11.03.1983
Efri deild: 67. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

249. mál, samkomudagur Alþingis

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, gefur ekki ein sér tilefni til margra orða. Það má segja að hún geri hvorki gagn né skaða nema eitthvað annað og meira byggi á bak við. En það er einmitt það sem grunsemdir hafa vaknað um. Menn hafa viljað túlka það svo, að hún væri viljayfirlýsing um að þessir flokkar vildu og teldu að fram ættu að fara tvennar kosningar á sumri komanda.

Nú er það náttúrlega þeirra mál að ákveða það á sínum tíma, ef þeir eru þeirrar skoðunar, sem ég mun víkja aðeins að síðar. En till. sjálf gefur, eins og ég sagði, ekki tilefni til þess að um hana sé farið mörgum orðum út af fyrir sig. Það eru stjórnarskrárákvæði um aukaþing og ég geri ráð fyrir að enginn haldi því fram að hér sé ætlunin að boða til reglulegs þings, heldur geri ég ráð fyrir að menn séu sammála um að það sé aukaþing sem hér er um að tefla.

Það stendur skýrum stöfum í 22. gr. stjórnarskrárinnar að forseti lýðveldisins kveður Alþingi til aukafundar þegar nauðsyn er til. Þetta stendur í framhaldi af því sem segir um reglulegt Alþingi, þannig að um það er auðvitað engum blöðum að fletta að það er forseti sem stefnir saman aukafundum Alþingis. Hann gerir það að sjálfsögðu með undirskrift og á ábyrgð forsrh. En það stendur skýrt í stjórnarskránni að það á ekki að efna til slíks aukaþings nema nauðsyn beri til og það er auðvitað forseti sem metur á ábyrgð forsrh. hvort slíka nauðsyn beri til aukaþings eða ekki. Þegar þing er rofið er öryggisákvæði í 79. gr. um að Alþingi skuli koma saman innan 8 mánaða frá því að kom til þingrofs.

Það er nú svo, og ég vona að það verði ekki deilumál hér þegar menn athuga málið betur, að vald forseta samkv. niðurlagi 22. gr. stjórnarskrárinnar verður ekki skert né takmarkað. Það verður ekki gert með lögum. Það má með lögum breyta samkomudegi reglulegs Alþingis og það hefur verið gert. Það er reyndar fast ákvæði nú í lögum sem ákveður samkomudag Alþingis, en það á auðvitað á engan hátt við um aukaþing. Það væri út í bláinn og gæti ekki staðist ef það væri farið að setja lög um að aukaþing skyldi koma saman á einhverjum ákveðnum dögum. Það stangast á við það, sem segir í stjórnarskránni, að aukaþing skuli koma saman þegar nauðsyn ber til. Það má segja að það sé ekki þingið sjálft sem metur þá nauðsyn, heldur sé það forsetinn, eins og ég hef sagt, sem metur þá nauðsyn á ábyrgð forsrh. Þessu ákvæði verður ekki breytt með lögum. Þá liggur í augum uppi að því verður því síður breytt með þál. Á þessu vildi ég vekja athygli. Þess vegna er það, að þessi þál. og sú viljayfirlýsing sem í henni felst er í raun og veru markleysa, sem vel getur verið að forseti taki tillit til. Um það skal ég ekkert segja. Það er ekki á mínu valdi. En það er algerlega undir hans mati komið. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu hef ég ekkert á móti því að tíminn sé drýgður með frammíköllum. Hvað var hv. þm. að spyrja um? (Gripið fram í.) Ég sagðist ekkert fullyrða um það. Það er hans mál, en ekki mitt mál. (Gripið fram í.) Já, ekki mál Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Það fer auðvitað eftir atvikum hvað forseti gerir í því efni. Það fer eftir mati á því, hvort hann telur nauðsyn bera til að kalla saman þing.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að það verður kallað saman aukaþing eftir þessar kosningar. Hvort það gerist innan 18 daga frá kosningum eða ekki er undir mati forseta komið, hvort hann telur nauðsyn til þess eða ekki. Þingið getur ekki bundið hendur forseta að þessu leyti. Það er aðeins hægt að breyta þessu með stjórnarskrárákvæði. Það hefur verið venja oft og einatt að í stjórnarskrárbreytingum og lögum um stjórnarskrárbreytingar hefur verið bráðabirgðaákvæði einmitt um þetta atriði, þar sem er tekið fram um þetta atriði. Þegar stjórnarskrárgjafinn vill ekki láta það vera á valdi forseta eins og það er eftir stjórnarskránni tekur hann það fram, en löggjafinn getur ekki gert það. Lægra stjórnvald getur auðvitað ekki bundið hendur æðra stjórnvalds. Það er einungis æðra stjórnvald sem getur bundið hendur lægra stjórnvalds.

