strigakjaft. Það var á hans ábyrgð. Ég er búinn að undirstrika það sem hann sagði sjálfur. Það getur vel verið að hann sé það. Það er hans mál.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja þessar umr., en ég vil undirstrika að ég er sammála hluta af þessari þáltill. Niðurlag hennar hefði verið nóg. En eins og hún er hér lögð fram get ég ekki samþykkt hana. Ég mun verða á móti henni. Niðurlaginu, og ég leyfi mér með leyfi forseta að lesa það aftur upp, er ég þó sammála. Þar segir:

„Tilgangur úttektarinnar er að kanna hvort þessum viðskiptum verði komið haganlegar fyrir en nú er og hvort ágóða af þeim verði með öðrum hætti haganlegar og réttlátar skipt en nú er. Talsmaður nefndarinnar skal gefa sameinuðu þingi skýrslu að úttektinni lokinni.“

Þessu er ég sammála, en ekki neinu sem er þar á undan.