10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2869 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

232. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það vill svo til að ég á sæti í þeirri n. í Sþ. sem fá mun þessa till. til meðferðar og get ég því verið örstuttorður, enda hef ég lofað því.

Ég fagnaði mjög á sínum tíma þegar stjórn Kísilmálmverksmiðjunnar hf. skilaði skýrslu sinni og ég tel að stjórnin eigi hrós skilið fyrir vandaða vinnu og ástæða sé til að fagna þeim niðurstöðum sameiginlegum sem hún kemst að og ekki ástæða til að leggja megináherslu á þær sérbókanir sem þar má út af fyrir sig finna. Hún birti niðurstöður sínar í einum sex meginatriðum málsins og kemst að þeirri mikilvægu niðurstöðu að hér gæti verið um vænlegan kost að tefla.

Þá er þess enn að geta, að svo er að sjá sem nú rakni úr í þeirri efnahagskreppu sem riðið hefur húsum í veröldinni hin síðari misserin, þannig að einnig það ætti mjög að gera þetta að álitlegri kosti en ýmsir hafa þóst sjá hingað til. En eins og ég segi: í niðurstöðum má lesa að hér kunni að vera um vænlegan kost að tefla.

Ég ætla aðeins að nefna tvö atriði, sem ég legg megináherslu á. Það er þá auðvitað hin gamla hugmynd og till. mín meira en áratugar gömul í Alþingi, að stórvirkjun rísi á Austurlandi, sem sjái m.a. þessari verksmiðju fyrir rafmagni með því móti eingöngu að beisla hið mikla afl og koma því í lóg. Með verslun við erlenda aðila getum við vænst þess að vinna bug á hinum óbærilega hitunarkostnaði heimilanna, sem er að sliga þau, ég tala nú ekki um á hinum köldu svæðum eins og á Austurlandi.

Í annan stað legg ég áherslu á þá skoðun mína og míns flokks, þá skoðun sem ég hef aldrei dregið dul á, að það eigi að breyta þeim lögum sem gilda um kísilmálmverksmiðjuna, þar sem tekið er fram að eignaraðild annarra en ríkisins geti þó ekki orðið meiri en 49%. Ég á beinlínis við að að því eigi að stefna að fá erlenda aðila í samvinnu við okkur, sem taki áhættuna og eigi þessi fyrirtæki. Þessi var skoðun mín þegar sílikonverksmiðjan í Hvalfirði var reist og það hefði betur farið að það sjónarmið hefði orðið ofan á, en þáv. iðnrh. okkar, fulltrúi Sjálfstfl. í ríkisstj., hefði ekki tekið upp stefnu Magnúsar heitins Kjartanssonar um að Íslendingar skyldu eiga þarna meiri hluta.

Ég stytti mál mitt, herra forseti, en ég hygg að þegar af er þessi ótíð í stjórn landsins muni tekið til við að leita eftir slíkri samvinnu, eignaraðild útlendinga að slíkri verksmiðju þar sem þeir bæru megináhættuna. Og ástæðan er einföld fyrir þessari minni skoðun og míns flokks. Hún er sú, að um síðasta stig framleiðslunnar, söluna, munu Íslendingar aldrei hafa neitt að segja. Þar ráða, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hákarlar viðskiptalífsins, auðhringarnir stóru, og af því að við getum ekki haft áhrif á það getum við ekki tekið þá áhættu að vera aðaleignaraðilar slíkra fyrirtækja.

Ég veit hvað minn góði vinur, hæstv. iðnrh., hefur um þetta að segja. Hann er alveg öndverðrar skoðunar. Hann kallar það íslensku stefnuna sína að við bægjum útlendingum sem mest frá í þessum sökum. Þetta er hans einlæga skoðun og eftir henni fer hann auðvitað og það met ég vissulega og virði. En ég hika ekki heldur við að halda minni fram.

En sem ég segi: Ég lýsi yfir fylgi við þessa þáltill., en þegar atvmn. fer að fást við tillgr. þykist ég þurfa að bæta þar við og bæta um betur með brtt. eins og þeirri að inn í tillgr. yrði fellt að unnið skuli markvisst að því á næstunni, eins og segir hér raunar í niðurstöðu n., að fá til samstarfs við íslenska ríkið aðra eignaraðila, innlenda og erlenda, en eignaraðila sem mundu vilja taka áhættu.