Ég sé að hv. þm. Vestf. brosir og það er gott. Ekki veitir af að létta lundina í þessum þingsal. Ekki veit ég hvað honum hefur þótt broslegt við þetta, en hann upplýsir það í ræðu á eftir. (ÓRG: Það er broslegt hvað ráðh. ætlar sér að tala lengi marklausar þingræður.) Ja, ég hef talið nauðsynlegt að gera hv. þm. grein fyrir því hvernig ég lít á þetta mál og ég veit ekki annað en ég hafi fullt málfrelsi til þess. (ORG: Og okkur er frjálst að brosa að því?) Já. Ég hef málfrelsi hér engu síður en nafni minn. hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. (ÓRG: Meira málfrelsi.) Já, ég hef meira, ef í það fer, og það getur komið sér vel ef þyrfti að stinga upp í hv. þm.

Þingið getur ekki bundið hendur sjálfs sín með viljayfirlýsingum, það held ég líka að sé nokkuð viðurkennt, ekki einu sinni þó að það sé sama þingið, hvað þá fráfarandi þing, sem ætlar að binda hendur þings eftir nýjar kosningar; sem kann að vera skipað allt öðrum mönnum. Það er nú svo, að það er aldrei neitt öryggi í kosningum og það veit enginn hverjum kann að skila inn á þing og hverjir liggja eftir úti. Menn geta talið yfirgnæfandi líkur á því að þessi eða hinn fljóti áfram inn og aðrir muni ekki komast. Staðreyndin er sú, að um þetta er aldrei hægt að fullyrða neitt og allra síst í talsverðu umróti sem nú er í stjórnmálum. Ollum er kunnugt að fleiri flokkar verða t.d. í boði. Maður veit ekkert hvaða fylgi þeir kunna að fá og hve margir nýir þm. koma til með að skipa hið nýkjörna þing. Þess vegna er augljóst að fráfarandi þing getur ekki gefið nýkjörnu þingi nein fyrirmæli. Það er álíka fráleitt og ef fráfarandi ábúandi færi að senda orðsendingu til viðtakandi leiguliða um að hann skyldi nytja túnið svona og svona eða ekki.

Ég hef talið nauðsynlegt að benda á þessi atriði til að sýna fram á hvers vegna ég tel þessa yfirlýsingu markleysu.

Ég tel, eins og ég sagði áðan, að það muni að sjálfsögðu verða kvatt saman aukaþing og það muni verða gert fljótlega. Það getur vel skeð að þau tímamörk, sem þarna eru sett, séu ekki alls óeðlileg. Það getur staðið þannig á. En hitt er jafnvíst að það getur staðið svo á að það sé réttlætanlegt að kvaðning aukaþings dragist nokkuð. Setjum svo að það verði mynduð stjórn mjög fljótt eftir kosningar. Þá geri ég ráð fyrir að sú stjórn vildi gjarnan fá ráðrum til að undirbúa mál fyrir þing áður en það er kvatt saman. Þess vegna finnst mér óeðlilegt í mesta máta að ætla að reyna að setja skorður í þessu efni þannig að það ætti að vera hægt að hnika þessu til. Nú er það að vísu svo, að það er ekkert slíkt í þessari till. Hún bindur ekki þannig. Það verður alveg á valdi þess sem við tekur að ákveða hvernig að er farið. Þess vegna er það, eins og ég gat um, að þessi till. gerir engan skaða og gagn sé ég ekki að hún geti gert.

