11.03.1983
Neðri deild: 62. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

230. mál, almannatryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég verð þess var að hv. þm. gerast hvumpnir við aðfinnslu hv. 3. þm. Austurl. vegna þess máls sem hér er til umr. Ég held þó að þeir ættu að athuga betur hans málflutning og reyndar líka málflutning hv. 1. þm. Vesturl. þegar þessir tveir þm. gagnrýna þetta mál. Þeir eru ekki að gagnrýna okkur þm. sem fluttum þetta mál né í raun hæstv. heilbr.- og trmrh. Þeir eru að gagnrýna sína eigin ráðherra í ríkisstjórn Íslands fyrir að hafa farið út í þessa vitleysu sem þeir telja vera. Þeir eru að gagnrýna þá fyrir að hafa staðið þannig að yfirlýsingu hæstv. heilbrmrh., sem hann gaf Alþingi hér um daginn og fékk góðan stuðning hæstv. fjmrh. til, þegar hann lýsti því yfir að svo mikill tekjuafgangur væri hjá ríkinu að óhætt væri að fara þessa leið.

Ég get vel skilið þetta með hliðsjón af því sem skeð hefur innan Framsfl. á síðustu misserum, að það er farið að losna um ráðherrasæti þeirra ráðherra sem þar sitja og nýir menn búa sig undir að velgja þær setur í framtíðinni. Ég tek undir þær skýringar sem hér hafa komið fram hjá þeim hv. þm. sem hafa talað í þessu máli. Við töldum auðvitað ekki nokkurn möguleika á því að láta það viðgangast til frambúðar að í slík stórútgjöld ríkisins væri ráðist án þess að skýrar lagaheimildir væru að baki slíkra útgjalda. Þar fyrir utan er gagnrýni þessara hv. þm., a.m.k. annars þeirra, algerlega út í hött, þegar hann flytur hér frv., sem kostar miklu, miklu meira, án þess að benda nokkuð á hvaðan fé eigi að koma til þess að greiða þann kostnað.

Mér sýnist spil þetta vera svo mikill leikaraskapur, að forseti eigi að stytta þessar umr. svo sem honum er mögulegt og hann er þekktur fyrir að geta gert á síðkvöldum.