10.03.1983
Sameinað þing: 63. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

231. mál, viðræðunefnd við Alusuisse

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Þeim hefur tekist, hv. þm. Alþb., að skerða nokkuð þann tíma sem ætlaður var til umr. um það mál sem nú hefur verið tekið á dagskrá.

Í tilefni þeirra þingskapaumr., sem hafa farið fram, vil ég taka það sérstaklega fram að það mál sem hér er til umr. byggir á 24. máli, sem lagt var fyrir yfirstandandi Alþingi. Það mál var rætt í hv. atvmn. Hinn 14. febr. var haldinn fundur í n. og ákveðið að afgreiða málið út á næsta fundi, en gefinn frestur í málinu. Á næstu fundum þar á eftir var gefinn frestur í þessu máli að sérstakri beiðni hv. þm. Garðars Sigurðssonar, sem hér talaði síðast úr ræðustól, vegna þess m.a. að hann óskaði eftir því að fá að athuga það í sínum þingflokki hvort hann gæti gerst meðflm. þeirrar þáltill. sem hér er til umr.

Það er ljóst að mikill meiri hl. hv. atvmn. stendur að þessu máli eða sex af sjö nm. og í örstuttri grg. með till. er sagt, með leyfi forseta:

„Að þessari till. standa allir nm. atvmn. nema fulltrúi Alþb., Garðar Sigurðsson.“

Af þessum orðum má öllum ljóst vera hverjir standa að till.

Varðandi frsm. skal það tekið fram, að þess var auðvitað getið í fundargerðabók, þannig að það var auðvelt verk fyrir hv. þm. að komast að því hver hafi verið kjörinn frsm. nefndarmeirihluta. Það skal auk þess tekið fram, að þegar nefndir flytja ný mál er það yfirleitt ekki tekið fram hver sé frsm. n. Hér er um nýtt mál að ræða, þótt það sé flutt í beinu framhaldi að fyrirliggjandi till., sem lá fyrir hv. atvmn.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gerði mikið veður af því, til þess að geta eytt nokkrum mínútum af dýrmætum tíma hv. Alþingis, að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafði staðið að því að varaformaður Sjálfstfl. væri frsm. í þessu máli og taldi það mikil drottinsvik að 1. þm. Austurl. skyldi standa að slíku og þvílíku. Í þessu sambandi væri kannske til skemmtunar hægt að rifja það upp að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., gerði þáv. varaformann Sjálfstfl. að forsrh. og hikaði ekki við það, þegar hann átti í hlut, og talaði þá allra síst um drottinsvik, heldur um virðingu Alþingis.

Herra forseti. Ég var kjörinn frsm. í þessu máli. Ég hef gert grein fyrir því að hér er um sérstakt þingmál að ræða, þótt það byggi á fyrirliggjandi till. Í þáltill. er gert ráð fyrir að skipuð verði sex manna viðræðunefnd og það eigi hæstv. ríkisstj. að gera. Skal hver þingflokkur tilnefna einn fulltrúa, forsrh. einn og Landsvirkjun einn. Nefndin kjósi sér sjálf formann. Þá er greint frá því, hvert eigi að vera starfssvið nefndarinnar og að nefndin eigi að hafa aðgang að þeim gögnum sem liggja fyrir í þessu máli.

Ég mæli með því, herra forseti, að þetta mál fái hraða afgreiðslu á yfirstandandi Alþingi á þessum fáu dögum sem eftir eru. Málinu þarf ekki að vísa aftur til nefndar, þar sem málið hefur verið rætt þar mjög ítarlega, og eðlilegt að afbrigða verði leitað til þess að tvær umr. geti farið fram hvor fram af annarri.

Það er sjálfsagt óþarfi að rekja í löngu máli sögu málsins, en það var í des. 1980 að hæstv. iðnrh. gekk út af þingfundi og hélt blaðamannafund þar sem hann sakaði Alusuisse um „hækkun í hafi“ eins og það var kallað, og fleira í þeim dúr. Í bréfum hæstv. ráðh. var staðhæft að hér væri um sviksamlegt athæfi að ræða. Þrátt fyrir beiðni hæstv. ríkisstj. um að notast ekki við slíkt orðalag var það eftir sem áður notað í bréfi til Sviss frá hæstv. ráðh.

Segja má að allar götur síðan hafi meðferð málsins verið með þessum sérkennilega hætti sem upphafið gaf tilefni til. Engar viðræður áttu sér stað við fulltrúa Alusuisse fyrr en haustið 1981. Meginástæðan fyrir þessari bið var sú, að beðið var eftir skýrslum endurskoðunarfyrirtækisins Coopers & Lybrand. Frá því fyrirtæki komu drög í marsmánuði 1981 og í framhaldi af því stundaði Ingi R. Helgason lögfræðingur mjög ferðalög til Lundúnaborgar, þar sem hann var í sambandi við fulltrúa Coopers & Lybrand. Endanleg gerð skýrslunnar frá Coopers & Lybrand kom svo fram í júlí. Það ber að taka það fram að hækkun raforkuverðs var ekki á dagskrá á þessum tíma, þótt hæstv. ráðh. léti í það skina síðar að hann hefði haft það í huga frá upphafi málsins.

Síðla sumars 1981 skipaði ráðh. síðan svokallaða álviðræðunefnd og var henni sent erindisbréf síðar eða í septembermánuði. Með þskj. 24 fylgir ályktun sem Sjálfstfl. lét frá sér fara varðandi það mál og er óþarft að rekja það hér og nú. En þó tel ég, herra forseti, ástæðu til, vegna þess hver framvinda málsins hefur orðið að undanförnu, að gera í stuttu og eins skýru máli og hægt er grein fyrir hver hafa verið samskipti Sjálfstfl. og hæstv. iðnrh. í þessu máli, því að þau samskipti eru án efa táknræn um vinnubrögð hæstv. ráðh.

Í des. 1980 bauð Sjálfstfl. samvinnu í málinu í umr. á Alþingi í Ed. Því var engu sinnt. Í júlí 1981 tilnefnir flokkurinn síðan mann í nefnd eftir að ríkisstj. falaðist eftir samvinnu. Sjálfstfl. óskar eftir því að nefndin verði fagleg undir forustu sem flokkurinn geti sætt sig við, og yrði þar að sjálfsögðu fyrst og fremst rætt um ágreiningsmálin, súrálsmálið og skattana, og síðar um framtíðarsamskipti.

Um miðjan sept. kemur síðan erindisbréf til nefndarinnar. Það má segja að allt frá þeim tíma hafi samráð aldrei verið nægilega gott á milli hæstv. ráðh. og stjórnmálaflokkanna í landinu annarra en Alþb. Innan tíðar, eða nánar tiltekið í febr. 1982, má segja að álviðræðunefnd verði aðeins áhorfendahópur að viðræðum hæstv. iðnrh. og Alusuisse. Frá þeim tíma hefst sú saga sem allir Íslendingar þekkja, þessi klúðurssaga hæstv. iðnrh. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann að fresta ræðu sinni þar sem nú hafa verið boðaðir deildafundir.) Það er sjálfsagt, herra forseti. — [Frh.]