Ég sé sem sagt ekki að það sé ástæða til þess nú, ef það væri meiningin og það hefur verið meiningin eftir því sem fram hefur komið í málflutningi tillögumanna eða þess sem hefur talað fyrir till. nú, að ákveða samkomudag Alþingis. Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess fyrir fram. Það verður gert, þegar kosningar hafa farið fram, af þeim sem bær er til þess og það er engin ástæða til þess að það dragist úr hömlu.

Hitt er svo það, að vaknað hafa grunsemdir um það og ekki að ástæðulausu, vegna þess að yfirlýsingar í þá átt mun hafa mátt sjá eða heyra, að það ættu að fara fram tvennar kosningar á sumri komanda. Miðað við ummæli ýmissa stjórnarandstæðinga að undanförnu um ástand í þjóðfélagsmálum og þá ekki hvað síst efnahagsmálum mætti ætla að það væri meiri ástæða til einhvers annars en tvennra þingkosninga á sumri komanda. Þau ummæli fela í sér að vísu ýkjur og alhæfingar, sem ég tek ekki undir nema að nokkru leyti.

Það er rétt að ástandið er alvarlegt á ýmsa vegu, ekki hvað síst í efnahagsmálum og atvinnumálum, og þeir munu fáir verða til þess að neita því hér á Alþingi að það þurfi að gera ráðstafanir í þeim efnum og það þurfi að taka á þeim málum á annan veg en gert hefur verið að undanförnu, það þurfi að taka á þeim málum sem allra fyrst. Og þeir munu verða margir sem telja æskilegt að eftir kosningar myndist nýr starfhæfur meiri hl. sem getur staðið að ríkisstjórn þannig að það ástand sem hefur staðið nokkuð lengi standi ekki öllu lengur, að ríkisstj. sé í sjálfheldu og þeir flokkar sem standa að ríkisstjórn geti ekki komið fram nauðsynjamálum. Ég held að það sé þetta sem sá meiri hl. sem hlýtur að myndast eftir nýjar kosningar verður að snúa sér að og það sé það sem verður að hafa forgang umfram það að efna til annarra alþingiskosninga alveg á næsta sumri. Það má vel vera að meiri hl. takist að ganga frá slíkum tillögum. Það má vel vera að þær tillögur fáist samþykktar eða staðfestar á því aukaþingi, sem kemur saman, og það getur vel verið að þá megi efna til nýrra kosninga. Ég útiloka alls ekki að það geti farið fram tvennar kosningar. En ég segi: Það er ekki tími til þess nú að vera að ákveða slíkt, hvorki beint né óbeint né gera gælur við þá hugmynd. Fyrst skulum við reyna að koma efnahagsmálum í það ástand sem þörf er á og bjarga því sem bjargað verður.

Ég er alveg viss um að hv. 1. flm. þessarar till., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, tekur undir hvert orð af þessu sem ég sagði vegna þess að hann tók það svo skilmerkilega fram í ágætri og athyglisverðri ræðu, sem hann flutti hér á dögunum í sambandi við fjáröflun til vegamála, að það hefði ekki verið tekið á málum eins og þörf væri á og það stæði upp á okkur ráðh., ekki síst þá sem veita forstöðu ráðuneytum sem þurfa á miklu fé að halda, að sýna aðhald í þessum efnum og taka málin á annan veg en gert hefur verið. Ég er honum sammála um þetta. Ég er honum sammála líka um að það hafi kannske ekki verið alveg 100% skynsamleg aðferð sem beitt var þegar aðflutningsgjöld á bíla voru lækkuð og svo var aftur farið að leggja á gjöld með öðrum hætti. Öllum getur nú yfirsést og það kemur líka fyrir á þessu stjórnarheimili.

En það eru miklir erfiðleikar sem við er að etja. Um það eru allir sammála. Stjórnarsinnar viðurkenna að það séu tímabundnir erfiðleikar sem við er að fást, þó að stjórnarandstæðingar máli þá náttúrlega sterkari og svartari litum en eðlilegt er. Þeir erfiðleikar eiga fyrst og fremst auðvitað rætur sínar að rekja til aðstæðna og ástæðna sem okkur eru óviðráðanlegar, eins og aflarýrnunar og sölutregðu og annars slíks og ýmiss konar óróleika í efnahagsmálum veraldarinnar. Samt dettur mér ekki í hug að halda því fram að sumt megi ekki rekja til þess að núverandi stjórn og stjórnarflokkar hafa ekki haft tök á þessum málum, sem stjórnarflokkar þurfa að hafa, og hafa þess vegna ekki getað gert þær ráðstafanir sem hefði þurft. Og stjórnarandstaðan hefur verið svo skammsýn að leiða aldrei hugann að því að komast í stjórnarstóla eftir næstu kosningar og þyrfti þá e.t.v. að fara að huga eitthvað að þessum málum. Það hefði hún betur gert stundum og tekið undir skynsamlegar ráðstafanir sem hér hefur verið hreyft og hafðar eru á orði. Ég ætla ekki að fara að saka einn eða neinn í þessu efni, en þetta eru staðreyndir sem hér liggja fyrir. Þess vegna er það sjónarmið okkar framsóknarmanna að það þurfi að nota tímann til annars en vera að bollaleggja um tvennar kosningar, án þess að við viljum útiloka á nokkurn hátt að það geti komið til þess að það sé hægt að láta þær fara fram á þessu sumri.

Mín skoðun er sú, að þar sem hér er verið að innleiða að nokkru nýja skipan sé eðlilegt að það dragist ekki óeðlilega að nýjar kosningar fari fram. En það á ekkert skylt við að ákveða endilega nú hvenær slíkt skuli gert. Nú verð ég að segja að það er ekki gert með þessari till. Hún er ekki um tvennar kosningar, heldur um að aukaþing skuli koma saman innan ákveðins tíma. En það eru vissar grunsemdir sem hafa vaknað og það væri vissulega ánægjulegt ef menn gætu risið hér upp og skýrt það skilmerkilega að þær grunsemdir væru ekki á neinum rökum reistar, það hvarflaði ekki að neinum að fara að efna til nýrra þingkosninga fyrr en búið væri að laga ýmislegt sem aflaga fer í þjóðfélaginu. Það er sú yfirlýsing sem ég vildi gjarnan fá.

Þessi ályktun er ekki þess eðlis að ég hafi nokkra tilhneigingu til að vera að tefja hana með málþófi. En hún er samt það einstæð í þingsögunni fyrir margra hluta sakir að það er ástæða til að eyða örfáum orðum að henni.

Það tíðkaðist á árum áður, vissulega ærið oft, að þáltill. væru fluttar í deildum, enda fóru störf Alþingis þá yfirleitt fram í deildum, en ekki Sþ. En sá háttur hefur hins vegar komist á á síðari árum að þáltill. væru fluttar í Sþ., en ekki í deildum. Samt sem áður tíðkaðist líka oft að fluttar væru tillögur í deildum. Þá báru þær yfirleitt forskriftina: neðri deild Alþingis lýsir yfir eða efri deild Alþingis lýsir yfir. En þó hefur alltaf verið gert ráð fyrir að þáltill. gætu gengið á milli deilda og það er auðvitað meiningin í þessu tilfelli, sem hér er um að tefla, vegna þess að hér stendur: Alþingi lýsir því yfir. Þess vegna er ætlast til þess að þessi till. gangi nú til Nd. og hljóti þar samþykki líka og allt er í lagi með það. En þá ber svo einkennilega til, að það er þarna niðri í Nd. samhljóða till. og hún verður náttúrlega líka að koma upp í Ed. og verða samþ. hér. Það er þá meiningin að Alþingi samþykki tvær shlj. ályktanir um þetta efni. Þetta held ég að sé einsdæmi. Þetta ber kannske vitni um að það væri fullmikið óðagot á flm.

Þetta er aukaatriði sem ekki skiptir miklu máli. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. verður nokkuð lengi á eftir að þekkja þær. Það er alveg víst að það tekur eitthvað fram á kvöldið. Ég efast ekki um að þessi tungulipri hv. þm. muni geta talað langt um þetta. En ég þekki lögskýringar hans sumar og fer nærri um hvernig þær muni verða. Ég mun ekkert láta af minni skoðun í þeim efnum. En hann fær að tala síðar. Það gefst nægur tími til þess. (Gripið fram í: Hvenær?) Hér hefur ekki verið takmarkaður ræðutími og menn mega hafa sína skoðun á því hvort mínar lögskýringar séu einkennilegar eða einkennilegar ekki og hvernig minn málflutningur sé, það skiptir engu máli, það hafa allir frelsi að sjálfsögðu til þess, en hitt er náttúrlega fyrsta aðalsmerki þeirra manna, sem flytja sitt mál og ætla að tala fyrir því, að þora að hlusta á málstað sem fluttur er og geta síðan svarað með rökum ef þeir treystast til.

Ég skal nú, herra forseti, fara að ljúka máli mínu því að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja miklu frekar um þetta. Ég vil þó endurtaka það, sem ég hef sagt, að ég er þeirrar skoðunar að það verði að sjálfsögðu fljótlega kallað saman aukaþing. Ég tel það alveg sjálfgefið að núv. ríkisstj. segi af sér þegar að loknum þessum alþingiskosningum og þá verði að hefjast handa um að mynda nýja ríkisstj. Það verður svo á valdi þeirrar ríkisstjórnar, sem þá kann að verða mynduð, hvenær auka Alþingi verður kvatt saman, en sjálfsagt er að það verði fyrr en síðar.

En út af þessum grunsemdum, sem ég hef gert hér nokkuð að umtalsefni, langar mig til að beina spurningum til hv. 1. flm. Það er í fyrsta lagi þessi einfalda spurning: Ber að túlka þessar tillögur, sem svo mikið hefur verið haft við að þær hefur þurft að flytja í báðum deildum, sem viljayfirlýsingar um tvennar kosningar á sumri komanda? Ég hugsa að fólki almennt þyki fróðlegt að fá að heyra það og heyra þau rök sem fyrir því eru færð ef svo kynni að vera. (Gripið fram í: Svarið er nei.) Svarið er nei. Það er nú stutt og laggott og heldur í styttra lagi af hv. þm. Venjulega hefur hann nú þurft að nota fleiri orð. En ég veit að hann gerir það hér á eftir.

En þá ætla ég að spyrja annarrar spurningar. Telur hv. 11. þm. Reykv. tvennar kosningar á næsta sumri heppilegar Ég fer alls ekki fram á það að hann svari þessu með jái eða neii strax á stundinni, alls ekki. Það er jafnvel vel líklegt að viðhorf manna til þeirra spurninga mótist dálítið af því hvernig kosningaúrslitin verða og hvernig þau koma við menn. Um þau getur ekki nokkur lifandi maður spáð nokkru. En það er að mínum dómi mjög æskilegt fyrir kjósendur að fá að heyra og vita um viðhorf manna til þessa, viðhorf frambjóðenda í þessum kosningum, því það verða þeir sem koma til með að koma inn á þing. Það er ekki eins mikils virði að fá að vita um hvað þeir menn, sem nú sitja á þingi, hafa um þetta að segja.

Ég læt nú máli mínu lokið. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að þessari umr. verði frestað og þessi till. gangi til nefndar eins og venjulegt er. Þetta er ekki till. flutt af nefnd og þetta er ekki till. flutt af neinum meiri hl. nefndar, heldur aðeins af einstaklingum, þannig að hún á að fara til nefndar réttum reglum samkv. — Ja, nú versnar í því. Ég sé að hv. 1. flm. hristir höfuðið. Þá vil ég treysta á réttsýni forseta og mælist til þess að forseti ráðfæri sig við skrifstofustjóra um hvort svona till. eigi að fara til nefndar eða ekki. Ég mun algerlega beygja mig fyrir úrskurði þeirra um það efni.